29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég skal fyrst aðeins víkja örfáum orðum að brtt. þeirra hv. 10. landsk. og hv. þm. Dal. Ég svaraði henni í raun og veru fyrirfram með því að segja það í fyrri ræðu minni, hvers vegna ég teldi ekki ástæðu til þess, að sveitirnar fengju hlutdeild í þessu gjaldi. Bæði er það af því, að sveitirnar borga tiltölulega lítið af þessu gjaldi, og eins af því, að þær halda þeim tekjustofnum, sem þeim upphaflega voru ætlaðir í frv. aftur á móti hefir verið létt af þeim mjög verulega með því að fella niður vörugjaldið og það, sem þær hefðu þurft að borga til bæjanna með því. Það er þess vegna ekki nokkur ástæða til þess að auka nú tekjur sveitarfélaganna, þar sem á þennan hátt beinlínis hefir verið létt af þeim útgjöldum, en bæjarfélögin um leið svipt verulegum tekjustofni án þess að bæta þeim það að nokkru. Ég játa, að ég hefði verið veikur fyrir breyt. á þessari till. minni, ef sú breyt. hefði verið þannig, að þetta gjald skyldi skiptast á milli kaupstaða og þeirra kauptúna, sem eru sérstök hreppsfélög. Og ef það mætti vænta samkomulags um að koma till. minni fram á þeim grundvelli. þá mundi ég vera tilleiðanlegur að ganga inn á brtt. í þá átt. Það væru þá þessir 13400 menn, sem þannig kæmust með í púlíuna. En ef á að fara að útvatna þetta, sem ég ætlaðist til, að skiptist á milli 31 þús. manna, með því að bæta þar við yfir 60 þúsundum, þá er það til að gera þetta gagnslaust. Mér þykir það leitt, að hv. þdm. skuli ekki vilja fallast á að skipta þessu á sama hátt eins og átti að skipta vörugjaldinu. Þar sem þetta er beinlínis lagt til í þeim tilgangi, að það verði nokkur uppbót á því, að vörugjaldið var fellt niður, þá er það vitanlega eina rökrétta meðferðin, að því gjaldi, sem með þessu fæst, verði skipt niður á milli þeirra aðilja einna, sem einhvers misstu í við það, að sá liður var felldur niður, en ekki að hinir fái hlutdeild í því, sem höfðu hagnaðinn af því, að vörugjaldið var fellt niður.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum til hæstv. fjmrh. Hann varði tíma sínum til þess að andmæla till. minni, og ég verð að segja, að mér fannst það koma úr hörðustu átt, þegar hann kemur með þau andmæli, að það þýði lítið að koma með slíkar till., þar sem aðeins væri stefnt að því að taka frá ríkinu og leggja til sveitar- og bæjarfélaganna. Það er einmitt þetta, sem við sjálfstæðismenn höfum borið fram, þegar hann hefir verið að heimta hinar síauknu tekjur handa ríkinu, að með því væri hann og hans samherjar beinlínis að gera árás á sveitar- og bæjarfélögin og eyðileggja tekjustofna þeirra og sölsa þá undir ríkið, og það getur þá ekki talizt nein goðgá, þótt bæjar- og sveitarfélögin reyni að ná í — einhvern lítinn hl. þess aftur, og þetta er sannarlega ekki nema lítill hluti. Það er heldur ekkert nýtt, að bent sé á þessa leið, og skal ég í því sambandi benda á, að á síðasta þingi kom einmitt fram þáltill. um að hækka álagningu á áfengi um 1 kr. á lítra og láta þann verðauka ganga til bæjarfélaganna. Þetta byrjaði á því, að lagt var til, að Siglufjörður fengi að hafa þessar tekjur af því víni, sem þar væri selt, en fór svo eins og eldur í sínu til annara staða, unz borin var fram að lokum þáltill. um að hækka áfengið um 1 kr. á lítra og láta hækkunina ganga til bæjarfélaganna. Það eru ýms bæjar- og sveitarfélög, sem standa þannig uppi, eins og hv. 1. þm. Eyf. minntist á í sinni