28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

95. mál, sveitarstjórnarlög

*Gísli Sveinsson:

Hv. 1. þm. Árn. tók það nú óstinnt upp, sem ég var að leiðrétta fyrir honum, bæði að skilninginn skorti hjá honum og eins að framsetning þessa máls, sem hann taldi þó ofur einfalt, væri ábótavant. Sannleikurinn er, að þetta mál, eins og það er borið fram, er ekki eins einfalt og hv. þm. hyggur, og því gæti hv. þm. rennt grun i, hvernig ástandið er, að honum þykir málið einfalt. Það er háttur þeirra manna, sem lítt skilja, að þykjast vita jafnvel, þó að á þá sannist, að þeir gera það ekki. En ég álít, að það sé ekki mannlegt, heldur ómannlegt, að halda áfram í villu eftir að búið er að sýna fram á, að villt er farið. Það væri rétt fyrir hv. þm., þó að hann fari úr forsetastóli, að setja sig inn í þau mál, sem hann talar um, því að innihald þeirra virðist fara fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þm. Það er sýnilegt, að enn er hann ekki farinn að skilja þetta einfalda mál. Það var ekki verið að ræða um að leggja gjöld á þessa menn. Þetta, sem kom fram sem brtt. við útsvarslögin, var gert til þess eins og í þeim höfuðtilgangi að forða hreppsfélögum frá því að verða íþyngt meira en vera bar í niðurjöfnun gagnvart öðrum hreppum, og það er rétt. Ég hefi þegar tekið það fram, að ég álít þá leið, sem gert er ráð fyrir, ranga. Ég er á móti því að fara að leggja útsvar á menn uppi í Mosfellssveit, sem lagðar eru hér á allar skyldur. Hv. þm. var að kvarta yfir því, að við gætum ekki komið hreint fram og sagt, að við værum á móti þessu. Ég get sagt hv. þm., að ég hefi tekið það skýrt fram, að ég er á móti þessu ákvæði. Ég verð að segja það, að hjá þessum hv. þm. virðist hver vitleysan reka aðra. Ég skil hv. þm. satt að segja ekki, og það hlýtur að vera, að aðrir, sem að þessu máli standa, beri meiru skyn á það. Mér er óhætt að leggja það undir dóm þeirra, sem á hlýða hér, hvort þetta muni vera rétt eða rangt, sem ég hefi borið hér fram. Það er ekkert annað en kynna sér lögin, sem gilda um þetta, þá sjá menn, að þetta er svona, en ekki á annan veg. Hv. þm. hefði átt að fara að ráði hv. þm. Mýr., sem átti upptökin að þessu máli og talaði fyrst fyrir því, en sagði svo, að mín leið væri rétta leiðin, og tilgangur hans hefði aldrei verið unnar en að ná því, sem með minni leið er unnt. Ef hv. þm. vill endilega reyna að leggja á Rvíkinga í sveit, verður hann að koma því í útsvarslögin, og þá gengur hann hreint til verks. Þegar sú breyt. þeirra kemur fram, verður afkvæðamagn að ráða, hvort hún nær samþykki eða eigi.