08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Frá því þetta mál kom fram í byrjun þessa þings var augsýnilegt, að um það yrðu talsvert skiptar skoðanir. Það eru í sjálfu sér engin undur, því að það er nokkuð miklum vanda bundið að setja löggjöf um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, svo að vel fari úr hendi og ekki sé sérstaklega hlynnt að einum aðiljanum á kostnað annars. Því að það er svo, að hagsmuna- og áhugamál eru talsvert mismunandi eftir aðstæðum. Reykjavíkurbær hefir dálítið sérstæða hagsmuni í tekjuöflunarmálum og að sumu leyti ólíka hagsmunum sveitanna, og jafnvel einnig kauptúnanna og kaupstaðanna úti um landið. Þá hafa og kaupstaðir utan Reykjavíkur nokkuð ólíka aðstöðu innbyrðis. Tökum Hafnarfjörð og Vestmannaeyjar. Nálega allar vörur, sem til Hafnarfjarðar flytjast, eru fluttar frá Reykjavík með farartækjum á landi. En mestallar vörur, sem koma til Vestmannaeyja, koma þangað beint frá útlöndum, þær sem útlendar eru. Það er þegar auðséð, að aðstaða þessara bæja til aðflutningsgjalds er mjög ólík. Slíkir bæir geta því ekki haft alveg sömu áhugamál um tekjuöflun. Það sýndi sig líka í Ed., að skoðanir manna um þetta mál voru mjög skiptar. Allshn. kom með margar og mismunandi brtt. við frv., og það varð niðurstaða í d., að felldur var niður heill kafli úr frv., kaflinn, sem ræðir um vörugjald. Einnig urðu nokkrar aðrar breyt. á frv., en þó bar sérstaklega mikið á hinu, að fram komu í d. margar og mismunandi brtt., sem sýndu betur en nokkuð annað, hve skoðanir manna voru skiptar um það, hvernig eigi að afla bæjar- og sveitarfélögum tekna yfirleitt, þegar farið er út fyrir niðurjöfnun útsvara. — Það má af þessu ætla, að það væri nokkuð torvelt að afgr. þetta mál hér í þessari hv. deild, eftir að aðeins einn dagur er væntanlega eftir af þingi, og þó eru eftir tvær umr. um málið, eða 2. umr., sem nú byrjar í kvöld, og svo 3. umr. Það kom líka fram í fjhn. þessarar d., eins og hv. þm. V.-Sk. skýrði frá, að skoðanir manna um málið voru mjög skiptar og allmikið á reiki, þannig að það virtist vafasamt, að nokkur maður í n. vildi beinlínis leggja til, að frv. næði fram að ganga óbreytt. Hinsvegar komst n. að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni, að afgr. þetta mál á þann þinglega hátt, að láta það fara út úr n. og til umr. og umsagnar í hv. deild. En eins og nál. á þskj. 567 bezt ber vitni um, hafa allir nm. tekið alla þá fyrirvara, sem unnt er yfirleitt að taka í afstöðu til máls.

Ég hefi fyrst og fremst þá afstöðu til þessa máls, að ég álít nokkrum vafa bundið, að hægt sé að afgr. það á þessu þingi, svo að viðunanlegt sé, ekki sízt þar sem það kemur svo seint til d., að menn hafa ekki haft aðstöðu til þess að ganga rækilega gegnum málið og bera fram þær breyt., sem þeir vildu gera við frv. Annir hafa verið svo miklar nú síðast á þinginu sökum hinna löngu þingfunda. En nú veit ég, að æðimargir þdm. telja eðlilegt og heppilegt að reyna að afgr. þetta mál á einhvern hátt út úr þessari d. En ef hnigið yrði að því ráði að lögfesta á þessu þingi — sem ég tel mjög vafasamt — eitthvert nýtt skipulag viðkomandi tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, þá held ég, að ég geti sagt það fyrir munn hv. þm. V.-Ísf. og svo fyrir mig, að það er full þörf að gera á þessu frv. allverulegar breyt., til þess að það sé viðunanlegt eftir aðstæðum. Úr því að búið er að fella burt úr frv. vörugjaldið, þá er ekki eftir nema annar af stærri tekjustofnunum, sem er aðflutningsgjaldið. Og ég verð að segja fyrir mig, að ef ætti að velja á milli þessara tveggja tekjustofna fyrir sveitar- og bæjarfélög, þá mundi ég — af tveimur miður þægilegum og aðgengilegum — kjósa frekar vörugjaldið. En það sýndi sig í hv. Ed., að meiri hl. þeirrar d. vildi ekki hallast að því. En úr því að hún felldi úr kaflann um vörugjald, álít ég, að nái ekki nokkurri átt að hafa þá eftir aðflutningsgjaldið. Það er veruleg hækkun á tolli á flestum eða mörgum vörum, sem að flytjast, þar á meðal mörgum brýnum nauðsynjavörum almennings. Og 10% álag er nokkuð mikið, þegar tollur var allhár fyrir, og að mínu áliti mjög tilfinnanleg hækkun fyrir almenning í landinu.