ræðu, að þau geta ekki náð því fé inn, sem þau þurfa, til þess að inna af hendi þær skuldbindingar, sem á þeim hvíla. Það er þess vegna ekki ný hugmynd hjá mér að hækka þessa tekjustofna til ágóða fyrir bæjar-og sveitarfélögin. Hæstv. ráðh. sagði, og undir það tók hv. 1. þm. Eyf., sem var einn í mþn., að ástæðan til þess, að n. tók ekki þessa 2 tolla, áfengistollinn og tóbakstollinn, og hækkaði þá til afnota fyrir bæjar- og sveitarfélögin, væri sú, að þetta væru svo eðlilegir tekjustofnar fyrir ríkið, og að það ætti þá, svo að ekki væri rétt að ganga á þá á neinn hátt til afnota fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Þetta er það, sem margir hafa haldið fram að því er snertir bæjar- og sveitarfélögin, að það væru vissir tekjustofnar, sem þau ættu með réttu, og það væri ekki rétt af ríkinu að fara svo freklega að í því að afla tekna, að þau standi uppi ráðþrota. En hvað er þá eðlilegra en bæjar- og sveitarfélögin fari fram á að ná sínum tekjum af þeim mörgu liðum, sem ríkið hefir eitt, og ég sé ekki, að áfengis- og tóbakstollur sé nein undantekning í þessu efni. Ég á ómögulegt með að koma auga á muninn á því að leggja toll á tóbak og vín og að leggja á verðtoll og kaffitoll og annan slíkan toll. Og þó þessar vörur séu í einkasölu, þá gerir það ekkert til í þessu efni. Annars verð ég að segja það, að ég var sammála mþn. í því, að þetta vörugjald yrði lagt á. Þegar þessi hv. d. er búin að fella till. n. um vörugjald handa bæjar- og sveitarsjóðum, þá ber ég fram mínar till. sem neyðarúrræði, þegar ekki er í annað hús að venda. Hv. d. hefir skorið þetta niður gegn mínu atkv., og þá er ekki annað fyrir hendi en að fara í það næstbezta, til þess að fylla upp þetta skarð, og það þýðir ekki að vitna á móti með því, að það sé það, sem n. hefir lagt til. — Það var fróðlegt að heyra einu sinni játningu frá hæstv. fjmrh. um það, að það væri komið að takmörkunum fyrir því, hvað mikið mætti tolla einstakar vörur, — að þeim takmörkum, þegar tollahækkunin hætti að veita auknar tekjur. Hann hefir vanalega ekki viljað fallast á það, þegar aðrir hafa talað um það. Ég vil þó benda á það, sem kom fram hjá öðrum hv. þm., að reynsla eins árs í þeim efnum getur ekki skorið neitt úr um þetta. Allar tolltekjur, og sérstaklega af óþarfavöru, sveiflast upp og niður eftir árferði og kaupgetu manna, en tollaviðaukinn þarf ekki að skera úr þessu. Það er oft, að hækkunin kemur ekki öll fram, en hún getur verið töluverð samt. Ég skal fallast á það með hæstv. ráðh., að tollaálagið á tóbak og vín sé komið nærri mörkum. En það mætti gera þessa tilraun. Þetta eru ekki þesskonar vörur, sem hægt er að horfa í, þótt kaup á þeim minnki og tollaukinn kæmi ekki inn. En mér finnst, að það mætti prófa þetta, og ég býst við, að þó að eitthvað dragi úr kaupum, þá mundu tekjurnar nógar samt. Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, að það gæti gert dálítinn mun, að tollahækkunin gengi beint í bæjar- eða sveitarsjóði. Það er ekki óhugsandi, að það hafi dálítil áhrif, að þessi tollhækkun gengur beint til þess að létta öðrum gjöldum af mönnum innan takmarkaðs svæðis. Það er dálítill munur heldur en ef ætti að verja þessari tollhækkun í almennar þarfir ríkisins, án þess að mönnum væri það ljóst, að önnur gjöld lækkuðu að sama skapi. En þessi tekjuaukning bæjar- og sveitarfélaga á beinlínis að ganga til þess að lækka önnur gjöld, sem menn eiga erfitt með