29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (2838)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. 4. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég skal verða við þeirri ósk hæstv. forseta að taka ekki óþarflega langan tíma. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja við hv. 1. þm. Eyf., út af síðustu ræðu hans; mun ég hlaupa yfir það, sem ég tel minna um vert.

Hv. þm. var að tala um, að ég hefði samþ. á fyrra þingi l., sem útheimta auknar byrðar á fólkið, og nefndi þar til tryggingarlöggjöfina. Ég held, að hv. þm. skilji ekki, hvað í þeirri löggjöf felst. Hún er ekkert annað en l., sem eiga að tryggja fólkið gegn því að þurfa að vera upp á aðra komið, að vísu með því að leggja örlítið fram, en það verður sennilega minna heldur en það áður þurfti að leggja fram fyrir læknishjálp og þesskonar, svo að maður hafi sjúkratryggingarnar sérstaklega í huga. Þessi löggjöf felur aðeins í sér skipulag, sem gerir fólkinu mögulegt að bjarga sér sjálft betur heldur en áður. Því þótti mér einkennilegt, að hv. þm. skyldi taka þetta sem sönnun þess, að ég væri með því að leggja byrðar á fólkið. (BSt: Klauflaxinn var afleiðing af tryggingarlöggjöfinni). — Um útsvarsálagningu á kaupfélögin treysti ég mér ekki að ræða í stuttri aths. Hvað kaupfélög fátækra bænda og verkamanna snertir, þá hafa þau nú ekki öll svo góðum árangri að skila, að leggjandi sé á þau. En hér er að rísa upp atvinnurekstur undir samvinnuskipulaginu, sem gefur arð, en ekki er hægt að ná til með útsvör, af því að fyrirtækin koma undir samvinnulögin. Þessi atvinnurekstur kemur í stað einkarekstrar, og er ég sízt að harma það, en hinsvegar verða bæjarfélögin einhvernveginn að ná inn tekjum, jafnvel af samvinnufyrirtækjum, ef þau hafa náð undir sig þeim rekstri, sem áður hefir staðið undir gjöldunum. Ég þarf ekki að fara lengra út í þetta. Í kjördæmi hv. þm. sjálfs er mikið af atvinnurekstrinum komið undir samvinnuskipulagið, svo að til hans er ekki hægt að ná með útsvör. Ég sagði ekki meira áðan en að það kæmi til álita, hvort ekki væri ástæða til að gefa gaum þessari voldugu hreyfingu, þegar verið er að leita nýrra leiða til tekjuöflunar. Ég er nú ekki ennþá ákveðnari en þetta í þessu efni.

Þá sagði hv. þm.: Við höfum horfzt í augu við nauðsynina á því að afla tekna. Ég held, að hv. þm. geti ekkert hrósað sér eða sínum flokki af því fremur en núv. stjórnarflokkum í heild. Þeir hafa reynt að mætast í því að afla tekna, og hafa menn orðið að ganga langra í því efni heldur en menn hefðu viljað. Nauðsyn brýtur lög eins og sakir standa, og til bráðabirgða í vondu árferði ganga menn jafnvel inn á leiðir, sem menn mundu annars ekki hafa gengið inn á. Hv. þm. fór í þessu sambandi að minnast á hátekjur, og skildist mér felast á bak við, að hans vilji væri að ganga lengra í að leggja á þær. En hvers vegna var ekki boginn spenntur hærra í því efni? Til þess að svipta ekki sveitar- og bæjarfélögin sínum tekjustofni, útsvörunum. Eftir því sem ríkissjóður gengur nær hátekjumönnunum, er minna eftir handa sveitar- og bæjarfélögunum.

Svo lagði hv. þm. fyrir mig þá spurningu, hvort ég vildi ekki, að það væri fjölgað togurum hér í bænum. Honum er vel kunnugt um mína afstöðu í því efni. Ég sé ekki annað en að það sé bæjarfélagið eða ríkið, sem verður að halda þeim atvinnurekstri lifandi og auka vil hann. En mér er fyllilega ljóst, að það er fyrst og fremst til þess að skapa verðmæti í landinu og veita fólkinu atvinnu, svo að hægt sé aftur að skattleggja það. Þetta er það, sem skeður á Siglufirði. Af því að verksmiðjurnar eru þar, er fjöldi manna færari til að skattleggjast heldur en hefði verið, ef verksmiðjurnar hefðu ekki verið þar. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta ½% gjald, sem taka á af sjómönnunum. Það hefir ekki verið hrakið, að það er tekið af því verði, sem sjómennirnir eiga að fá fyrir síldina. (BSt: Á þá ekki Hesteyrarverksmiðjan líka að vera skattfrjáls?). Það verður nú að gera greinarmun á þeim fyrirtækjum, sem ríkið kemur upp til þess að halda uppi atvinnu, og hinum, sem ekki starfa nema þegar þau sjá sér hag í því. Síldarverksmiðjurnar voru byggðar til þess að tryggja síldarútveginn.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að svara hv. þm. Hann hefir ekki með ræðum sínum getað sannfært mig á nokkurn hátt; það getur verið, að hann þurfi ekki að sannfæra hina. Það er út af fyrir sig gott, að þetta mál fari út úr þessari d., því að mér er fyllilega ljóst, að það þarf að ræða það í báðum d., þótt ég voni, að það verði ekki að l. á þessu þingi; til þess er það ekki nógu undirbúið. En það er stuðningur í því fyrir þá, sem að málinu vinna, að heyra raddir sem flestra hv. þm. um það. Og þótt mínar till. fái ekki mikinn byr í d., læt ég mig það ekki miklu skipta; það koma tímar eftir þennan tíma, og má lagfæra þessi l. síðar, ef frv. á að ná fram að ganga, sem ég hefi ekki mikla trú á. Ég vísa því á bug, að ég hafi með afstöðu minni í n. tafið þetta mál á nokkurn hátt. Töfin stafar ekki frá mér, heldur allt öðrum. Ég var tilbúinn til að ganga til atkv. um málið, hvenær sem nm. óskuðu. Hefi ég því ekki haft nokkra ósæmilega meðferð á málinu.