14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Garðar Þorsteinsson:

Ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til þess að fresta afgreiðslu þessa máls. Ég tel, að þetta mál hafi hlotið betri undirbúning en venja er til um mál hér á þingi; það virðast allir vera sammála um, að þetta frv. sé vel undirbúið, en hinsvegar greinir menn á um einstök atriði og kjósa þess vegna að athuga málið betur. Þetta mál er flutt af n., og það er búið að vera við 2. umr., svo að menn hafa haft talsverðan tíma til þess að athuga það.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að það skipti litlu máli, hvort málið yrði afgr. núna eða á næsta þingi, en ég vil minna hv. þm. á það, að í einu sjávarþorpi okkar er ýmsra aðstæðna vegna svo ástatt, að útvegsmenn geta ekki vátryggt báta sína; þetta þorp er Ólafsfjörður, og er þess skemmst að minnast, að haustið 1934, þegar margir bátar brotnuðu og sumir skemmdust á annan hátt, fengust engar bætur, vegna þess að bátarnir voru óvátryggðir og fengust blátt áfram ekki vátryggðir; ég man ekki betur en að útvegsmenn í þessu plássi hafi sent þinginu áskorun um að afgr. þetta mál á þessu þingi, því að fyrst þegar þetta er orðið að lögum, geta þeir fengið báta sína vátryggða, sem eru um 35, en vitanlega mætti gera einhverja breyt. á lögunum á næsta þingi, ef þess þyrfti með.