21.03.1936
Neðri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

79. mál, viðgerðir á íslenzkum skipum

Jón Ólafsson:

Fyrir nokkrum dögum rakst ég á þessa hugmynd í einu af blöðum bæjarins, Nýja dagblaðinu. En ég hélt þá, að enginn hér á hæstv. Alþ. mundi gleypa þá flugu né gæfi sig í að flytja hana í frumvarpsformi inn á hæstv. Alþ. Skal ég ekki fara mikið út í þær öfgar og staðleysur, sem hv. flm. frv. og frsm. er hér á ferðinni með. Þó get ég ekki látið ógert að minnast á nokkur atriði, sem vitanlega eru augljós hverjum manni, sem vill athuga þetta mál. Hér er það bersýnilega ekki hagur þjóðarinnar, sem borinn er fyrir brjósti, og ekki heldur hagur atvinnurekendanna, sem gera skipin út, eða skipaeigendanna, heldur er hér fyrst og fremst borinn fyrir brjósti hugur nokkurra manna, sem eiga að hafa atvinnu af þessari tilfærslu á aðgerðum skipanna.

Hv. flm. fer með þær staðleysur, að stundum hafi það komið fyrir, að svo illa hafi verið gert við skip héðan í útlöndum, að það hafi orðið að taka það í gegn til viðgerðar, þegar hingað heim kom. Það er ekki hægt að synja fyrir, að menn hafi þurft að láta gera eitthvað frekar við þau, þegar heim kom, heldur en gert hafði verið ytra.

En þegar talað er um atvinnu við þessar smíðar, þá er það líka atvinnuspursmál fyrir þá, sem atvinnu hafa við útgerð skipanna, hvort það kostar 3–4 vikur að láta gera við skip, eins og venjulegt er hér, eða viðgerðin kostar ekki nema 10 daga töf fyrir skipin, eins og ef gert er við þau í Englandi. Þetta er líka atvinnuspursmál fyrir ýmsa af landsmönnum. Allir, sem komið hafa nálægt þessum hlutum, vita það, að það er a. m. k. þriðjungi dýrara að láta gera við járnskip hér en í Englandi, sem mun koma til af því, að efni sé hér dýrara og einnig, að afköst þeirra manna, sem fást við þessar viðgerðir hér, eru svo miklu minni en þeirra, sem þessi verk vinna í Englandi. Nú segi ég það ekki, að okkar smiðir séu lakari smiðir en smiðir Englendinga. En ég geri ráð fyrir, að þeir hafi lakari verkfæri hér til þessara starfa. Ég geri ráð fyrir, að við eigum hinum mestu hagleiksmönnum í smíðum á að skipa yfirleitt. En þeir þurfa í þessu tilfelli að læra að vera hraðvirkari en þeir hafa verið hingað til í viðgerðum skipa, annaðhvort með því að nota betri verkfæri eða með því að vinna rösklegar en komið hefir á daginn.

Hv. flm. og frsm. býst við, að á þessu ári verði að gera við skip landsmanna fyrir nál. 1 millj. króna. Hver hefir sagt honum þetta? Hvað eru margir togarar til í landinu, sem þarf að klassa? Togararnir eru 35 alls. Og það kemur ekki til mála, að meira en helmingur þeirra komi undir klössun í ár, og mundi það kosta 10 til 15 þús. á skip. Hvaðan hefir svo þessi hv. þm. fengið þessa millj. króna? Væri ekki betra að athuga ofurlítið málin, áður en komið er með þau inn á Alþingi? Það er ekki nóg að hlaupa eftir blaðaskrifum og tilfinningum í þekkingarleysi til að bera fram frv. á Alþ., sem svo reynist fjarstæða, eins og þetta frv.

Að halda því fram, sem hv. 3. landsk. heldur fram viðvíkjandi þessu máli, getur gengið á pólitískum fundum úti um byggðir landsins, en slíkt getur varla gengið á hæstv. Alþingi.

Það, sem ég vildi, á þessu stigi málsins, benda þeirri n. á, sem væntanlega fær málið til meðferðar, er, að það þarf að rannsaka þetta mál rækilega og sjá, hvar það kæmi niður, ef horfið væri að slíku ráði, sem gert er ráð fyrir í frv., hvort það kæmi ekki harðast niður á þeim, sem sízt mega við því, sem eru eigendur skipanna og bankarnir, sem þar hafa hagsmuna að gæta.

Fjarstæðurnar í hinum ýmsu gr. frv. er ekki ástæða til að fara út í nú á þessu stigi málsins, en það mun verða gert seinna, svo sem eins og það, að ef skip bilar í hafi o. s. frv. o. s. frv., þá skuli það fara til Íslands. (Hlægilegt ákvæði).