04.05.1936
Neðri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2773)

125. mál, framfærslulög

* Jakob Möller:

Ég get upplýst það, að umsögn sú um þetta frv., sem hv. meiri hl. allshn. hefir mælzt til að fá frá framfærslunefnd Reykjavíkurbæjar, mun vera á leiðinni. Það kann því að vera óþarft að taka málið til umr. á þessu stigi, þar sem þetta er vitanlegt, að upplýsingar eru á leiðinni. Mér finnst því, að það megi bíða þangað til þær koma, úr því að farið var fram á að fá þær, og meiri hl. n. hefir ekki enn fengið tækifæri til að gera sér grein fyrir frv. og taka afstöðu til þess. Hv. flm. virðist hinsvegar hafa gefið sér nægilegan tíma til að undirbúa málið, ef undirbúningurinn hefir staðið yfir allan tímann frá því, að þingið var sett, eða jafnvel lengur.

Ágreiningur sá, sem hér er um að ræða, kom fram þegar er átti að framkvæma lögin og var risinn út af því, hvernig ætti að skilja síðasta málsl. 22. gr. laganna. Út af þessum ágreiningi, sem varð upphaflega á milli meiri og minni hl. framfærslunefndar Reykjavíkur — ég veit ekki, hvort hann hefir komið víðar fram — felldi atvmrh. úrskurð, sem gekk á móti skoðun meiri hl. framfærslunefndarinnar. En síðar kom það í ljós samkv. umr. um framfærslulögin á síðasta þingi, að meiri hl. framfærslunefndar hafði haft rétt fyrir sér. — Ágreiningurinn var um það, hvort í 22. gr. laganna fælust fyrirmæli um, að valdsmaður skyldi alltaf leita umsagnar framfærslunefndar í þeim tilfellum, sem þar um ræðir. Meiri hl. n. taldi svo vera, en ráðh. leit svo á, að honum væri það í sjálfsvald sett. Því var haldið fram af minni hl. framfærslunefndar og ráðh., að það bæri að skilja þetta ákvæði svo, að það væri öllum í sjálfsvald sett, hvort þeir leituðu umsagnar eða ekki. Í sjálfu sér er þetta ekki annað en útúrsnúningur á orðalagi gr., enda voru leidd rök að því með því að fletta upp í umr. þeim, sem urðu um þetta. Upphaflega var það þannig í frv., að valdsmanni væri skylt að leita álits framfærslunefndar eða hreppsnefndar. En af þm. Alþfl. hér í þessari hv. d. var svo borin fram till. um að bæta við orðunum: eða annara kunnugra. Valdsmaður má því velja um, hvort hann leitar álits framfærslunefndar, hreppsnefndar eða annara kunnugra. Svo bar hv. 2. þm. N.-M. fram brtt. á þá leið, sem þessi lagastafur hljóðar nú. Nú er enginn vafi á því, að það var ákveðinn vilji síðasta þings fyrir því að hafa þetta ákvæði eins og það hefir verið skilið af framfærslunefnd, en gagnstætt því, sem ráðh. hefir skilið það. Nú er farið fram á að breyta þessu ákvæði, ekki aðeins gegn skoðun framfærslunefndar, heldur er gengið enn lengra, eins og menn sjá, ef þeir bera saman þetta frv., sem hér liggur fyrir, og gildandi lagaákvæði, þar sem er í frv. í rauninni algerlega felld niður skylda valdsmanns til þess að leita álits nokkurs manns um hag viðkomandi styrkþurfa. — Í 3. gr. frv. er mælt svo fyrir, að kona skuli leggja fram skrifl. umsókn, og skuli fylgja henni skýrsla umsækjanda, gefin af henni sjálfri, og aðrar upplýsingar þarf valdsmaður ekki að fá til þess að kveða upp úrskurð heldur en skýrslu, gefna af konunni sjálfri. Að vísu er valdsmanni svo heimilt að leita staðfestingar á skýrslu konunnar, ef honum þykir ástæða til, en þetta virðist ekki þýða annað en það, að það eigi að láta konuna sjálfa staðfesta skýrsluna með því að taka af henni réttarskýrslu, eða að fá réttarlega staðfestingu skýrslugjafa á því, að skýrslan sé rétt, en hinsvegar alls ekki leita álits viðkomandi manna um það, hvort skýrslan sé rétt. M. ö. o. er eftir frv. enn minni trygging heimtuð fyrir því, að réttar upplýsingar séu fengnar um hagi þessara styrkþega, heldur en er þó í l. eins og þau eru nú, og þótt þau séu skilin eins og úrskurður ráðh. bendir til. Þetta fyrirkomulag er alveg í fyllsta ósamræmi við ákvæði l. að öðru leyti, því að ef hv. þm. lesa 23. gr., þá sjá þeir, að reglur um þetta eru byggðar algerlega á því, að meðlögin séu ákveðin eftir því, sem talið er, að þurfi, en ekki að sjálfsögðu eins og framfærslan kostar. Það er sem sé gert ráð fyrir því, að þessi styrkur af hálfu hins opinbera sé mismunandi eftir efnum og ástæðum styrkþurfa.

Eins og ég sagði, þegar þetta mál kom fyrst til umr., þá stafar þetta af því, að það er í rann og veru verulegur ágreiningur milli þingsins annarsvegar og þess aðilja, sem hefir tekið þetta mál að sér, sérstaklega svokallaðrar mæðrastyrksnefndar hér í Reykjavík, sem heldur því fram, að ekkjur, sem eiga börn, eigi alltaf undir öllum kringumstæðum rétt til framfærslustyrks fyrir börn sín af opinberu fé, án tillits til þess. hvernig hag þeirra er farið. Þetta hefir löggjafinn ekki getað fallizt á og heldur því fram, að þær eigi að vísu að fá styrk til framfærslu börnum sínum, en eftir því, sem þörf þeirra krefur. Ef þær hafa efni til þess að lifa á eigin spýtur, þá fá þær engan styrk, en annars eftir því, sem ástæður eru til. Það er augljóst, að breyt. sú, sem farið er fram á í frv. á þessu, er í ósamræmi við önnur lagaákvæði um þetta, og það nær þess vegna engri átt, að þessi breyt. verði nú gerð á þessu.

Alveg samat máli er að gegna um fleiri gr. frv., að þær eru í ósamræmi við löggjöfina, eins og t. d. 4. gr. og 8. gr.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta að sinni. Þetta er aðeins 2. umr. málsins, svo að það á eftir að koma til 3. umr., en þá verður væntanlega komin fram umsögn framfærslunefndar hér í bænum og afstaða meiri hl. allshn. verður þá orðin skýrari.

En ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. á móti því, að málið nái fram að ganga.