03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2700)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Ég átti von á því, að hæstv. ráðh. yrði bumbult af þessum tveimur nýju dæmum, sem ég tók áðan. En þau eru tekin á þeim grundvelli, sem hann vildi, þannig að þar er ekki borið saman innkaupsverðið áður við það verð, sem kaupmenn verða nú að gefa fyrir vöruna hjá einkasölunni, heldur er það verð, sem var útsöluverð kaupmanna áður, borið saman við verð einkasölunnar. Hæstv. ráðh. þóttist bera saman verðlag hjá kaupmönnum áður og verðlag einkasölunnar nú, en hann gaf ranga skýrslu og sagði verð einkasölunnar lægra, en þessi tvö dæmi sýna það óhrekjanlega, að Paul Smith seldi samskonar vöru — þrátt fyrir álagningu sína — fyrir lægra verð en einkasalan.

Hæstv. ráðh. vill sennilega fara að gagnvart þessari nýju sönnun eins og gagnvart númerakössunum, sem hann líkti við sjálfskeiðinga!! En um þetta liggja fyrir skrifleg vottorð. (Fjmrh.: Sögusagnir). Þau vottorð liggja hjá hæstv. ráðh. sjálfum, sem hefir grafið þau niður og vill ekki láta þau koma í dagsins ljós. Þótt hann segist hafa viljað samvinnu við rafvirkja, hefir hann aldrei tekið í mál að fara að vilja þeirra í neinu, annað en ef telja skal það, að nú hefir Sigurður Jónasson verið látinn víkja úr forstjórastöðunni. — En þessi dæmi sanna það, að þótt þessi samanburður, sem hæstv. ráðh. óskaði eftir, sé tekinn, þá hefir einkasalan orðið að grípa til þess að selja enn hærra verði heldur en sá, sem hæstv. ráðh. taldi, að hefði verið hæstur með verð.

Hæstv. ráðh. hefir leyft sér að bera það á borð, að sá verðsamanburður, sem hann gerði hér, væri sannur og réttur, en reynslan mun skera úr því, hvort má sín meira, þau vottorð, sem til eru frá rafvirkjunum sjálfum, eða þær verðskrár, sem einkasalan er nú að setja saman og þykist ætla að birta, — og við skulum vona, að þær verði birtar, og mun þá koma í ljós, hve haldgóðar þær eru.

Hæstv. ráðh. segir, að ég fari með gróusögur, og er með því að reyna að svívirða alla þá stétt, sem kvartar undan því megna ólagi, sem á þessari stofnun hefir verið frá öndverðu. Þessir menn fylgja mér ekki um stefnu í pólitík. En þeir hafa fylkt sér um þetta mál og krefjast þess, að tekið sé tillit til vörugæða og verðlags og ráðin sé bót á þeim áberandi vöruskorti, sem hefir verið hjá þessu fyrirtæki. Þeir hafa lýst því yfir, að þetta væru þeirra kröfur, og fengjust þessar kröfur ekki uppfylltar og einkasalan yrði rekin sem sæmilegt fyrirtæki, þá yrði að leggja hana niður. Þetta kom fram í byrjun og hefir alltaf verið haldið fram.

Nú getur hæstv. fjmrh. velt þessu fyrir sér. Það stendur fast, að ólag á rekstri þessarar stofnunar hefir verið svo megnt, að slíks eru engin dæmi áður hér á landi, að allra dómi. Það stendur einnig fast, að þrátt fyrir þær kröfur, sem gerðar hafa verið um að ráða bót á þessu megna ólagi, þá hefir enn ekkert fengizt lagfært, og það eru litlar líkur til, að það takist nú, þótt hæstv. ráðh. hafi lofað bót og betrun. Það má búast við, að stjórnarflokkarnir skelli við þessu skolleyrunum og fulltrúi iðnaðarmannanna, hv. þm. Hafnf., líka. Ég vænti mér einskis góðs af hæstv. fjmrh., því að það hefir sýnt sig í þessu máli, að hann er óhæfur til að semja við menn um að setja aftur í lag það, sem hann sjálfur átti mestan þátt í að setja í ólag.