06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (2785)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Hv. þm. Snæf. vill halda því fram, að í nál. sínu og hv. 8. landsk. felist ekki álasanir í garð mæðrastyrksnefndarinnar, en það munu flestir sjá, sem lesa það, að þar er vægast sagt farið óvirðulegum orðum um þessa stofnun, sem sérstaklega hefir tekið sér fyrir hendur að gæta hagsmuna mæðranna í þessum bæ. Hv. þm. gat þess líka, að þessi félagsskapur hefði lagt á þetta mál mikið ofurkapp. Ég skal játa, að mæðrastyrksnefndin hefir í þessu máli, eins og mörgum öðrum, verið mjög fylgin sér og hefir ekki dregið sig í hlé. Það er að sjálfsögðu enginn löstur, heldur þvert á móti. — Mér virðist ekki minna ofurkapp í þessu máli af hálfu þeirra manna, sem nú vilja eyða því, þar sem það er vitanlegt, að þegar málið kom fram, þá var því vel tekið af ýmsum hv. þm., en síðar virðist hafa hlaupið ofurkapp í einstaka hv. þm., aðallega af hálfu Sjálfstfl. hér í hv. Nd., sem endilega vilja koma þessu máli fyrir kattarnef.

Viðvíkjandi afgreiðslu málsins á síðasta þingi er þess að geta, að ég og hv. 2. þm. Reykv. fluttum nokkrar brtt., sem voru felldar í lok þingsins, en sumar þeirra hnigu í sömu átt eins og fyrirmæli þessa frv. Það fær því ekki staðizt, sem hv. þm. sagði, að öll allshn. hefði ekki viljað leggja lið sitt þeim óskum, sem þá komu fram af hálfu mæðrastyrksnefndarinnar um breyt. á framfærslulögunum. Ég man ekki vel, hvaða atriði það voru, sem við hv. 2. þm. Reykv. fluttum, af þeim, sem eru í frv., en ég skal líka geta þess, að við lögðum eindregið gegn sumum breyt. sem náðu fram að ganga á framfærslulögunum, og það er eðlilegt, að nú sé farið fram á að breyta þeim í annað horf.