06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

125. mál, framfærslulög

Frsm. 2. minni hl. (Thor Thors):

Ég þarf ekki að vera langorður. Ég vil aðeins leiðrétta útúrsnúning, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, þar sem hann sagði, að 2. minni hl. allshn. hefði farið miður virðulegum orðum um mæðrastyrksnefndina. Það eina, sem við sögðum um hana var það, að það væri nefnd nokkurra kvenna. Ég geri ráð fyrir, að hv. 1. landsk. geti ekki mótmælt því, að í þessari n. eru konur, og hann getur ekki heldur mótmælt því, að í henni eru aðeins nokkrar konur. Hvar eru þá hin óvirðulegu orð? Þetta er hreinn útúrsnúningur hjá hv. þm. Ég veit ekki, hversu margir félagar standa á bak við þessa mæðrastyrksnefnd, og ekki heldur, hvernig kosningu til hennar er háttað, en ég veit það, að þetta frv. er nú borið fram fyrir hreint ofurkapp af hendi nokkurra kvenna, og aðallega einnar konu hér í Reykjavík. Ég vil benda á það, að þetta mál lá alveg á sama hátt fyrir síðasta þingi, og þá komu þessar ágætu konur á fund allshn. Nd., og öll n. var þá sammála um, að ekki væri ástæða til þess, a. m. k. að svo stöddu, að sinna þessum tilmælum þeirra. É g ætla að fullyrða, að hv. 1. landsk., sem nú telur þetta eitt af stærstu velferðarmálum þjóðarinnar, hafi á síðasta þingi verið þeirrar skoðunar, að ekki væri ástæða til að sinna þessu máli. Ég hefi orðið var við, að þetta mál er sótt með svo miklu ofurkappi, að það er engu líkara en að hv. þm. séu svo hræddir við pilsaþytinn, sem stendur í kringum þetta mál, að þeir þori ekki annað en að fylgja því. Sem dæmi þess, hve mikið þykir í húfi með framgang þessa máls. má geta þess, að hæstv. forsrh. er sóttur hingað í d. og látinn vitna hátíðlega í málinu. Mér finnst þetta ofurkapp ekki standa í réttu hlutfalli við mikilvægi málsins.

Ég held fast við það, að þessar brtt., sem sumar kunna að vera til bóta, geti mjög vel beðið þeirrar endurskoðunar, sem hlýtur að fara fram á þessari löggjöf þegar á næsta þingi, og ég fyrir mitt leyti get lofað því að taka þeim málaleitunum þá vinsamlega, þegar þær eru tímabærar.