24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Ingvar Pálmason:

Vegna þess að frsm. annars minni hl. allshn. er ekki viðstaddur, hefi ég hugsað mér að segja nokkur orð, sem ég geri ráð fyrir, að megi teljast sem grg. frá 2. minni hl. allshn.

Frsm. 1. minni hl. gat þess, að í mþn. hefði verið allgott samkomulag um mál þetta. Ég efast ekki um, að þetta sé rétt, enda þótt mig minni, að það standi í grg., að n.menn áskilji sér rétt til breyt. o. s. frv. Og mér virðist, að við meðferð málsins í allshn. hafi það komið í ljós, að eitthvað hafi verið ókokkað í þeirri n. En ég get sagt það sama úr allshn.; ég varð ekki var við annað en að það væri gott samkomulag í n., en það, sem strandaði þar á, að n. gat ekki skilað sameiginlegu nál., var það, að enda þótt til væri langsamlegur meiri hl. í n. fyrir því, að löggjöf um þetta efni gengi fram, þá voru svo margar og mismunandi skoðanir í n., að hún sá sér ekki fært að gefa út sameiginlegt álit. Ég skýri frá þessu hér, af því að ég álít, að ástandið í allshn. hafi stafað að miklu leyti af því ástandi, sem ríkti í mþn. Miklum meiri hl. n. mun það hinsvegar ljóst, að þingið þarf að afgr. l. um þetta efni, og ég er viss um, að það hefði flýtt fyrir málinu, ef n. hefði getað skilað áliti þannig, að hún hefði mælt með því, að frv. gengi fram, en einstakir nm. hefðu áskilið sér rétt til að bera fram brtt. við frv. — Ég skal þá víkja að frv. sjálfu nokkrum orðum og þeim brtt., sem við 2. meiri hl. berum fram við frv.

Um I. kafla er það að segja, að ég varð ekki var við það í n., að hann mætti verulegri mótstöðu. Og ég get tekið undir það, sem frsm. 1. minni hl. sagði, og þær brtt., sem hann flytur við frv., get ég fallizt á fyrir mína parta. — Um II. kafla er það að segja, að það kom fram frá einum nm. andstaða gegn þeim kafla. Ég ætla ekki að fara nánar út í þennan kafla án frekara tilefnis, en ef það koma fram andmæli gegn honum, mun ég taka þau til athugunar. — Þá kem ég að III. kafla, um vörugjaldið. Ég get sagt það strax, að afstaða mín til vörugjaldsins er og hefir alltaf verið sú, að ég tel þá leið ófæra nema alveg á vissum stöðum. Ég skal játa, að ég hefi gengið inn á, að einn bær fengi þennan tekjustofn, það er að segja Vestmannaeyjakaupstaður, af því að ég tel, að sá bær hafi sérstöðu í þessu efni. N. var sammála um það, að ekki væri rétt að taka vörugjaldið af framleiðsluvörum landsmanna. Ég er sérstaklega mótfallinn því af þeim orsökum, að þá eru skattlagðir gjaldþegnar, sem ekki ber nein skylda til þess að halda uppi sköttum í viðkomandi sveitarfélagi eða bæjarfélagi. Eftir frv. eins og það er verður þetta mjög tilfinnanlegur skattur, því að eftir því, sem mér reiknast til, nemur þetta gjald milli 50–60 aurum á hvert skippund af fiski, þegar allt er reiknað, salt og olía og annað, sem til útgerðarinnar þarf. Að þetta sé óhæft, liggur í augum uppi, því að eins og nú er komið fisksölunni, þá eru ekki útskipunarhafnir nema á vissum stöðum, svo að menn verða að vera í félagsskap um sölu á fiskinum. Ég get tekið dæmi, sem ég þekki mjög vel. Í Mjóafirði verða menn þannig að skipa út fiski sínum annaðhvort á Norðfirði eða Seyðisfirði, og þar verður hann vörugjaldsskyldur eftir frv. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að Mjófirðingar verða skattlagðir í Neskaupstað eða á Seyðisfirði af sínum fiski um 50–60 kr. af hverjum 100 skippundum. Mér sýnist það vera augljóst, að þetta getur ekki gengið. Það er ekki einungis af því, að ég kveinki mér við að leggja þessi gjöld á, að ég er á móti þessum kafla, heldur miklu fremur af því, að vörugjaldið kemur ranglátlega niður. Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta, en ég vildi taka þetta fram til skýringar. Meiri hl. allshn. virðist vera sammála um að fella niður vörugjaldið, en við í 2. minni hl. viljum ganga lengra; við viljum fella III. kaflann niður, og er það af þeim ástæðum, sem ég hefi þegar tekið fram. En úr því að við leggjum til, að kaflinn verði lagður niður, þá vildum við sýna lit á því að fá einhverjar tekjur í staðinn handa sveitarfélögunum, og höfum við þess vegna lagt til, að gjald það, sem ákveðið er í 25. gr. frv., verði hækkað um helming. Ég skal játa, að þetta er ekkert skemmtileg leið, en ég tel þó, að þessi leið sé miklu réttlátari heldur en sú, sem farin er í III. kaflanum. Og það er af því, að Alþingi er búið þing eftir þing að vinza úr þessar vörutegundir og skattleggja þær, og ég verð að álykta, að það sé þó með betur yfirlögðu ráði, að þeir tollar eru á lagðir, heldur en þeir, sem ráðgert er að leggja á í III. kafla. Mér er það ljóst, að okkur hefir ekki tekizt að finna í þessu máli allan sannleikann, en ég tel, að við höfum sýnt þá viðleitni til þess að leysa þetta mál, að það sé ekki rétt að byggja það á till. okkar, að þetta mál verði ekki leyst á þessu þingi. Ég hefi heyrt það síðan þessi till. okkar kom fram, að við höfum séð lakar fyrir hlut bæjanna heldur en sveitanna. Ég skal ekki dæma um þetta, en ég vil taka það strax fram, að ef svo er, þá er það ekki með vilja gert. Og ég vil fullyrða það, að þótt eitthvað megi að því finna gagnvart bæjunum, þá er þetta þó betri lausn en hin. Og ég vil leggja áherzlu á, að ég tel, að þrátt fyrir það, þótt það takist með hinum nýja kreppulánasjóði bæja og kauptúna að greiða eitthvað úr vandræðunum, þá sé ekki nóg úr bætt fyrir þeim. Ég skal taka það fram, að það má vera, að I. kafli frv. gefi mörgum bæjarfélögum ekki miklar nýjar tekjur, því að þau hafa þegar mörg tekið upp þessa tekjustofna, en það er mikill viðauki fyrir þau bæjarfélög, sem ekki hafa tekið þá upp. Nokkur viðauki er líka eftir II. kafla frv. Ég hefi ekki haft tækifæri til að kynna mér, hvað miklu það muni nema. Ég býst við, að það megi reikna með því, að um 20% íbúanna í hverjum bæ séu verktærir menn, og ef svo er, þá sjá allir, að þar er um nokkurn tekjuauka að ræða. Og ég tel, að þessi tekjuauki sé sá, sem kemur langminnst við gjaldþegnana, því að frv. gerir ráð fyrir, að hver og einn muni hafa heimild til að vinna það af sér. Og eins og nú stendur á, hygg ég, að flestir, sem eiga erfitt með að borga, hafi nægan tíma til að vinna það af sér. Þegar þessir tveir kaflar eru teknir, sem eru aðallega til að bæta úr tekjuþörf kaupstaðanna, og þegar tekinn er helmingur þeirrar tekjuöflunar, sem fæst samkv. IV. kafla frv., og ennfremur eru teknar þær tekjur, sem að auki fást samkv. V. kafla, þá fæ ég ekki betur séð en að segja megi, að eftir öllum vonum sé séð fyrir tekjuöflun þeim til handa. Menn verða að gá að því, að tekjuaukinn fyrir sveitirnar er ekki annar en sá, er fæst eftir II. kafla frv. samkv. brtt. okkar í 2. minni hl.

