03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Að þessu sinni mun ég gera að umtalsefni þau atriði, sem hæstv. ráðh. hefir borið fram og reynt að verja í gær og í dag og sömuleiðis mun ég víkja nokkrum orðum að öðru, sem komið hefir óbeinlínis fram, aðallega hjá hæstv. fjmrh., og skal ég þá byrja á því atriði. Ég leyfði mér að leggja fram dálítinn hlut úr þessari umþráttuðu raftækjaeinkasölu, sem sé pípu, sem þannig var verkuð eftir þá löglegu raun, sem gerð var á henni, að hún sýndi ljóslega öllum þeim, sem fullsjáandi voru, hvernig þessi vara er og aðrar sambærilegar vörur, sem þessi verzlun flytur inn og selur almenningi. Af þessum pípum hefir ekki verið flutt inn minna en 20000 m., eftir að það kom í ljós, að rafvirkjarnir, sérstaklega úti um land, höfðu kvartað undan þessum ónýtu pípum. — Í þessu sambandi minntist ég á það áður, að á þessum tímum væri óforsvaranlegt að nota gjaldeyri til þess að kaupa vörur, sem hljóta í rauninni að verða dæmdar ónýtara efni en svo, að það borgi sig fyrir hæstv. ráðh. að láta gera raun á þessari ónýtu pípu, en sá maður, sem þá raun framkvæmdi, er raunar verkfræðingur og þykist hafa vit á þessu, þótt hann að öðru leyti standi dálítið höllum fæti í að brúka sig gagnvart hagsmunum iðnaðarmannastéttarinnar. Þessi maður var látinn gera þessa raun við stólbak og beygja þessa pípu, en þessi verkfræðingur var nú ekki vandvirkari en það, að hann hálfbeygði pípuna aðeins, og vildi hann svo draga þá ályktun af þessari athöfn sinni, að ekki væri pípan ónýt, fyrst hún þoldi raun þessa, en þessi maður, hv. þm. Hafnf., hefir ekki meiri þekkingu til að bera í þessum efnum en svo, að hann veit ekki það, sem allir viðskiptamenn einkasölunnar vita, sem sé, að þolraun þessarar pípu er ekki innifalin í því, sem hv. þm. gerði, vegna þess að slíkar pípur eru settar í steypu og verða því að þola miklu sterkari og krappari beygju en hv. þm. gerði á þessari pípu, og ekki nóg með það, heldur verður að gera ráð fyrir snúning á þessum pípum. Mér til gleði, en hv. þm. Hafnf. til mikillar armæðu, hefir hann verið stimplaður í blöðum stj. og hefir verið settur sorgarrammi utan um hann, og innan í þessum ramma mun þessi hv. þm. og foringi iðnaðarmanna hvíla um aldur og æfi því til sönnunar, hvað hann getur hlaupið hlægilega á sig, sem stéttarbræður hans kunna honum litlar þakkir fyrir.

Áður en ég sný mér alveg frá þessum hv. þm., sem sjálfur gaf tilefni til þessara aths. í sambandi við framkomu hans í þessu efni, skal ég drepa á eitt atriði honum viðvíkjandi. Eins og ég minntist á í gær, var gerð einróma samþykkt á þingi iðnaðarmanna á Akureyri síðasta sumar, með samþykki þessa hv. þm. án efa, um það, að því skyldi fylgt fram, að forstöðumenn fyrir einkasölum, sem ríkið kynni að setja á stofn, ættu undantekningarlaust að vera innlendir sérfræðingar. Hv. þm. Hafnf. er varaform. í landssambandi iðnaðarmanna og hefir sig yfirleitt mjög mikið í frammi, ef eitthvað er minnzt á þessa stétt eða iðnaðinn, svo sem kunnugt er. Hann er alltaf að burðast með einhverjar till. í þessu efni og heimtar, að innlendur iðnaður sé studdur og að útlendingar fái ekki að vinna þau störf, sem Íslendingar fást til að vinna. En mér er ekki kunnugt um, að þessi hv. þm. hafi hreyft sig hið minnsta, þegar kvartað var undan því, að útlendingur var fenginn til þess að vera meðráðamaður í Raftækjaverzlun Íslands, á meðan hún var við lýði, og var sá maður sendur hingað fyrir hönd A. E. G. Þennan mann tekur stj. á sína arma gegn mótmælum stéttarinnar og veitir dvalarleyfi hér í trássi við óskir og álit þeirrar stéttar, sem hér á hlut að máli, og þessi maður er látinn fá hærri laun en nokkurn, sem hér er inni, hefir dreymt um; hann hefir 900 kr. um mánuðinn. Þetta er það, sem gert hefir verið til þess að halda friði við þessa stétt. Þetta er hnefahögg í andlit stéttarinnar, því að með þessu er það troðið undir fótum, sem þessi stétt leggur til málanna.

