02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

125. mál, framfærslulög

*Ólafur Thors:

Það er eingöngu af því, að mitt nafn hefir verið dregið inn í þessar umr., að ég vil taka fram, hver afskipti ég hefi haft af þessu máli. — Það var fyrir alllöngu, að þess var óskað, að ég kæmi til viðtals við n. kvenna í suðurstofu Ed. Ég gat ekki orðið fullkomlega við þeirri ósk, af því að búið var að stefna öðrum mönnum til viðtals við mig. Ég gat með því að hraða þessu samtali komið á fund þessara kvenna. Höfðu þær þá, að því er mér skildist, talað við einhverja úr Alþfl. og Framsfl., en þegar ég kom þangað, var enginn þm. þar viðstaddur nema hv. 10. landsk. Mér voru tjáðar lauslega þessar till., án þess að skýringar á þeim fylgdu þar með. Ég lét falla þá umsögn, að mér væri ljóst, að þessar konur væru ekki að flytja þetta mál í öðrum tilgangi en þeim, að reyna að ráða bót á vandkvæðum þeirra, sem verst væru settir í þjóðfélaginu, og út frá því sjónarmiði vildi ég styðja þeirra mál, án þess að ég gæti bundið mig og ennþá síður mína flokksmenn til að fylgja þeim ákvæðum, sem þær vildu láta lögfesta. — Svo heyrði ég ekki meira um þetta má, þangað til það var borið fram. Ég sneri mér til fulltrúa Sjálfstfl. í allshn. og bað þá að flýta fyrir málinu og vera því velviljaðir eftir því, sem þeir sæju málefnalega ástæðu til, en tjáði þeim um leið, að málið væri svo nýframkomið, að ég hefði ekki persónulega myndað mér skoðun um, að hve miklu leyti ég gæti fylgt því. Báðir nm., hv. 8. landsk. og hv. þm. Snæf., tjáðu mér, að þeir væru mótfallnir einstökum ákvæðum, sumum a. m. k., og þeir mundu ekki geta fylgt frv., og ekki taka ákveðna afstöðu fyrr en þeim hefði borizt umsögn þeirra aðilja, sem þeir töldu sjálfsagt, að ættu að láta í ljós álit sitt á málinu. Ég hefi ekki haft aðstöðu til að hreyfa málinu á flokksfundi, til þess að fá þar vilja flokksins fram, en mér þykir líklegt, að þetta frv. verði ekki fremur flokksmál hjá Sjálfstfl. en önnur mál hér á þingi. Það er ekki þess eðlis, að það sé eðlilegt, að það sé flokksmál.

Ég tel mig þá hafa með þessu gert grein fyrir mínum persónulegu afskiptum af þessu máli, en það mun koma í ljós á sínum tíma, hvernig einstakir þm. Sjálfstfl. taka undir það.