Ég hefi þá, auðvitað í stuttu máli og ekki greinilega, gert grein fyrir áliti okkar í 2. minni hl. allshn. — Eina brtt. hefi ég ekki minnzt á enn, en hún er við 35. gr. og er um skattskyldu til bæjar- og sveitarfélaga af starfrækslu síldarverksmiðjanna. Í frv. er gert ráð fyrir, að leggja megi 1% á umsetningu þeirra, er renni til bæjar- eða sveitarsjóða, en við leggjum til, að þetta verði fært niður í ½%, og byggjum við það á því, að hér eru að mestu leyti, eins og með vörugjaldinu, skattlagðir þeir þegnar, sem ekki eru skattskyldir í því sveitar- eða bæjarfélagi og ekki búsettir þar. Þó skal það játað, að þessi álagning er vafasöm að rétti, en þó ber að gæta þess, að þau sveitar- og bæjarfélög, sem hafa slíka starfrækslu innan sinna vébanda, hljóta alltaf af því meiri eða minni útgjöld, og auk þess áhættu, ef atvinnureksturinn bregzt, og þess vegna virðist mér ekki ósanngjarnt, að þau leggi eitthvað af mörkum til almennra þarfa. Ég held, að till. okkar í 2. minni hl. sé svo í hóf stillt, að ekki valdi ágreiningi.

Ég geri ráð fyrir, að ég fái ástæðu síðar til að taka til máls, þótt ég hafi skýrt svo þessar till. fyrir hv. þdm., að þær liggi ljóst fyrir, eftir því sem ég vona.

Ég vil því ekki tefja umr. meir, en vil vona í lengstu lög, að eitthvað gangi fram af þessu frv., og ég tel mig hafa ástæðu til að vænta, að svo verði. Og þótt ekki verði nema lítill hluti þess, tel ég það verða til bóta.