21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

79. mál, viðgerðir á íslenzkum skipum

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Eins og frv. þetta ber með sér, er svo til ætlazt, að aðgerðir á íslenzkum skipum verði hér eftir framkvæmdar í landinu sjálfu, að svo miklu leyti sem það er unnt og með þeim undantekningum, sem gert er ráð fyrir í frv.

Eins og kunnugt er, má svo heita, að allar meiri háttar aðgerðir á íslenzkum stórskipum, togurum og flutningaskipum, hafi verið framkvæmdar ytra á undanförnum árum. Þetta er eðlilegt, vegna þess að til skamms tíma hefir þess ekki verið kostur að framkvæma þessar aðgerðir innanlands, vegna vöntunar á ýmsu, sem til þess þarf, svo sem dráttarbraut og fleira.

Þó að stórskipafloti okkar hafi verið nokkuð stór í seinni tíð, eða 50–60 skip, þá hefir þessum málum ekki verið komið lengra en það, þangað til fyrir svo sem 2–3 árum, að meiri háttar aðgerðir á slíkum skipum var ekki hægt að framkvæma innanlands. Stærsta sporið í framfaraátt í þessu efni má óefað telja það, að komið var hér upp dráttarbraut, sem getur a. m. k. tekið upp alla togara okkar og þaðan af minni skip. Og nú er svo talið af fróðum mönnum, að hér sé hægt að framkvæma nær allar aðgerðir á þessum skipum. Fagmenn okkar í skipaviðgerðum, járniðnaðarmenn og aðrir, munu sízt standa að baki erlendum mönnum í þessum greinum. Og af afspurn er mér það kunnugt frá þeim, sem reynslu hafa í þessum efnum, að skipaviðgerðir, sem framkvæmdar hafa verið hér heima, eru sízt lakari en þær, sem framkvæmdar hafa verið ytra. Þess munu jafnvel dæmi, að aðgerðir á skipum hafa verið svo illa framkvæmdar á verkstæðum ytra, að þegar skipin hafa komið hingað heim, hefir þurft að gera á þeim stórfelldar endurbætur. Mun óhætt að fullyrða, að íslenzkir iðnaðarmenn í þessum greinum standi sízt að baki þeim útlendu. Og tæki munu vera orðin hér nægileg til þessara aðgerða, og ekki munu þær vera framkvæmdar svo, að þær verði eigendum skipanna dýrari hér en ytra. Enda mun vera hægt að benda á það, að þeir útgerðarmenn, sem allt bendir til, að hafi mesta fyrirhyggju og af mestri skynsemi stjórni sínum útgerðarfyrirtækjum, láta aðgerðirnar á sínum skipum fara fram nær eingöngu hér heima, nema þegar þeir í vissum tilfellum komast alls ekki hjá að láta þær fara fram ytra.

Ýmislegt er það fleira, sem mælir með því að flytja aðgerðirnar á skipunum inn í landið, svo sem hið gífurlega atvinnuleysi, sem ríkir nú hér hjá okkur, ekki síður meðal manna í þessari atvinnugrein heldur en öðrum. Ennfremur má benda á það, að það kostar erlendan gjaldeyri að láta aðgerðirnar fara fram á erlendum verkstæðum. Og á slíkum tímum sem nú eru, þegar svo má segja, að allan erlendan gjaldeyri verður að skera við neglur sér, virðist full ástæða til þess að draga úr gjaldeyrisveitingum í þessu skyni, og þá ekki sízt þegar hægt er að sýna fram á það með fullum rökum, að a. m. k. hluta af þessum gjaldeyri, sem varið er í þessu skyni, mætti spara með því að láta framkvæma mikið af þessum viðgerðum hér heima.

Það mun nú vera svo ástatt, að það muni láta nærri, að það séu á milli 50 og 60 skip, sem geti komið til mála að láta framkvæma aðgerðir á utanlands, sem sé togarar okkar og flutningaskip og sá hluti línuveiðaskipanna, sem alltaf annað slagið eru að sigla til annara landa. Margt virðist benda til þess, að einmitt nú í ár muni þurfa að fara fram aðgerðir á þessum skipum öllu stórfelldari en á undanförnum árum. Flest þessara skipa eru komin svo til ára sinna, að þau þurfa að fara að ganga til flokkunar, sem útheimtir stórfelldar aðgerðir. Og af fróðum mönnum er mælt, að fyrir utan þær aðgerðir á þessum skipum, sem kunna að geta orðið óhjákvæmilegar vegna stranda og annara sjóskaða, þá muni ekki vera ofmælt, að á þessu ári muni gerast nauðsynlegt að verja 1 millj. kr. til aðgerða á þessum skipum. Það sem af er þessu ári munu hafa verið framkvæmdar aðgerðir á íslenzkum skipum í útlöndum fyrir milli 350 þús. og 400 þús. kr. En á sama tíma hefir ekki verið unnið að slíkum aðgerðum hér heima fyrir nema rúml. 50 þús. kr.

Má ennfremur benda á það, eins og getið er um í grg. frv., að ef aðgerðir á íslenzkum skipum flyttust inn í landið með litlum undantekningum, þá mundi það mikið stuðla að aukinni atvinnu, sem þrifizt getur í skjóli þessara aðgerða. Það má gera ráð fyrir því, að samhliða skipaaðgerðum mundu þeir, sem að þeim ynnu hér, ef þær væru fluttar að mestu inn í landið, geta tekið upp ýmiskonar iðnað hliðstæðan og er á það bent í grg. frv. Af fróðum mönnum um þessa hluti er gert ráð fyrir því, að ef skipaaðgerðir verða fluttar inn í landið, eins og hér er gert ráð fyrir, þá muni það tvöfalda atvinnumöguleika þeirra manna, sem við þetta fást nú hér. Fyrir utan járnsmíði við skip mundi þetta svo að sjálfsögðu veita atvinnu öðrum iðnaðarmönnum, svo sem rafvirkjum, trésmiðum, málurum og fleirum.

Ég býst við, að öllum sé það ljóst, að hér er stórmál á ferðinni, sem getur haft stórkostlega fjárhagslega þýðingu fyrir okkur Íslendinga. Enda munum við veru ein af þeim fáu þjóðum, sent hafa látið framkvæma þessi verk hjá útlendingum.

Eins og ég gat um áðan, hefir til skamms tíma ekki verið aðstaða til að framkvæma þessar viðgerðir hér. Nú er þetta breytt, og mun vera hægt að gera þessar aðgerðir hér í flestum eða öllum tilfellum. Og þess vegna virðist ekkert mæla með því lengur að halda áfram að látu framkvæma þessar aðgerðir ytra.

Sé ég ekki ástæðu til að fara lengra inn á þetta mál við þessa umr.umr. lokinni legg ég til, að frv. verði vísað til sjútvn.