Til viðbótar því, sem ég sagði áðan um þessa pípu, sem hv. þm. hefir orðið svo hált á, skal ég taka það fram, að ég hefi lagt þetta mál undir flokksbróður hv. þm., Nikulás Friðriksson eftirlitsmann við rafveituna, sem hefir meira vit á þessum málum en hv. þm. Hann heldur því fram, að þetta sé svikin vara. En það er ekki nóg með það, að þessi vara sé svikin, heldur hefir það komið í ljós, að einkasalan hefir flutt inn ekki færri en 100 tegundir af vörum, sem rafmagnseftirlitið hefir orðið að neita um löggildingu á. Enda þótt hæstv. ráðh. talaði um, að einkasalan hefði selt þessar vörur og þær hefðu verið löggiltar, þá voru þær samt ekki löggiltar fyrr en tekið var í taumana og umkvartanir höfðu borizt hvaðanæfa af landinu. Það er hægt að fara til Nikulásar Friðrikssonar og rafmagnseftirlitsins og fá staðfestingu á þessu. Nú hefir eftirlitið við rafveituna gengið hart eftir þessu, og í gær átti hún samtal við þennan útlending út af þessu máli. Hann fór undan í flæmingi og vildi senda út aftur þessar pípur og fá aðrar í staðinn, en gallinn er bara sá, að hann getur ekki gert þetta, vegna þess að samkv. upplýsingu einkasölunnar hefir hún ekki þau samhönd við firmu í Þýzkalandi, að hún geti fengið þessa vöru úr sæmilegu efni. Meðan verið er að leita fyrir einkasöluna eftir samböndum í Þýzkalandi, sem geta útvegað nothæfar pípur, er tilgangurinn að reyna að fá nothæfar pípur frá öðrum löndum, t. d. frá Noregi, þar sem pípur eru gerðar, sem standast þessa raun.

Þá skal ég svara stuttlega því, sem hæstv. ráðh. talaði hér um í gær. Það kom þegar fram á þinginu í fyrra, að margir hv. þm. höfðu vantraust á slíkri einkasölu, en sem vita mátti, réðu stjórnarflokkarnir því, að ekki var farið að ráðum sjálfstæðismanna og frv. fellt, og sízt af öllu hefði þeim dottið í hug að taka gildan þann mann, sem hæstv. ráðh. hefir skipað forstjóra fyrir einkasöluna, enda lýsti ég í gær megnu vantrausti á honum og sannaði, að hann væri ekki starfinu vaxinn. En hæstv. ráðh. fer ekki eftir því, hversu hæfir þeir menn eru, sem hann skipar til slíkra starfa, heldur er farið eftir því, hversu gæfir þeir eru við hæstv. ráðh. En það er ekki sá mælikvarði, sem við sjálfstæðismenn leggjum á verðleika manna.

Þá þótti mér alleinkennilegt af hæstv. ráðh. að vilja ekki láta mig sjá skjöl, sem hann hefir í ráðuneytinu, en sagði, að þau væru niðri í raftækjaverzlun, sem ekki reyndist rétt vera. Hvort mun þá rétt vera, að skjölin séu týnd eða að hæstv. ráðh. hafi sagt ósatt? En það skiptir engu máli, þótt hæstv. ráðh. hafi týnt þeim, því að ég hefi fengið mínar heimildir eftir réttri boðleið frá rafvirkjunum, og þeir hafa vissulega betra vit á þessum hlutum en hæstv. ráðh. og meiri áhuga fyrir, að þeim viðskiptum sé skipað á hagfelldan hátt fyrir þá, sem vöruna þurfa að kaupa. Hinsvegar skal hæstv. ráðh. ekki þurfa að hlakka yfir því, að ég beri vantraustið fram fyrir þeirra hönd, og mun ég síðar leggja nokkra prófraun fyrir hæstv. ráðh. í því sambandi.

Hann segir, hæstv. ráðh., að ekki séu vandræði með verðið eða samanburð á því, þar sem raftækjaverzlunin hafi getið út verðlista. En sá listi var ekki kominn út á síðasta hausti, þegar aðalsamanburðurinn var gerður, þó að hann sé kominn út nú. En veit svo hæstv. ráðh., hvernig þessi verðlisti er? Ég býst ekki við, að hann viti það fremur en annað. Er auðséð, að sá listi styðst ekki við annað en einkasölu. Þannig eru ýmsir hlutir, sem ekki er hægt að finna í listanum, og á öðrum hlutum alls ekki haldið sig við það verð, sem þar er gefið upp, og er hann því algerlega óábyggilegur. Það er því bezt að tala sem minnst um verð, því að verðlistinn er aðeins gefinn út til þess að sýnast, en er alveg óábyggileg dula og blekking.

