06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Við 2. umr. málsins, og reyndar við 1. umr. líka, gerði ég ýtarlega grein fyrir þessu frv. og tel því ekki ástæðu til að fara nánar út í það að þessu sinni. En í sambandi við þann ágreining, sem komið hefir fram um skilning á niðurlagi 3. gr., hefi ég leyft mér að bera hér fram brtt. á þskj. 518, og tekur hún af allan vafa um það, að þegar valdsmaður hefir fengið skýrslu frá konu, sem sótt hefir um meðlag samkv. framfærslul., þá hefir valdsmaður heimild til að leita staðfestingar á þessari skýrslu og óbundnar hendur um það, á hvern hátt hann leitar þeirrar staðfestingar. Mér þætti líklegt, að þeir, sem fundið hafa að orðalagi 3. gr., eða réttara sagt þeir, sem hafa viljað hártoga það, muni fallast á þessa brtt. og að með henni sé það leiðrétt, sem þeir hafa haft við þessa gr. að athuga.

Um nál. 2. minni hl. n. get ég orðið fáorður. Hv. frsm. 2. minni hl. hefir vísað sérstaklega til álits þess, sem meiri hl. framfærslunefndar Reykjavíkur gerði, en ég vil taka það skýrt fram, að það var aðeins meiri hl. framfærslunefndar, sem samþ. þetta álit, en ekki n. óskipt. Þetta mál kom til álita á fundi framfærslunefndar þann 4. þ. m., og var þá það álit, sem hv. frsm.

2. minni hl. vísar til, samþ. með 3:2 atkv. Hinsvegar létu 2 af 5 nm. bóka það, að þeir álitu breyt. til bóta og að þeir legðu til, að frv. yrði samþ. Það eru því aðeins 3 af 5 í framfærslunefnd Reykjavíkur, sem eru á móti þessu frv., en 2 af 5 eru með því.

Þar sem hér er farið lítt virðulegum orðum um mæðrastyrksnefndina, þá þykir mér rétt að geta þess hér, að mæðrastyrksnefndin er skipuð af 13 kvenfélögum, eða svo að segja öllum þeim kvenfélögum, sem starfa hér í bænum, og eru þau af öllum stéttum og stjórnmálaflokkum, enda eru í mæðrastyrksnefndinni konur af öllum stéttum og stjórnmálaflokkum, og n. hefir starfað af miklum áhuga að því að bæta hag mæðra hér í bænum og innt í því efni mikið og óeigingjarnt starf af höndum. Mér finnst það því harla óviðkunnanlegt, eins og þarna er komizt að orði, að segja, að þetta sé n. nokkurra kvenna, sem kalli sig mæðrastyrksnefnd.

Í þessu nál. eða álitsskjali meiri hl. framfærslunefndar Reykjavíkur hafa ekki komið fram önnur rök en þau, sem áður hafa verið flutt hér af andmælendum frv., og þessum rökum hefir verið svarað af þeim, sem fylgja þessu frv. Það væri því aðeins til að endurtaka það, sem áður hefir verið sagt hér í hv. d., ef ég færi að svara þessari álitsgerð meiri hl. framfærslunefndar Reykjavíkur, og get ég látið nægja að vísa til þess, sem ég og aðrir meðmælendur frv. hafa flutt hér fram við fyrri umr. Ég sé ekki, að neitt það hafi komið fram í þessu álitsskjali, sem rýri gildi frv. Það er að sjálfsögðu svo, þegar umkomulitlu fólki, sem hefir fyrir ómegð að sjá, er séð fyrir réttarbótum, þá verður það á kostnað þeirra, sem betur eru stæðir, og þá fyrst og fremst á kostnað þeirra bæjar- eða sveitarfélaga, sem eiga að annast framfærslu þeirra, sem réttarbæturnar fá. Í sjálfri stjskr. er gert ráð fyrir því, að þeir, sem ekki geti séð fyrir sér sjálfir, eigi rétt á styrk úr opinberum sjóðum, svo að þegar um það er að ræða að bæta kjör þessara mæðra, þá hlýtur það að einhverju leyti að ganga út yfir bæjar- og sveitarsjóði. En þess er þó rétt að geta, að styrkur sá, sem gert er ráð fyrir í frv., að veittur sé ekkjum, sem hafa fyrir börnum að sjá, er ekki venjulegur fátækrastyrkur, eins og hann var áður, heldur er hann ákveðin upphæð, og get ég ímyndað mér, að fenginni reynslu um verkanir framfærslueyrisins yfirleitt, að þessi styrkur gæti í mörgum tilfellum orðið til þess að forða konum frá því að þurfa að öðru leyti að leita á náðir þess opinbera, og það gæti beint og óbeint orðið til þess að spara að einhverju leyti framfærslueyri frá bæjar- og sveitarfélögum, og þannig þarf ekki að vera um nein útgjöld að ræða, sem annars mundu ekki koma til greina. Að svo komnu máli verð ég að láta mér nægja að vísa til þess, sem ég hefi áður sagt um þetta mál, og legg ég til, að frv. verði samþ. með þeirri smábreyt., sem ég hefi leyft mér að bera fram á 3. gr. frv. og ég gat um í upphafi máls míns.