29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2827)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. 3. minni hl. (Þorsteinn Briem):

Ég get tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um frv. í heild, og lýsi því yfir, að eftir þá breyt., sem á því er orðin, verð ég því fylgjandi, því að nú hafa verið sniðnir af því mestu gallarnir, sem áður voru á því, svo að þótt enn séu gallar á því, þá er það miklu betra en áður. En það, sem ég vildi minnast á nú, er brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 455. Hann leggur til, að lagður sé 10% gjaldauki á áfengistoll og tóbakstoll og þessu viðaukagjaldi skipt á milli bæjarsjóða kaupstaðanna eftir mannfjölda. Hann játaði sjálfur, að þegar hann hefði verið að undirbúa þessa till., þá hefði hann verið í vafa um, hvort kauptúnin ættu ekki líka að fá þátttöku í þessu viðbótargjaldi, en þá er þess að gæta, að í flestum sýslum eru kauptún, og þau sýslufélög, sem hafa fá eða lítil kauptún, eru verr stödd, vegna þess að þau hafa verri aðstöðu um markaði. Þess vegna verð ég að telja — þegar það er játað, að kauptúnin geti komið til greina við skiptingu þessa gjalds — að það sé réttara að skipta því á milli bæjar- og sýslufélaga landsins eftir mannfjölda, eins og öðrum þeim gjöldum, sem um ræðir í þessum kafla. Það er vitað, að allmikill hl. þessara gjalda lendir á kaupstöðum og kauptúnum, en þær fáu sýslur, sem hafa fá kauptún, eru verr settar um verzlunaraðstöðu og ættu þess vegna ekki að vera settar hjá. Allir vita, að þótt erfitt sé nú í kaupstöðum og kauptúnum landsins, þá er það engu síður í sveitahreppum, og er nú skemmst á að minnast, ef t. d. er litið til harðindasvæðanna. Vitanlega gæti komið til greina önnur skipting en sú, að fara eftir mannfjölda, en það hefir engin till. komið fram í þá átt, og ég tel eðlilegt, að um þetta gjald gildi sama regla eins og önnur þau gjöld, sem ákveðin eru í III. kafla frv.

Ég get bætt því hér við, að ég gat þess við 2. umr., að ég teldi rétt, ef samþ. yrði ákvæðið um jöfnunarsjóð kaupstaða og kauptúna, að því yrði breytt þannig, að í stað „kauptúna“ kæmi: hreppa. En ef sú skrifl. brtt., sem ég nú ber fram, verður samþ., þá get ég fallið frá till. um það atriði.

Ég skal ekki tala mikið um það, að hér sé gengið inn á rétt ríkissjóðs með till. á þskj. 455, en hygg, að það verði að mjög litlu leyti. Það er ekki hægt að miða við það, þótt minna seljist af tóbaki nú heldur en meðan fjárhagur var rýmri, og það er engin sönnun fyrir minnkandi notkun, heldur ávöxtur af fjárhagsástandinu, að dregið er úr innkaupunum og birgðir hafðar minni.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt., sem ég flyt hér og gengur í þessa átt.