03.04.1936
Neðri deild: 41. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Frv. þetta er flutt af sjútvn. eftir beiðni atvmrh., og eins og segir í grg. frv., er það upphaflega samið af forseta Fiskifélags Íslands og forstjóra Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum. Nú hefir sjútvn. lagt mjög mikla vinnu í að athuga frv. og jafnframt lagt áherzlu á, að í frv. væri gert ráð fyrir, að vátryggjendur fengju öll þau beztu kjör hjá hinum væntanlegu vátryggingarfél., sem nú fást hjá þeim vélbátaábyrgðarfél., sem nú starfa, og einkafél., sem nú taka að sér vátryggingu vélbáta. Það er gert ráð fyrir því, að Fiskifél. Ísl. gangist fyrir stofnun bátaábyrgðarfél. í öllum verstöðvum landsins, og að takmörk hvers svæðis séu ákveðin í samráði við skipaeigendur. Eins og nú hagar til, eru starfandi í landinu þó nokkur innlend vélbátaábyrgðarfélög, og nokkur þeirra hafa starfað mörg ár með mjög góðum árangri. Ennfremur er starfandi í landinu Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, sem ýmist hefir beinar tryggingar með höndum eða endurtryggingar fyrir þau vélbátaábyrgðarfélög, sem starfa nú. Nú hefir það komið í ljós á seinni árum, að starfsemi Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum nær ekki tilgangi sínum nema að nokkru leyti, þar sem þessu er svo háttað, að Samábyrgðin hefir talsvert af beinum tryggingum, og þá aðallega þær tryggingar, sem félög þau, sem nú starfa, hafa ekki viljað taka að sér, og það hefir leitt til þess, að Samábyrgðin hefir tapað það mikið á undanförnum árum, að allar líkur eru til þess, að hún verði að hætta, ef ekki er tekin upp einhver ný leið í vélbátaábyrgðartryggingum. Gera má ráð fyrir, ef Samábyrgðin leggst niður af einhverri ástæðu, að þá verði það til tjóns fyrir sjávarútveginn, og sérstaklega fyrir vélbátaábyrgðarfélögin, sem hafa til þessa gert hagkvæmar endurvátryggingar hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Þess vegna er í frv. gert ráð fyrir, að farið sé inn á nýja braut, m. a. með því að gera alla þá, sem vélbáta eiga, skylda til þess að vátryggja bátana, og að stofnuð verði félög á ákveðnum svæðum, sem taki að sér allar vátryggingar, hvert á því ákveðna svæði, en þessi félög endurtryggi síðan hjá Samábyrgðinni, og myndu þá jafnframt falla niður þær beinu tryggingar að mestu eða öllu leyti, sem Samábyrgðin hefir nú. Eitt af því, sem hefir torveldað starf Samábyrgðarinnar, er það, hve hinar beinu tryggingar hennar eru dreifðar og erfitt fyrir stjórn Samábyrgðarinnar að hafa eftirlit með vélbátum þeim, sem tryggðir eru hingað og þangað úti um land, þannig að þegar tjón koma fyrir, þá er það vandkvæðum bundið fyrir Samábyrgðina að fylgjast svo með þeim málum, að vel sé.

Ég sé ekki ástæðu til að fara við þessa umr. nánar út í einstakar gr. frv., en ég skal ítreka það, að sjútvn. hefir haft þetta mál til meðferðar á mjög mörgum fundum, auk þess, sem það hefir legið fyrir dönskum vátryggingarsérfræðingi, sem er kennari við vátryggingarskólann í Kaupmannahöfn, og hann hefir gert ýmsar merkilegar og athugaverðar aths., um allar hafa verið teknar til greina. Ennfremur hefir nefnd frá fiskiþinginu haft þetta mál til athugunar og gert ýmsar aths. við það, og hefir sjútvn. í sínum till. einnig tekið þær til greina, auk þess, sem hún leitaði upplýsinga hjá forstjóra Sjóvátryggingarfélags Íslands, Brynjólfi Stefánssyni, sem hefir mætt á fundi hjá n. og látið álit sitt í ljós um ýms atriði, sem n. þótti miklu varða að fá upplýsingar um. Í frv. er gert ráð fyrir, að þau félög, sem nú starfa, haldi áfram sínu starfi, en breyti l. sínum í samræmi við þessi l., sem hér liggja fyrir, ef þau ná fram að ganga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni, en óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.