08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. var vel ljóst, þegar hún hafði þetta mál til meðferðar, það sem hv. þm. Borgf. sagði síðast í sinni ræðu. N. er það fullljóst, að útgerðarmenn mega ekki við því að fá verri kjör á skipatryggingunum heldur en nú er. Og í samræmi við þetta hefir n. unnið og gert margar víðtækar breyt. á frv. frá því, sem það var fyrst þegar það kom til n. Við tókum einkum til greina við þær breyt., auk þeirra athugana, sem nm. gerðu sjálfir, athugasemdir frá sjútvn. fiskiþingsins, sem ég átti líka sæti i, og hafði ég því haft tækifæri til þess að kynna mér þetta mál ennþá betur heldur en aðrir nm. Þær aths., sem sjútvn. fiskiþingsins hefir gert við þetta frv., eru í 8 liðum. Fyrsti liðurinn er um að heimila nægilegan frádrátt fyrir skip, sem væru lítið eða ekkert notuð eða stæðu uppi mestan hluta ársins, svo sem mörg síldveiðaskipin. Þessa aths. hefir n. tekið til greina, sbr. 32. gr. frv., þar sem segir, að endurgreiðslu fyrir skip, sem staðið hafa í landi, „skal reikna hlutfallslega af hinu greidda ársiðgjaldi“. En þrátt fyrir þetta eru skipin ávallt tryggð fyrir venjulegri hafnaráhættu (revier), þegar þau liggja uppi. — 2. aths. er um það, að flokkun iðgjaldanna fari eftir stærð skipanna og eftir áhættusvæðum, sem skipunum er ætlað að sigla um. Þetta atriði hefir verið tekið til greina í 31. gr., þar sem segir, að þar, sem sérstaklega standi á, sé heimilt að ákveða iðgjöldin með hliðsjón af því áhættusvæði, sem skipinu sé ætlað að vera í förum um. — 3. aths. er tekin til greina í 12. gr. frv., þar sem segir, að vátryggja skuli 9/10 hluta hvers skips og að félagið beri ávallt „fyrstu ábættu“ af hverju einstöku eignartjóni. Þann 1/10 hluta, sem þá verður eftir, má hvergi vátryggja. — Þá er 4. liðurinn í áliti fiskiþingsins, en hann er um frádrátt tjónbóta. N. sýndist þetta að ýmsu leyti ósanngjarnt eins og það var í upphaflega frv. og hefir að öllu leyti tekið til greina till. fiskiþingsins, og er ekki til þess ætlazt, að dregið sé frá annað heldur en það, sem venjulegt er hjá vátryggingarfélögum yfirleitt. En í upphaflega frv. virtist n. sem mjög væri gengið á rétt vátryggjenda, en það hefir verið leiðrétt að öllu leyti.

Þá eru ákvæði um björgunarlaun yfirleitt, sem fiskiþingið áleit stórhættuleg fyrir líf manna og öryggi skipa. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að ef skip þyrfti að fá drátt hjá öðru skipi vegna vélarbilunar, þá greiddi vátryggingarfélagið ekki nema 1/5 hluta af þeim kostnaði. Þessu hefir verið breytt í frv., en haldið þeim ákvæðum, sem gilda hjá öðrum félögum, um að hjálpi skip öðru skipi, sem vátryggt er hjá sama félagi, þá skuli ekki greiða fyrir það sérstaklega. Í annan stað var gert ráð fyrir því, að skipverjar væru að nokkru leyti sviptir sínum rétti, en til þess að tryggja, að svo yrði ekki, þá setti n. inn ákvæðin um gerðardóm, sem í frv. er.

Viðvíkjandi opnum vélbátum treysti n. sér ekki að ganga lengra heldur en segir í 25. gr., að ávallt skuli félagið greiða sinn hluta af kostnaði við björgun opinna vélbáta, sem orðið hafa fyrir skaða, sem hlýzt af nauðlendingu. Þarna er það tryggt, að ef báti hlekkist á í lendingu, fæst það tjón greitt. Hinsvegar er ætlazt til, að bátseigandinn verði sjálfur að sjá fyrir því, að bátnum sé komið fyrir á tryggilegum stað í hvert sinn eftir að hann hefir verið notaður. Þannig er gert ráð fyrir, að sé hann ekki settur upp eftir hverja sjóferð, þá verði búið tryggilega um hann. Eftir þeirri reynslu, sem fengin er hér á landi af tryggingu opinna vélbáta, treysti n. sér ekki að ganga lengra í þessu efni heldur en gert er í frv. Ég ætla, að hv. þm. Borgf. muni sannfærast um, að hér er gengið svo langt sem unnt er.

Þá er 7. aths. um bætur fyrir tjón á akkerisfestum. Það var tekið sérstaklega fram í upphaflega frv., að slíkt skyldi ekki borgað. Þetta taldi n. ófært, m. a. vegna þess, að ef skip missir legufæri, er hætt við, að skipið verði legufæralaust um ófyrirsjáanlegan tíma. Fyrir þetta er nú byggt með ákvæðum í 14. gr. frv., þar sem segir, að félagið bæti hvert það tjón, sem verði af sérhverri áhættu, sem skipið lendir í á vátryggingartímabilinu, þar með fyrir tjón á akkerisfestum eins og annað. — Ofurlítil prentvilla hefir slæðzt hér inn í frv. Það stendur, að félagið bæti sérhvert „hjón“, en á vitanlega að vera tjón. — Hvað viðvíkur 8. aths. fiskiþingsins, þá hefir n. tekið hana fyllilega til greina. — Út af öðrum smáaths. hv. þm. Borgf. skal ég geta þess, að í frv. eru að vísu ekki sett þau ákvæði neinstaðar, að vátryggingarfélögin skuli gefa mönnum ekki verri kjör heldur en þeir nú hafa. En frv. er sniðið eftir því, sem sjútvn. hafði kunnáttu til og gat aflað sér upplýsinga um, einmitt með þetta fyrir augum. — Hv. þm. Borgf. gerði þá aths. við ákvæðin um endurgreiðslur fyrir hafnarlegur, að honum þótti endurgreiðslan fyrir þær ekki vera nógu víðtæk, þar sem ekki yrði endurgreitt fyrir minni hafnarlegu en einn mánuð samfleytt. Mér er ekki kunnugt um, hvaða reglur gilda um þetta hjá sjóvátryggingarfélögum, yfirleitt. En mér er kunnugt um það, að á aumum stöðum hefir Sjóvátryggingarfélagið ekki endurgreitt neitt, þó að skip hafi staðið uppi mjög langan tíma. Mér er kunnugt um, að Sjóvátryggingarfélagið hefir greitt fyrir 30 daga uppistöðu, en mér er hinsvegar ekki kunnugt um, að það hafi nokkru sinni endurgreitt fyrir 7 daga hafnarlegu; þó kann það að vera, að slíkt hafi átt sér stað, og vona ég, að hv. þm. geti upplýst það.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar, en vænti þess, að þær skýringar, sem ég hefi komið með, nægi til þess að sannfæra hv. þm. Borgf., þannig að hann geti aðhyllzt þetta frv.