03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég þarf ekki langa ræðu til, að svara hv. þm. V.-Sk. Hann var með þann sama vaðal, sem hann áður hefir verið með og búið er að hrekja. — Hann kom nú með tvö ný dæmi um vörur, stálrör og dósir, sem hefðu verið seldar með lægra verði hjá Paul Smith heldur en hjá einkasölunni. Ég hefi ekki gögn í höndunum til þess að afsanna þetta, en ég hygg, að þetta sé eins og önnur atriði í samanburði þessa hv. þm., sem hafa reynzt að vera ýmist blekkingar eða fals, t. d. þannig, að vörutegundir, sem nefndar eru sama nafni, en eru algerlega ólíkar að gæðum, eru bornar saman, eins og ef bornir væru saman vasahnífar og sagt, að í þessari búð kostaði hnífurinn aðeins 1 króna, en í næstu búð 5 krónur, og svo væri sá, sem seldi þann hnífinn, sem kostaði 5 kr., kallaður okrari, þótt sá hnífurinn, sem 5 kr. verðið væri á, væri í raun og veru ódýrari heldur en krónu hnífurinn, ef rétt tillit væri tekið til gæðanna. En hvortveggja héti vasahnífur. — Þannig eru öll rök hv. þm., enda hafa þau öll verið rækilega rekin ofan í hann, og sá samanburður, sem ég var með, verður birtur opinberlega.

Hv. þm. er að dylgja um það, að bifreiðaeinkasalan hafi beðið mann að gefa upp rangt verð á bifreið, en hann leitast ekki við að færa nokkur rök að því. Þegar hv. þm. kemst í bobba, þá fer hann að eins og Gróa gamla á Leiti og segir: „Ólyginn sagði mér“. Þetta fylgir öllu því, sem þessi hv. þm. kemur með.

Þá var hann að tala um vörugæðin og um vörur, sem hefðu verið bannaðar, en einkasalan hefði flutt inn. Ég sagði áðan, að af öllum þeim sýnishornum, sem rafmagnseftirlitið hefði athugað, hefði fallið úrskurður um að banna 36 tegundir, en hinsvegar hefðu 62 tegundir verið lagðar til hliðar og enginn úrskurður um þær fallið. Hv. þm. V.-Sk. hafði haldið því fram, að bannaðar hefðu verið allt að því 100 tegundir. Nú þóttist hann ætla að sanna, að hann hefði þarna haft rétt fyrir sér, og sagði, að sér skildist, að 36 og 62 samtals færi að nálgast 100. M. ö. o., hann leggur saman tölu þeirra tegunda, sem úrskurður hefir fallið um og bannaðar hafa verið, og tölu þeirra, sem hafa verið lagðar til hliðar, og segir svo, að sú niðurstaða, sem hann kemst að með þessari samlagningu, sé tala þeirra tegunda, sem hafi verið bannaðar. Þannig eru öll rök þessa hv. þm. Ég veit ekki, hvernig sá maður, sem gerir sig beran að slíkri fíflsku og slíkri rakafölsun, getur ætlazt til þess, að hann sé tekinn alvarlega.

Þá liggur hann einkasölunni á hálsi fyrir það, að þær vörur, sem hafa komið til hennar, hafi ekki alltaf verið eins og sýnishornin, sem höfðu verið valin til að panta eftir. En þótt þetta hefði komið fyrir, — var það þá einkasölunni að kenna? Getur einkasalan gert við því, þótt erlend firmu hafi svikizt um að senda rétta vöru samkv. þeim sýnishornum, sem pantað var eftir?

Þá hélt hv. þm. V.-Sk. því fram — og var æðimikill gorgeir í honum, þegar hann talaði um það —, að nú væru höfð góð orð og nú ætti allt að laga, og mundi það vera af því, að nú væru menn orðnir allhræddir við hann — þennan valdamann. Það er nú áður upplýst, að ráðuneytið hefir alltaf verið tilbúið til samvinnu við rafvirkjana um, að þeir fengju að leggja á vöruna jafnt og áður, og löngu áður en þessum hv. þm. gafst tækifæri til þessarar gagnrýni sinnar. var hafin samvinna við rafmagnseftirlitið. Það er hlægilegt, að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að bera þetta fram, þegar það er upplýst og stendur ómótmælt samkv. þeirri skýrslu, sem ég gaf um samninga milli mín og rafvirkja, í fyrsta lagi um álagninguna, og svo í öðru lagi hitt, að sá, sem fyrst var skipaður forstjóri einkasölunnar, lagði niður starf sitt af því að rafvirkjar settu það persónulega fyrir sig, að sá maður væri ráðinn til þess starfs, og allt var þetta gert með fullu samþykki ráðuneytisins, og eins það, að séð væri um, að vörurnar væru löggiltar áður en farið væri að flytja þær til landsins.

Hv. þm. V.-Sk. heldur því fram, að hann hafi að baki sér í þessu máli 7 menn, sem skipa stjórn rafvirkjafélagsins. En hann segir þetta ekki satt. Þeir hafa aldrei falið honum umboð til að flytja þetta mál og þeir líta svo á, að það sé til skemmda, að pólitískum angurgapa, eins og hv. þm. V.-Sk., sé falið að fara með málið. Hitt er vitanlega bæði eðlilegra og heppilegra, að þeir sjálfir semji um þessi mál, eins og með þarf, við ráðuneytið og við einkasöluna. Hitt getur auðvitað verið, að einhver einstakur maður eða einstakir menn í þessari stjórn séu þessum málarekstri hlynntir, en það réttlætir ekki þessi ummæli hv. þm. V.-Sk. —

Ég þarf ekki að sinni að fara um þetta fleiri orðum. Málið liggur ljóst fyrir frá mér, og ég hygg, að það sé orðið nægilega upplýst, að hv. þm. hefir algerlega skotið framhjá markinu með þessari gagnrýni sinni, og get ég vel við það unað.