02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

125. mál, framfærslulög

Jón Pálmason:

Það er kunnugt mál, að framfærslulögin eru lög frá síðasta þingi. Þau eru víðtækur lagabálkur, eins og hv. þm. er ljóst, lagabálkur, sem var rækilega athugaður á síðasta þingi, eftir að hafa verið lagður fram af mþn., sem skipuð var til þess að undirbúa það mál. Mér þykir það þess vegna vera dálítið undarlegt að fara að koma með breyt. nú þegar á þessum lögum, sem ekki virðast meira aðkallandi en þessar breyt. eru. Því að þau rök, sem ég hefi heyrt frá hv. flm. fyrir þessu máli, eru ekki þannig vaxin, að ég fái séð, að það beri nauðsyn til þess að knýja þetta mál fram nú þegar, og allra sízt þegar það er vitað, að meiri hl. hv. allshn. hefir ekki skilað frá sér áliti í þessu máli. Ef málið kemur til atkv. nú í þessari hv. d., mun ég af þessum sökum greiða atkv. gegn því. Ég vænti og, að ef á að beita þeirri aðferð, að hv. þm. fái ekki að sjá álit meiri hl. allshn. í þessu máli áður en það er afgr. til 3. umr., þá verði fleiri heldur en ég reiðubúnir til þess að greiða því ekki atkv. áfram.