25.02.1936
Efri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég þarf ekki að vera margorður, þar sem þeir hv. ræðumenn, sem talað hafa, tóku frv. yfirleitt vinsamlega.

Ég álít það ekki rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði í byrjun ræðu sinnar, að í frv. væri farið fram á nýja skatta, en að réttur til útsvarsálagningar í bæjum og sveitum væri jafn eftir sem áður. Í útsvarslögunum er svo ákveðið, að jafna skuli niður eftir efnum og ástæðum því, sem aðrar tekjur hrökkva ekki til. Það má því ekki jafna niður umfram það, sem nauðsyn ber til, til þess að geta staðizt útgjöld. Nú má að vísu segja, að þegar bæjar- og sveitarsjóðir sjá hilla undir þessar nýju tekjuvonir, þá muni þeir fara að ráðast í ýmsar framkvæmdir, sem annars hefðu verið látnar bíða. Þetta má vitanlega segja, og það er auðvitað ekki hægt að girða fyrir allt. en þó verður að mínu áliti að gera ráð fyrir því fyrirfram, að bæjar- og sveitarstjórnir hagi sér nokkurnveginn skynsamlega. — Ég get verið hv. þm. sammála um það, að vandkvæðum getur verið bundið að heimila bæjar- og sveitarfélögum tekjustofna, sem ríkið eitt hefir áður haft. En það eru, eins og allir vita, til staðir á landinu, þar sem svo er ástatt, að gömlu tekjustofnarnir nægja ekki. Og þó að menn vildu fara leið hv. þm. og gera þennan aðskilnað alveg greinilegan, þá er það ekki hægt, því að til eru sveitarfélög, sem samt myndu sitja eftir í sömu ófærunum og áður. Ég skal játa með hv. þm., að vörugjöldin eru að ýmsu leyti vandasöm viðureignar. Má vel vera, að sá kafli frv. þyrfti nánari athugunar við. En það, sem n. hafði til fyrirmyndar um þessi vörugjöld, er hafnargjöld þau, sem hér í Reykjavík gilda og víðar og eru í rauninni vörugjöld. Og þar sem þau hafa nú ekki valdið stórvægilegum vandkvæðum undanfarið, þá ætti að mega gera ráð fyrir því, að reynslan myndi líka kenna mönnum að haga þessum vörugjöldum svo, að ekki komi að sök.

Ég er ekki sammála hv. þm. um það, að gjöldin af ríkisstofnunum komi aðallega niður á Reykjavík. Ef við tökum t. d. áfengisverzlunina, þá er ágóði hennar ekki allur eðlilegur gróði, sambærilegur t. d. við ágóða kaupmanna. Áfengisverzlunin er einkasala, sem selur óþarfavarning, er ríkisvaldið óskar helzt, að sé ekki neytt, og er því mikill hluti álagningarinnar í raun og veru skattur á þá, sem þessara vara neyta. Þetta gæti enginn kaupmaður gert í frjálsri verzlun. Ég sé því ekki, að Reykjavík eigi sérstaklega þær tekjur, sem af þessu hljótast.

Það getur verið rétt, að það kynni að vera þörf á að setja nánari ákvæði en gert er í frv. um úthlutun jöfnunarsjóðs, en n. fannst þó, að töluverð trygging væri fyrir því, að sjóðnum yrði réttilega úthlutað, þar sem þrír þingkjörnir menn eiga að hafa þá úthlutun með höndum, því að vitanlega verður að ganga út frá, að þessir menn geri þinginu reikningsskap ráðsmennsku sinnar, og maður verður að ætla, að Alþingi hafi hagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum. En sjálfsagt er þetta atriði frv. til athugunar undir meðferð málsins.

Þá minntist hv. þm. á það, og sagði, að sig undraði á því, að alveg vantaði í frv. ákvæði um skatt á samvinnufélögin. Hann viðurkenndi þó, og vil ég undirstrika það, að vitanlega hækkuðu útgjöld þeirra félaga, bæði vegna fasteignaskattsins og vörugjaldsins, í sama hlutfalli og á öðrum verzlunum, en heldur ekki meira, sagði hv. þm. Það er rétt, en þessir nýju skattar verða líka til þess að lækka útsvörin á kaupmönnunum, og þar af leiðandi verður niðurstaðan sú, að samvinnufélögin borga meira til sveitar- og bæjarfélaga heldur en þau gera nú í hlutfalli við kaupmenn. Það gilda sérstök lagaákvæði um útsvarsskyldu samvinnufélaganna, og ef rétt þætti að breyta þeim ákvæðum, þá liggur auðvitað beinna við að gera það með breyt. á samvinnulögunum.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, hefi ég lítið að segja. Hann taldi, að húsaskatturinn væri eftir frv. of hár, en á hinn bóginn mætti talsvert auka fasteignaskattinn með því að hækka allmikið skatt á löndum, og taldi hann forsvaranlegt, að sá skattur yrði allt að 1%. Nú vil ég benda á það, að eftir þeim horfum, sem nú eru með sveitabúskapinn, þá hygg ég, að fasteignaskatturinn megi varla vera mikið hærri í sveitum en gert er ráð fyrir í frv., en sú hækkun, sem hæstv. ráðh. var að tala um, hygg ég, að varla mundi nást, nema með því að lögbjóða einnig hækkun á fasteignaskattinum til sveita. Í sambandi við það, að húsaskatturinn sé í frv. settur of hár, vil ég geta þess, að það munar ákaflega litlu, sem hann er settur hærri í frv. en það, sem tíðkast nú, þar sem þessi skattur er notaður. Í Reykjavík mun hann vera 0,8%, en í frv. er gert ráð fyrir, að hann verði 1%, svo að þetta munar ekki miklu. — Hæstv. atvmrh. fannst vegaskatturinn ógeðfelldur í kaupstöðum, en ef hann er það þar, þá ætti hann einnig að vera ógeðfelldur í sveitum, en í sveitum er hann búinn að vera til í tugi ára, og ég minnist þess ekki, að komið hafi frá hæstv. ráðh. eða flokksmönnum hans frv. um að afnema hann.

