28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

95. mál, sveitarstjórnarlög

*Jörundur Brynjólfsson:

Það liggur við, að ég sjái eftir því, að ég stóð upp áðan til að segja nokkur orð. Ég var satt að segja í vafa um, hvort það stafaði af elliglöpum eða einhverju enn lakara, hvernig hv. þm. talaði, og er hann þó sýslumaður. Hv. þm. heldur því fram, að þessar fasteignir snerti héruðin ekkert, bara ef þær eru undanskildar þessu gjaldi, og þess vegna sé alveg sama, hvort þær séu taldar með til gjaldskyldra fasteigna eða ekki; hann heldur því fram, að þetta sé aðeins mælikvarði um það, hvernig eigi að jafna niður þessu gjaldi samkv. 44. gr. sveitarstjórnarlaganna, en ef þessar eignir verða undanskildar í þeim hreppsfélögum, þar sem þær eru, þá þurfi ekki að greiða gjald af þeim og þá komi það ekkert við öðrum sveitarfélögum, og þessum hreppsfélögum ekki heldur: þá sé allt gott og blessað.

Ég er ekki í vafa um, að hv. þm. V.-Sk. er hvorki svo þekkingarsnauður eða svo grunnfær í rökréttri hugsun, að hann meini þetta, því að hann talar þvert á móti huga sínum; hann veit vel, að þegar þessu gjaldi er jafnað niður að þeim hluta, sem miðaður er við þessar eignir, þá er því skipt niður á hreppana eftir því, hvað fasteignamatið er mikið. Dettur hv. þm. í hug, að það varði sýslufélögin engu, hvort fasteignir þessar eru miklar eða litlar í hverju sýslufélagi? Ef sveitarfélag í héraði, þar sem þessar fasteignir liggja, á að greiða þetta gjald úr sínum sjóði, án þess að eigendur fasteignanna borgi það nokkurn tíma aftur, þá varðar það sveitarfélögin mjög miklu. Því hefir verið haldið fram, að ef gjöldin af þessum eignum verði greidd, þá snerti það önnur hreppsfélög ekki beinlínis, hvort sem sveitarfélag þar, sem eignirnar standa, greiði þau eða sjálfir eigendurnir, utanhreppsmenn, en ég vil leyfa mér að halda því fram, að öðrum hreppsfélögum innan sýslufélagsins geti ekki staðið á sama, hver greiðir þetta, því að það gengur út yfir sveitarfélögin innan vébanda sýslufélagsins, og það verður fyrir órétti, ef þessi gjöld verða greidd. Það er því sjálfsagt, að eigendur þessara húseigna greiði þetta gjald, svo að hvorki þau hreppsfélög, sem eignirnar standa í, verði hart úti, né heldur önnur hreppsfélög innan sýslufélagsins missi réttmætar tekjur af þessum eignum. Þegar þessu gjaldi er jafnað niður, ef ekki er um að ræða eignir utan hvers hrepps innan sýslufélagsins, þá er talið saman fasteignamat og gjöldunum jafnað niður eftir því. Ég skal taka dæmi, og ég get haldið mér við þær tölur, sem minnzt hefir verið á áður, 48 þús. og 16 þús., sem standa í sumarbústöðum, sem utanhreppsmenn eiga. Samkv. þessu frv. á að undanskilja þessi 16 þús. Hreppurinn á ekki að greiða þetta, og eigendurnir ekki heldur, en gangvart öðrum hreppsfélögum er þessu gjaldi jafnað niður eftir því verðmæti, sem innansveitarmenn í hverjum hreppi eiga: á þann hátt verður hvorki það sveitarfélag, þar sem þessar eignir standa, né heldur önnur hreppsfélög beinlínis fyrir misrétti af þessum sökum, en ef þessir bústaðir eru taldir með og þeir eru lagðir til grundvallar fyrir niðurjöfnun gjaldsins, þá verður því jafnað niður eftir réttu hlutfalli eftir þeim verðmætu eignum, sem til eru í hverjum hreppi án tillits til þess, hvar menn eru búsettir, sem eiga þessar húseignir. Ef mjög mikil upphæð stendur t. d. í einhverju sveitarfélagi af slíkum húseignum, þá verða önnur hreppsfélög betur úti, vegna þess að þetta gjald kemur ekki niður á öðrum hreppsfélögum en þar, sem þessar eignir standa. — Þetta, er þess vegna meira en mælikvarði. Það er beinlínis miðað við þessar eignir, en svo má hreppsfélagið náttúrlega ráða, hvort það tekur gjaldið úr sveitarsjóði eða á einhvern annan hátt. Það getur jafnað því niður á fasteignir og látið hvern borga sinn hlut. Menn innan sveita greiða líka fasteignagjöld og eignarskatt, að svo miklu leyti sem þeim ber það. Þess vegna er ekkert nýtt í þessu.

Í þessu sambandi má benda á það, að mönnum gæti dottið í hug að reyna að losna við að borga skatt af eignum, sem ekki eru síður óarðberandi, eins og t. d. sjóbúðir í verstöðvum: það er ekki alltaf víst, að þær gefi mikið af sér, en samt verður að greiða af þeim þessi gjöld. Ég veit ekki, hvort sumarbústaðir eru eigendunum nokkuð óarðsamari heldur en hús þeirra manna, sem í sveitum búa, og þetta er þess vegna krókaleið hjá hv. þm. V.-Sk. til þess að fría menn undan réttmætum gjöldum, sem miðuð eru við þessar eignir eins og aðrar eignir innan sveitarfélaganna.

Það fer fjarri því, að af minni hálfu sé verið að seilast eftir nokkrum óréttmætum gjöldum; ég ætlast aðeins til þess, að af þessum húseignum séu greidd sambærileg gjöld við það, sem menn greiða innan þeirrar sveitar, þar sem þessar eignir standa. Það þýðir ekkert að vera með þessa vafninga og málþóf, sem hv. þm. V.-Sk. var með, aðein, til þess að villa mönnum sýn í þessu máli, því að það er svo einfalt, að það hlýtur að liggja hverjum sæmilega viti bornum manni í augum uppi, og það er ósamboðið þessum hv. þm. að reyna að telja mönnum trú um annað. Það væri miklu eðlilegra og einlægara fyrir hv. þm. að segja hreint og beint, að hann vildi undanþiggja þessa menn þessu gjaldi; um það geta menn haft sínar skoðanir, eftir því sem þeir eru gerðir. — Hv. þm. fannst mig skorta skilning á þessu; hann sagði, að ég hefði ekki ennþá áttað mig á þessu. Ég held, að hv. þm. ætti sjálfur að athuga þetta mál dálítið betur; þá kæmist hann ef til vill að raun um, hvor okkur það er, sem ekki hefir enn áttað sig á þessu máli. Þótt hv. þm. gefi í skyn, að brtt. sú, sem ég hefi í hyggju að bera fram við þetta frv., gæti ekki átt við þetta mál, sem hér liggur fyrir, þá ætla ég samt að bera hana fram, og hlakka ég til að sjá röksemdir hv. þm., þegar brtt. liggur fyrir, ef hann ætlar að sýna fram á, að hún sé ekki frambærileg.