04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Frsm. (Sigfús Jónsson):

Það eru nú komnar fram nokkrar nýjar brtt. við þetta frv., og þar á meðal frá hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. N.-M. um það að hækka 12. liðinn, en lækka þann 13. um sömu upphæð. Ég fyrir mitt leyti get vel samþ., að þessi tilfærsla á milli liða fari fram, því þetta breytir engu um heildarútkomu frv. Og þá virðist mér brtt. hv. 7. landsk. og þm. A.-Húnv. vera fullnægt á þann hátt, að 12. liðurinn er hækkaður upp í það, sem mér skilst, að þeir óski eftir. Að vísu vilja þeir fella hann niður, en mér skilst ekki vera þörf á því, ef þeir fá jafnháa upphæð og þeir telja nauðsynlegt til búfjárræktarinnar.

Þá eru 2 till. frá hv. þm. V.-Húnv. Önnur till. fer fram á það, að 13. liðurinn falli niður, en hin fer fram á það, að honum verði breytt. Hvort hin síðari á að vera varatill. við hina fyrri, veit ég ekki, en ég býst þó við því. En það er um þá till. að segja, að mér virðist, að ef þetta er upp tekið, sem hv. þm. fer fram á, að ríkið greiði ekki hærra framlag til sýsluvegasjóða en sem svarar 4/5 móti framlagi úr héruðum, þá sé það tap fyrir þau sýslufélög, sem ekki leggja til nema 3–4‰. Þau fá minna framlag úr ríkissjóði heldur en samkv. frv. En aftur á móti, þegar komið er yfir hámarkið og upp í 6‰, þá fá þau vitanlega heldur meira heldur en eftir því, sem 15. liðurinn segir. Svo mér skilst, að það geti staðizt á tap og gróði, þegar á heildina er litið, hvað þessa till. snertir. Það eru fleiri sýslufélög, sem ekki fara upp í hámarkið, mörg ekki nema í 3–4‰, og ég álít, að þau tapi við þessa breyt., en hin aftur á móti vinni ofurlítið, sem komast upp í 6‰. Sýslufélag, sem t. d. leggur fram 3‰, fær einn á móti einum, en eftir till. hv. þm. ekki nema 4/5. Við skulum segja, að tillag frá ríkissjóði væri 100 kr. samkv. frv., þá væri það aðeins 80 kr. samkv. till. Og þegar komið er upp í 5‰, þá munar þetta því, að framlag frá ríkissjóði yrði ekki nema 320 kr. á móti 500 kr. frá sýslufélögunum, en samkv. frv. 400 kr. En svo hækkar þetta, þegar komið er þar upp yfir. Ég held þess vegna, að ekki sé ástæða til að breyta frá því, sem í frv. stendur. Enda hefir vegamálastjóri gengið inn á það, að ríkisframlagið til sýsluvegasjóða væri fært niður í 5‰. Og sú lækkun, sem af því stafar, mun láta nærri að vera 26 þús. kr., og því hefir hann lagt til, að áætlunarupphæðin á fjárl. sé færð úr 100 þús. kr. niður í 70 þús. kr. Inn á þetta gekk fjvn. í fyrra, og ég býst við, að hún hafi sömu skoðun á málinu nú, og sé ég þess vegna ekki ástæðu til að hrófla því til, sem stendur í frv. í þessum lið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni, en vænti þess, að hv. d. greiði atkv. með till. hv. þm. Mýr. og hv. þm. N.-M., en á móti hinni.