02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (2760)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir því og þeim breyt. á framfærslul., sem það fer fram á. Ég sé enga ástæðu til þess að endurtaka það aftur hér í hv. d., en skal láta þess getið út af afgreiðslu málsins í hv. allshn., að ég og hv. 2. þm. Reykv. vorum samþykkir því að mæla með, að frv. næði óbreytt fram að ganga. En meiri hl. n., eða þeir hinir þrír aðrir, sem eru með okkur í n., voru ekki reiðubúnir að taka afstöðu til málsins og lýstu sig því í raun og veru hvorki með því eða móti og hafa óbundin atkv. yfirleitt um málið. Ég vænti þó, að þeir hafi nú lokið þeirri athugun á frv., sem þeir ætluðu að framkvæma, og leyfi því nú fram að ganga.

Ég vil svo leyfa mér f. h. minni hl. allshn. að leggja til, að frv. verði samþ. hér í hv. d.