25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

83. mál, síldar- og ufsaveiði

*Gísli Guðmundsson:

Ég verð að láta undrun mína í ljós yfir því, að þetta frv. skuli vera komið fram, því síðast er málið var hér til meðferðar, fékk það þá útreið, að hv. flm. hefði átt að vera ljóst, að þýðingarlaust væri að koma fram með það aftur.

Frv. þetta var samþ. hér á þingi 1934, vegna þess að þingmenn höfðu ekki gert sér grein fyrir því, hvað um var að vera. En fljótlega varð það öllum ljóst, að lögin gátu ekki samrýmzt ákvæðum stjórnarskrárinnar, þar sem þau voru augljóst brot á friðhelgi eignarréttarins. Því var þegar á næsta ári samþ. með miklum meiri hl. í báðum d. að afnema þessi ólög.

Ég get ekki greitt frv. sem þessu atkv. til 2. umr., þótt ég sé ekki vanur því að varna málum að komast þangað. Ég get ekki séð, að það sé til míns annars en að tefja tíma þingsins.