24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Þorsteinn Briem:

Ég get tekið undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um 14. liðinn. Verður víst hægt að leggja fram skýrslur um það framlag og hversu því hafi verið varið fyrir næstu umr.

En það, sem ég vildi fyrst og fremst minnast á, er lækkunin á framlagi til sýsluvegasjóða í 13. lið. Að vísu hefir verið felld í Nd. till. frá hv. þm. V.-Húnv. um að breyta þessum lið aftur í réttara horf, en ég mun þó áræða að flytja brtt., sem gengur í sömu átt, við 3. umr., og þá ekki síður við 13. lið, um lækkun framlags til kaupa á tilbúnum áburði. Þetta framlag hefir oftast verið um 40 þús. kr., en er ákveðið 28 þús. kr. í fjárlfrv. Sýnist ekki koma til neinna mála að fara nú að lækka þá upphæð um helming. Ég hefi áður flutt brtt. um þetta í sambandi við fjárlögin. En við næstu umr. mun ég flytja brtt. um að fella burt þessa nýju lækkun.

Ég hefi áður flutt brtt. um það, að 8. liður falli niður, þar sem gert er ráð fyrir, að niður falli sá hluti útflutningsgjalds, sem gengið hefir til ræktunarsjóðs. En þótt ræktunarsjóður megi sízt við slíkri meðferð, hefir það sýnt sig, að ekki tjáir í móti að mæla.