14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

Frsm. (Finnur Jónsson):

Hæstv. ríkisstj. hefir látið rannsaka og undirbúa þetta mál, sem hér liggur fyrir, samkv. þskj. 151 frá Alþ. 1934, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Sameinað Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta rannsaka, á hvern hátt verði bezt fyrir komið vátryggingum á fiskibátum, og leggja fyrir næsta Alþingi frumv. til laga um þau mál.“

Í grg. fyrir þessari till. segir á þessa leið: „Vátrygging hinna smærri skipa og báta innan fiskiflota landsmanna mun nú vera mjög ábótavant, og vátryggingarnar, a. m. k. sumar, að ýmsu leyti alls ekki hentugar. Nokkuð af skipum og bátum er tryggt í Samábyrgð Íslands, nokkuð í Sjóvátryggingarfélagi Íslands og eitthvað í erlendum vátryggingarstofnunum. En allmikið af smærri og stærri fiskibátum er hvergi vátryggt. Virðist vera full ástæða til, að þetta mál verði rannsakað ýtarlega og reynt að finna hentuga leið til þess að koma þessari grein tryggingarmála í betra horf en nú er. “

Mér skilst, að það, sem vakti fyrir Alþ., þegar það samþ. þessa till., væri það, sem nefnt er sem ástæða í grg. þeirri, sem fylgdi till., þ. e. að vátryggingarnar væru að ýmsu leyti ekki hentugar og að margir bátar væru alls ekki tryggðir. Ég ætla, að þessum ástæðum og þessari nauðsyn hafi verið rétt lýst, enda hefir sá eini andmælandi frv. hér í hv. d., hv. þm. Borgf., ekki treyst sér til að mótmæla því. Og sé svo, að þörf hafi verið á, að úr þessu væri bætt, þá verður það trauðla gert með öðru en því að lögbjóða skyldutryggingu, eins og gert er í þessu frv. Nú er það svo með allar tryggingar, að því meira sem áhættunni er dreift, því öruggari er tryggingin fyrir þann, sem tekur hana að sér, en í frv. er gert ráð fyrir, að það séu eingöngu vélbátaeigendur sjálfir; og vélbátaeigendur, sem hafa stofnað slík tryggingarfélög, hafa tekið sömu iðgjöld fyrir báta, sem hafa verið þar, sem hafnarskilyrði eru slæm, eins og þar, sem þau eru góð. Ég get nefnt það sem dæmi, að Bátatrygging Ísfirðinga hefir tekið jöfn iðgjöld fyrir báta á Ísafirði, þar sem er ágæt höfn, eins og fyrir báta frá öðrum verstöðvum við Ísafjarðardjúp, þar sem hafnarskilyrði eru slæm. Ennfremur er svo um Vélbátatrygging Eyfirðinga, sem nær yfir ýms svæði, þar sem hafnir eru ágætar, og önnur svæði, þar sem engar hafnir eru. Bæði þessi félög telja sér nauðsynlegt að dreifa áhættunni með því að láta trygginguna ná yfir sem stærst svæði.

Í 31. gr. er það sett sem grundvallaratriði, að iðgjöldin skuli ákveðin af atvmrn. eftir till. Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum — sem þessu er vitanlega kunnugt — og ennfremur eftir till. starfandi vélbátaábyrgðarfélaga, og ennfremur er sleginn varnagli, að með samþykki atvmrn. megi breyta iðgjöldum, eftir því sem þörf og reynsla krefur.

Nú vill ekkert einkafyrirtæki taka að sér slíka tryggingu til lengdar, nema það telji sér hag að því, og þegar stofnað er til slíkra tryggingarfélaga, þá verður fyrst og fremst að ganga þannig frá lögunum, að félögin verði starfshæf og geti greitt það tjón, sem verður á þeim bátum, sem hjá þeim eru tryggðir.

Ég álít, að málið sé svo vel undirbúið hjá ríkisstj. með þeirri miklu athugun, sem það hefir fengið hjá sjútvn., að ástæðulaust sé að fresta því, og hlýt ég því að leggja á móti dagskrártill. hv. þm. Borgf.

Ég skal geta þess, að í þeirri þál., sem ég gat um áðan, þar sem stj. er falið að láta rannsaka, á hvern hátt vátryggingunum verði fyrir komið, er stj. líka falið að leggja ekki Samtrygginguna niður á meðan málið er í athugun.