29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Guðrún Lárusdóttir:

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við 4. gr. frv., þar sem talin eru upp þau mannvirki og stofnanir, sem undanþegin skulu vera fasteignaskatti. Ég sakna þess, að þar eru ekki talin barnaheimili, sem við vitum, að er orðinn fastur liður á dagskrá þjóðarinnar, og búast má við, að reist verði fleiri í nánustu framtíð, bæði af einstaklingum og félögum. Virðist að öllu leyti réttlátt, að þessi starfsemi sé undanþegin skatti eins og aðrar þær stofnanir, sem upp eru taldar í 4. gr. frv. Langar mig til að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. um þetta atriði með ósk um, að hann leggi hana fyrir hv. d., sem ég vænti, að sjái sér fært að leggja henni lið og samþykki sitt.