04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal strax taka það fram, að það heyrir ekki undir mig að framkvæma þetta ákvæði, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um; það heyrir undir þann ráðh., sem fer með vegamálin. Ég var að líta á bréf frá vegamálastjóra til fjvn. í fyrra, þar sem hann lætur í ljós álit sitt um það, hvað sparast mundi í útgjöldum fyrir ríkissjóð, ef framlög ríkissjóðs til sýsluvegasjóða væru ákveðin þannig, að framlag ríkissjóðs mætti ekki fara fram úr 5‰ frá sýslunum. Vegamálastjóri hefir fengið það út, að útgjöldin lækka úr 94,8 þús. kr. niður í 68,1 þús., og ég hefi séð, að fjvn. hefir reiknað með því í fjárlfrv., að þessi útgjöld yrðu samkvæmt þessari till. um 70 þús. kr. 1936; fjvn. hefir m. ö. o. lagt sama skilning og vegamálastjóri í þetta atriði.

Ég hefi ekki rannsakað, hvort þessi útreikningur vegamálastjóra er réttur, en ég held, að það sé ljóst, hvað hann og fjvn. meinar, sem sé það, að ríkissjóður greiði ekki hærra framlag til sýsluvegasjóða en það, sem ákveðið er til móts við 5‰ úr héruðunum. Ég verð að segja, að ég hefi ekki fylgzt það vel með í þessu máli, að mér sé ljóst, hvort þetta, sem ég hefi sagt, nægir hv. þm. V.-Húnv., en ef hann tekur aftur til máls, þá vona ég, að hann leggi frekari áherzlu á það, sem kann að vanta í upplýsingarnar af minni hálfu.