að rísa undir. Það er yfirleitt ekki þannig með tekjuhækkanir, sem ríkissjóði eru ætlaðar, að þær lækki alveg af sjálfu sér önnur gjöld á mönnum, en það gera þessir tekjustofnar vanalega. Menn vita, ef þetta væri samþ., að það, sem þeir borga meira fyrir tóbak og vín, verður til þess, að þeir greiða þeim mun minna í hina beinu skatta, útsvörin. Ég er ekki með þessu að segja, að þetta hefði stórkostleg áhrif, en það má þó benda á þetta. Ég skal ekki mikið fara út í hugleiðingar hæstv. ráðh. um það, að hækkun vínsins verði til þess að hækka tekjurnar. Ég er hræddur um, að hæstv. ráðh. sé ekki vel góður kaupmaður, et hann hugsar svona, a. m. k. ekki samtímis því, sem hann vill sýna fram á, að það dragi úr kaupunum. Eina ráðið til þess að auka tekjur ríkisins af víninu er að lækka vínið verulega í verði. Það er ekki ráðlegt að gera þetta, en ég er í engum vafa um, að það má græða mikið meira með því að selja ódýrt. Það er ekki verið að halda verðinu uppi til þess að fá sem mestar tekjur, heldur til þess að takmarka það, sem keypt er af víni. En þær verzlanir blómgast auðvitað bezt, sem geta boðið viðskiptamönnum sínum bezt kjör. Það má taka mjög mikið fyrir ágóðann með því að hækka vínið í verði. Ég hefi litið svo á, að með hinu háa verði á víninu sé verið að halda í hemilinn á mönnum, svo að þeir kaupi það ekki í óhófi. Eins og menn vita, þá tíðkast mismunandi aðferðir á Norðurlöndum til þess að hefta vínnotkunina; ýmist er það gert með ýmiskonar ákvæðum og lagaþvingunum, eða eins og Danir hafa haft það, en þeir hafa allt frjálst og hafa vínið dýrt, og hefir þeim ekki reynzt það lakar en þær aðferðir, sem notaðar hafa verið í hinum löndunum. En aðalmótbára hæstv. ráðh. var sú, að þetta væri að taka frá ríkinu og færa yfir á bæjar- og sveitarfélögin. Ég er nú ekki sammála hæstv. ráðh. um, að það megi ekki ná inn meiri tekjum með þessu. Það getur verið, að hækkunin verði ekki að sama skapi sem tollurinn hækkar, en hún verður áreiðanlega töluverð. En ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að hann skrifar ekkert í hinn dálkinn. Nú hafa verið felld niður úr frv. stórkostleg gjöld, sem upphaflega var ætlazt til, að væru þar, og á ýmsan hátt og eftir mjög mörgum leiðum hefði þetta vörugjald, 650 þús. kr., komið á einhvern hátt niður á ríkissjóðinn. Þetta hefði dregið úr kaupum manna og tekjum á ýmsan hátt, og það er enginn vafi á því, að 650 þús. kr. skattur, sem lagður væri á landsmenn til bæjar- og sveitarfélaga, kæmi niður í lækkuðum tekjum ríkissjóðs. En nú hefir þetta verið fellt niður, og það kemur í staðinn fyrir það, sem ríkið tapar á því, að tóbaks- og víntollurinn hækkar um 10%. Ég er sannfærður um, að ríkið og þess tekjur líða ekki við þetta sem nokkru nemur, frá því að frv. lá fyrir óbreytt. Ég man ekki eftir því, að hæstv. ráðh. andmælti því nokkuð á þeim grundvelli. Sá er munurinn, að með þessum till. mínum er um að ræða nýjan skatt til bæjarsjóða, sem nemur 200 þús. kr., móts við 620–630 þús. kr., sem felldar hafa verið niður úr frv. Ég er sannfærður um, að ríkissjóður sleppur vel út úr þeim viðskiptum. Sú ástæða hæstv. ráðh., sem var sú eina móti þessu, að það svipti ríkissjóðinn tekjum, er því ekki rétt. Ég hefi svo ekki fleira um þetta að segja annað en það, að ég óska eftir því, að hinar skrifl. brtt. verði ekki samþ., vegna þess, hvað þær draga mikið úr þeim umbótum, sem hér er um að ræða fyrir bæjarsjóðina.