24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég hefi nú margt að athuga við þetta frv. með hinu fallega nafni, sem ég vil ekki nefna, en skal ekki drepa nema á tvö atriði að þessu sinni. Annað er 15. liðurinn, sem sagt hefir verið um með röngu, að við fjvnm. höfum allir verið sammála um. Ég álít, að þetta framlag eigi að vera eins og það er ákveðið í lögum, en veit, að það er þýðingarlaust að hreyfa þessu hér, eins og í fjvn. En þá er það 13. liðurinn. Mér virðist fullkomið ósamræmi milli hans og 10. liðs 16. gr. í fjárlfrv. Þar mælum við með 28 þús. kr. framlagi til kaupa á erlendum áburði. En nú kemur þessi sem ég vil ekki nefna, og gerir ráð fyrir 14 þús. kr. Sþ. samþykkir 28 þús. kr., en svo koma deildirnar og segja, að upphæðin skuli lækka um helming. Sem þm. og fjvnm. mótmæli ég þessu og mun greiða atkv. gegn því.