25.02.1936
Efri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég hafði búizt við, að hv. mþm. sæi sér fært að leggja til, að létt væri af héruðum ýmsum kostnaði, sem þau hafa af greiðslum til ríkissjóðs, og í öðru lagi, að eitthvað af tekjustofnum ríkissjóðs gengi til bæjar- og sveitarfélaga. Skattar og tollar til ríkissjóðs hafa á undanförnum árum hækkað mjög, og hefir mikið af tekjustofnum bæjar- og sveitarfélaga farið í slíkar greiðslur. En ég sé að hv. n. hefir ekki komið með neinar till. í þessa átt. Þó býst ég við, að margir hv. dm. séu mér samdóma um það, að ríkissjóði beri að gefa eftir nokkuð af tekjum sínum í þessu skyni, og að það sé framkvæmanlegt. T. d. er hvarvetna kvartað yfir því, hve berklavarnagjöldin séu há, og að héruðin fái ekki undir þeim risið sökum þess, hve erfitt reynist að ná inn útsvörum. Ef ríkið tæki minna í skatta, væri auðveldara að ná inn útsvörunum, og þau yrðu þá heldur ekki slíkur baggi á borgurunum sem nú. Ég legg því til, að n. athugi þau tvö atriði, sem ég nefndi, áður en hún skilar áliti sínu.