Hæstv. ráðh. fékk hér frest í gær til þess að afla sér upplýsinga, áður en hann svaraði. Og hæstv. ráðh. þykist svo sem ekki hafa farið í geitarhús að leita ullar eða standa berskjaldaður nú. En allar hans upplýsingar eru frá raftækjaeinkasölunni, sem í þessu máli er sakborningurinn og á eftir að hrinda af sér öllum sökum. Það þóttist hann gera með þessum merkilega verðlista. Um gildi hans vil ég minna á dæmi, sem ég nefndi í gær; t. d. selur raftækjaverzlunin mótor af ákveðinni tegund og með ákveðinni orku fyrir 720 kr. Þetta er reynd, góð tegund frá verksmiðju í Svíþjóð, og umboðsmaður sá, er áður var, gat útvegað hann fyrir 450 kr. Hæstv. ráðh. segir, að þessi verðmunur hljóti að stafa af milliliðakostnaði, og sýnir það glöggt, að hann skortir rök. En þetta, að kunn firmu selja einkasölunni dýrara en einstökum mönnum, sýnir vel, hvaða álit þau hafa á slíkum viðskiptum. Ég held, að þetta séu rök, sem vert sé að athuga, ef það er algengt, að þekkt firmu vestan hafs og austan hafa þá skoðun á einkasölunum, að þau selja þeim vörurnar dýrari en einstökum mönnum. Hér getur ekki verið nema öðruhvoru til að dreifa, annaðhvort að álagningin sé óhæfilega há eða illu innkaupsverði. — Annað dæmi er, að rafvirki pantaði hjá raftækjaverzluninni númerakassa og fékk það svar, að hann kostaði 42 kr., en svo skiptir það engum tíma, að þessi rafvirki fær kassa af sömu gerð hjá öðrum fyrir kr. 18.50. Þetta er samanburður, sem segir sex. Þannig mætti nefna mörg dæmi. En ég trúi vel, að þegar verzlunin er búin að heyra um þetta 18.50 kr. verð, þá verði hún búin að setja kassann niður í 17 kr. daginn eftir. Það er ekkert að marka það verð, sem einkasalan gefur upp, vegna þess að hún hefir dagprísa á vörunum.

Þá skal ég nefna annað dæmi, þar sem pantaður var hjá einkasölunni mótor, sem sagt var, að kostaði 630 kr., en er skjallega sannað, að hægt var að fá áður hjá sama firma fyrir 263 kr. Niðurstaðan varð sú, að mótorinn var keyptur fyrir 450 kr. Þar var ekki verið að tala um, hvort það væri sannvirði eða ekki. Þetta sýnir vel, hvernig viðskiptin ganga, enda væri hvert einkafyrirtæki, sem dytti slíkt í hug, steindautt um leið. Það er aðeins í skjóli löggjafarinnar, að svona einkasölukúgun helzt við.

Hæstv. ráðh. las upp lista yfir verð einkasölunnar nú. Mín skýring var birt 11. des., og þá vakti verðið hneyksli um land allt. Nú er kominn 3. apríl, og alla þessa mánuði hefir einkasalan ekkert gert. En svo býr hún til lista í gær, sem hæstv. ráðh. vitnar í og segir, að svona hafi verið verið, — þarna standi það. Er hæstv. ráðh. það barn að halda, að menn taki þetta gilt? En hvernig var verðið 11. des.? Það stendur óbrakið, enda ekki hægt að hnekkja því. — Ef við athugum, hvernig listinn er saminn, verður ekki séð, hvort hann er aðeins útdráttur eða á að gilda sem fullkominn verðlisti. En til hvers er verið að gefa út og láta liggja frammi hjá rafvirkjum verðlista, sem ekkert er farið eftir? — Ég get líka lesið upp verð, sem einkasalan seldi fyrir áður en þessi nýi listi kom fram, og sést þá, að nú er allt lægra. Má það undrun vekja, að einkasalan skuli ekki hafa reynt að hnekkja því fyrr og að því skuli öllu vera óhnekkt enn, en aðeins sagt, að nú sé þetta svona. Dæmi þau, sem ég hefi tekið, sýna, hve ill viðskiptakjörin hafa verið frá byrjun og hvernig hæstv. ráðh. hefir tekizt að eyðileggja þau viðskiptasambönd, sem verzlanir hér höfðu, svo að þær verzlanir, sem áður skiptu ytra, verða nú að kaupa af einkasölunni fyrir mun hærra verð. Geta allir farið nærri um, hvort það muni ekki koma fram í hærra verði í útsölu, ef allir sæta verri innkaupum. Sá munur kemur vitanlega fram í hærra verði til neytendanna. Hækkun þessi nemur sumstaðar 100%, 200%, 300% og kemst hæst aðeins yfir 400%. T. d. kosta ljósakúlur nú 3.10 kr., sem áður kostuðu 60 aura, og getur hver, sem vill, reiknað það og borið saman. Hnígur allur þessi samanburður að því að sanna, að þessi verzlunargrundvöllur er rangur, ef við þurfum vegna óhagkvæmra viðskipta að greiða meira fé út úr landinu en ástæða er til og taka það af almenningi í hærra vöruverði.

