03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2701)

94. mál, einkasala á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl.

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. V.-Sk. hélt sér nú mest við númerakassana. Munu þeir vera það flotholt, sem hann ætlar sér að fljóta á, og segir hann, að um þá liggi fyrir skrifl. gögn og að hægt sé að sanna þau ummæli. En um þetta eru engin önnur gögn en það, sem einn rafvirki hefir skrifað, og í því bréfi segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðið á númerakössum hefir komizt upp í 42 kr. síðan raftækjaeinkasalan tók til starfa, og er það margfalt hærra verð en áður tíðkaðist á þeirri vörutegund hér í bænum.“

Þetta undirritar aðeins einn maður. (GSv: Lýgur hann því?). Hvort það er misskilningur eða ósannindi, skal ég ekkert um segja, en það hefir ekkert gildi, því að það er hér skrifleg yfirlýsing frá einkasölunni um, að hún hafi aldrei selt þessa númerakassa. Raftækjaeinkasalan segir, að sér sé gersamlega ókunnugt um, hvernig verðið, 42 kr., er til orðið, ef átt er við númerakassa með 6 númerum. Misskilningurinn gæti legið í því, að átt sé við númerakassa með rafmagnsafstillingu. Þannig kassa, fyrir 4 númer, hefir einkasalan selt á 28 kr. En venjulega kassa, með 6 og 7 númerum, fyrir 17 kr. Hv. þm. getur hvæst eins mikið og honum sýnist, en þetta hefir ekkert gildi; það, sem gildi hefir í þessu sambandi, er, að það hefir aldrei komið til mála að selja venjulega númerakassa með þessu verði.

Þá sagði hv. þm., að hann stæði vel að vígi, því að hann hefði séð farið fram á það á prenti af hálfu rafvirkjasambandsins, að ef ekki fengist leiðrétting á raftækjaeinkasölunni, þá væri þess óskað, að hún yrði lögð niður. Ég er í rauninni ekkert hissa á því, þótt þetta komi fram, því að ég veit, að í rafvirkjasambandinu ráða, mér er óhætt að segja, menn, sem hafa verulegra verzlunarhagsmuna að gæta í því, að einkasalan verði lögð niður. Af þessu sést það greinilega, sem ég er alltaf að segja, að hv. þm. V.-Sk. er sendur af mönnum, sem hafa hag af því, að einkasalan verði lögð niður, og það fer vel á því, að hv. þm. endi ræðu sína með því að sanna, hver hefir sent hann.