25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

83. mál, síldar- og ufsaveiði

Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Ég veit ekki, hvort ég á að biðja afsökunar á því, að ég spurði ekki hv. þm. N.-Þ. um leyfi til þess að flytja þetta frv. En líklega sleppi ég því í þetta sinn.

Hann sagði, að hv. þm. hefði ekki verið það ljóst 1934, er þeir samþ. frv. sama efnis, hvað var á ferðinni. Ég vil nú ekki trúa því, að þetta sé satt um þessa hv. þm., þótt það geti átt við hv. þm. N.-Þ.

Hv. 2. þm. S.-M. flutti svo á þinginu 1935 frv. um afnám laganna, að því er ég ætla einkum fyrir þrábeiðni eins manns á Austfjörðum. En fiskiþingið leggur áherzlu á það, að efni frv. sé lögleitt aftur, einmitt af því, að hætta sé á, að veiðimenn verði lagðir í einelti á einstöku firði á Austurlandi. En meðal fulltrúanna á fiskiþinginu, sem samþ. um þetta einróma áskorun, var einmitt sonur þess manns, sem fastast lagði gegn málinu í fyrra.

Þótt hv. þm. N.-Þ. vilji drepa málið frá 2. umr., vona ég, að fáir verði með svo óvanalegri málsmeðferð, ekki sízt þar sem hv. þm. N.-Þ. segir, að þingmenn hafi ekki athugað málið nægilega 1934. Vil ég leggja til, að málinu sé að lokinni umr. vísað til nefndar þeirrar, þar sem hv. þm. N.-Þ. á sjálfur sæti.