Hæstv. ráðh. lagði til, að þetta frv. færi til hv. fjhn., en ekki til hv. allshn. Mér þykir næsta eðlilegt, að hæstv. atvmrh. fái að ráða því, til hvaða n. frv. verður vísað. Hann er upphafsmaður að þessu frv., og það heyrir undir hans ráðuneyti, svo að ég get ekki verið að deila við hann um þetta.

Þá var hv. þm. Dal. að tala um það, að n., sem undirbjó þetta frv., mundi vilja lifa lengi sem n.; ég hefði sagt það í minni framsöguræðu, og það væri líka að skilja á grg. frv. En þetta hefir hvergi verið sagt. N. talar um, að þörf sé á að endurskoða útsvarslögin, helzt fyrir næsta þing, eu það er hvergi sagt, að þessi n. ætti að gera það. Hv. þm. Dal. má gjarnan komast í n., sem hefði það verkefni. (MJ: Á hann þá að koma fyrir hv. 1. þm. Skagf.?). Ef hv. þm. Dal. vill ganga í þann flokk, sem ég fylgi, þá skal ég mæla með því, að hann verði kosinn. (MJ: Þetta nálgast það að vera mútur). Hv. þm. Dal. var að tala um það, að ekki væri nægilega skilgreint, hvað væri kauptún, samkv. 15. gr. frv. Það má vel vera, að einhver vafi geti leikið á um þetta, en þetta orð hefir nú samt verið notað í lögum oft áður, og er þá talað um hreppsfélög, sem séu kauptún, og ég hefi ekki orðið þess var, að það hafi valdið neinum vandræðum. Þó má vel vera, að þetta megi betur fara en er í frv., en þá væri ástæða til að gera samskonar lagfæringu á öðrum lögum. — Annars benti hv. þm. Dal. á eitt atriði, sem ég skal játa, að valdið hefir mér nokkurrar áhyggju, síðan n. gekk frá frv., og er það, að svo kann að standa á á stöku stað, þar sem um er að ræða lítið kauptún, en stórt uppland, sem sækir verzlun til kauptúnsins, að kauptúnið fái óeðlilega miklar tekjur af vörugjaldinu. Það kann að vera, að þetta geti átt sér stað, t. d. á Eyrarbakka, ef miklar vörur koma þar á land, eins og ég heyri sagt. Það er því sjálfsagt, að þetta atriði verði athugað gaumgæfilega. Ég skal geta þess, að það kom mjög til orða í n., að hve miklu leyti sýslusjóðirnir eða sveitarsjóðirnir ættu að fá þessar tekjur, og ef til vill mætti lagfæra þetta með því að láta sýslusjóðina fá vörugjaldið, en þetta er allt til nánari athugunar.

Ég þarf litlu að víkja að hv. þm. N.-Ísf., því að það, sem hann aðallega talaði um í sambandi við frv., tók ég fyrir í framsöguræðu minni. Honum er það vonbrigði, að n. skyldi ekki leggja til, að eitthvað af tekjum ríkisins skuli ganga til sveitar- og bæjarfélaga, og ekki heldur, að létt verði af þessum aðiljum neinum af núverandi útgjöldum. Ég gerði grein fyrir því áður, að n. taldi það tæplega sitt hlutverk að gera till. um þessi efni. Hinsvegar væri ég ákaflega fús til þess að eftirláta þessum aðiljum eitthvað af tekjum ríkisins, ef sýnt væri fram á það með rökum, að ríkið mætti missa þær tekjur, en undanfarið hefir það nú viljað sýna sig við samningu fjárl., að ríkið hafi ekki of miklar tekjur, og hefir heldur vantað á en hitt. Hin almennu orð um það í þessu sambandi, að ríkið geti sparað meira á sínum gjöldum en gert sé, hafa ekkert gildi, meðan ekki er sýnt fram á það með tökum, hversu það megi verða. Ég hefi ekki trú á því, að farið verði sparlegar með ríkisfé en gert er. Þótt víðsvegar að úr héruðum landsins komi bendingar um að spara, þá vilja engir láta spara hjá sér, heldur koma jafnhliða sparnaðartill. kröfur frá sömu mönnum um aukin framlög frá hinu opinbera til sinna þarfa. Það væri vitanlega ákaflega einfalt atriði að ákveða, að svo eða svo mikið af tekjum ríkissjóðs skuli ganga til bæjar- og sveitarfélaga, ef ríkissjóður mætti við því að missa af sínum tekjum, en það er vitanlega ómögulegt, þegar ekki er hægt að benda á, hvernig spara megi útgjöld ríkissjóðs.