Ég læt svo útrætt um þetta, en vænti, að hæstv. ráðh. birti þennan lista, sem hann er að vísa til, svo að almenningur, sem hlut á að máli, geti lagt orð í belg. Það er svo langt frá því, að verðið hafi lækkað, eins og hæstv. ráðh. sagði, að heldur hefir allt hækkað, — að vísu misjafnlega og eftir dagprísum, sem er það versta. Má óhætt fullyrða, að af þessu hefir þegar hlotizt óbætanlegur skaði. Ekki kannske sízt vegna þess, sem ýmsir álíta, að óhæfir menn hafi verið valdir til þess að hafa verzlunina með höndum. En hvað sem um það er að segja, er hitt víst, að einkasalan er klúður, sem ekki lagast fyrr en eldri sambönd verða endurreist og salan kemst í frjáls og eðlileg viðskipti, eins og alltaf hefði átt að vera í þessari grein.

Áður en ég lýk máli mínu skal ég aðeins minnast á bílana, sem hæstv. ráðh. talaði um í gær. Var hann þar yfirleitt heldur sagnafár, og mátti segja, að þar færi á sama veg, að það sýndi sig, að hæstv. ráðh. hefir ekki vit á þeim hlutum og skortir rök fyrir sínu máli. Það er sannanlegt, að næsta lítið hefir verið flutt inn, en þó að samanburður sé takmarkaður, er það svo, eins og sýnt var á lista þeim, sem birtur var í Morgunbl. 11. des., að hver tegund hefir hækkað frá því, sem áður var hér á staðnum. Munurinn var miðaður við fleiri hundruð bíla, en hæstv. ráðh. sagði, að verðið hefði ekki gild fyrir „ford“. Af þeim hafa aðeins þrír bílar verið fluttir inn, og hafa þeir verið seldir þannig, að hlutaðeigandi verzlanir, sem áður hafa selt þá, hafa ekki fengið að vita um verð. Skora ég á hæstv. ráðh. að gefa upp það verð, sem þessir bílar — 2 vörubílar og 1 fólksbíll — voru seldir fyrir. Hinir, sem seldu áður „chevrolet“ og „opel“, hafa fengið upplýsingar um söluverð.

Þá sagði hæstv. ráðh., að búið væri að kaupa inn fyrir 350 þús. kr. gúmmí frá Ítalíu. Er sagt, að ekki hafi verið leitað fyrir sér annarsstaðar, en samþ. orðalaust það verð og tegund, sem firmað sagði fyrir um. Er ekki að undra, þótt þannig gangi saman. Hefir gúmmi verið keypt inn fyrir heilt ár í einu, vegna þess að ráðh. veit sennilega ekki, að gúmmí getur orðið ónýtt, ef það liggur lengi. Þess vegna hafa kaupmenn hikað við að taka miklar birgðir í einu, en reynt að fá það eftir hendinni. Hvað verður svo um það gúmmí, sem verður hálfónýtt í geymslunni? Ég tel slíka verzlun ekki hrósverða. Og það er engin afsökun, þótt andvirðið eigi að greiðast með þorski. Þó rétt sé að hlynna að því, að þorskútflutningurinn verði sem mestur, dettur engum í hug að gera sig að þeim glóp að auka fiskútflutninginn á þann veg að taka andvirðið í vörum, sem búast má við, að verði einskis virði.

Ég hefi svo þessi orð ekki fleiri að sinni, en býst við, að málið fari í n., svo að tækifæri gefist síðar til þess að tala betur fyrir því og láta þá enn styrkari stoðir renna undir það en mér hefir gefizt kostur á nú.