06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

125. mál, framfærslulög

Frsm. 2. minni hl. (Thor Thors):

Ég þarf ekki að vera margorður um þetta mál. Eins og getið var um við 2. umr. málsins, leitaði 2. minni hl. allshn., ég og hv. 8. landsk., álits framfærslunefndar Reykjavíkur um þetta mál. Þetta álit er nú komið og er prentað sem fskj. með nál. 2. minni hl. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi lesið þetta álit framfærslunefndar, og skal ekki rekja það með mörgum orðum, enda er búið að þrautræða þetta frv. við 2. umr., og reyndar líka við 1. umr.

Með tilliti til þess álits frá framfærslunefnd Reykjavíkur, sem í þessum efnum hefir mesta reynslu, teljum við ekki rétt að samþ. þetta frv. Hér er líka um það að ræða að breyta lögum, sem búið er að samþ. fyrir fáum mánuðum og þar af leiðandi hafa lítið verið reynd, — lögum, sem voru undirbúin af mþn., sem að mestu starfaði á ábyrgð núv. stjórnarfl. Ég tel sjálfsagt, að þegar reynsla hefir fengizt á lögunum — og það verður þegar á næsta þingi —, þá verði þau tekin til athugunar. Ég geri ráð fyrir, að við framkvæmd laganna komi margt fram, sem betur mætti fara á annan hátt. Þess vegna teljum við ekki aðkallandi nauðsyn á að breyta lögunum nú á þessu þingi. Eins og málið liggur fyrir, má segja, að sum ákvæði frv. hafi nokkrar réttarbætur í för með sér fyrir nokkrar konur, en þá auðvitað á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélaga. En ég tel ekki, að þessar réttarbætur séu svo mikilsvarðandi, að nauðsyn beri til þess að hlaupa nú þegar í að breyta l., enda þótt ég hafi nokkra tilhneigingu til að fylgja þessu frv. að nokkru leyti.