Eins og frá frv. er gengið nú, fer tiltölulega mestur hl. af þessu gjaldi út til sveitanna, en það eru hinsvegar íbúar kaupstaðanna, sem greiða þetta gjald. Þegar af þessari ástæðu segi ég fyrir mig, sem tala aðallega fyrir munn alþýðu manna, sem í kaupstöðum býr, að ég álít þessa tekjuöflun svo mikið neyðarúrræði, að ég get alls ekki léð henni mitt liðsinni. Við hv. þm. V.-Ísf. höfum þess vegna leyft okkur að leggja til, að niður falli III. kafli frv., sem ræðir um aðflutningsgjald. Ég skal bæta við frá mér, og ég hygg, að ég megi segja það fyrir þann flokk, sem ég tilheyri, að ef ekki verður fallizt á þessa till. okkar um að fella niður þennan kafla frv., þá munum við mjög eindregið leggjast gegn því, að frv. nái fram að ganga.

Einnig höfðum við leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 568. En ég skal leyfa mér að geta þess, að við tókum aftur fyrri brtt. á því þskj. Er það fyrir þá sök, að fram er komin brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., sem við kjósum heldur að fylgja. Mun ég ekki fara um hana frekari orðum, þar sem ég geri ráð fyrir, að hv. flm. muni gera grein fyrir henni. Þá hefi ég auk þess leyft mér að bera fram þá brtt. á þskj. 569, að lækkað verði niður í 4% það gjald, sem á að renna til þeirra sveitar- og bæjarfélaga, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru starfandi. Í frv., sem lagt var fyrir þingið í öndverðu, var þetta 5‰, en í meðferðinni í Ed. var það hækkað upp í 8‰. Ég er þess fullviss, að þetta muni vera sá tekjustofn, sem kemur mjög hart niður, ekki einungis á þessum mjög svo merkilegu ríkisfyrirtækjum, síldarverksmiðjunum, heldur einnig um leið á sjómönnum og útgerðarmönnum, sem hafa viðskipti við þessar verksmiðjur. Sjómenn, sem leggja þarna upp síld sína, hljóta að fá minna andvirði fyrir, og útvegsmenn líka að sama skapi. Auk þess sýnist ekki sérstök ástæða til að hafa þetta gjald sérlega hátt, þar sem það eru aðeins nokkur bæjar- eða sveitarfélög, sem njóta þeirra hlunninda, að hafa þessar verksmiðjur hjá sér, því að vissulega eru það mjög stór hlunnindi. Þær hafa í för með sér allverulega vinnu fyrir fjölda manna á staðnum og bæta afkomu íbúanna. Mér er sagt af manni úr stjórn síldarverksmiðja ríkisins, að þetta háa gjald geti orðið mjög óeðlilega hátt á verksmiðjunum, sérstaklega þeim, sem reka um leið karfabræðslu. Nú er það svo, að það eru tvær af síldarverksmiðjum ríkisins, sem sérstaklega er búizt við, að reki karfavinnslu, á Sólbakka og Siglufirði. Sú á Sólbakka er tiltölulega stór og liggur næst þeim miðum, þar sem karfi veiðist aðallega. Af síldarverksmiðjunum fær hún sennilega mestan karfa. Er fyrirhuguð þar karfavinnsla í mjög stórum stíl, og geti þaðan gengið mörg skip á karfaveiðar, jafnvel svo að skipti mörgum mánuðum. Einn af forstjórum síldarverksmiðjanna, sem um þetta mál hefir fjallað mjög mikið, hefir slegið upp þeirri áætlun, að ef karfaveiðar á Sólbakka verða stundaðar eins og hálfpartinn er ráð fyrir gert af stj. síldarverksmiðja ríkisins, og síldarvinnslan líka stunduð svo mikið sem verksmiðjan leyfir, þá gæti þetta gjald til sveitarfélagsins á Flateyri orðið, ef aflast sæmilega og veiði er stunduð eins lengi og hugmyndin er að gera, rétt um 16 þús. kr. á ári. En eins og nú háttar högum á þeim stað, þá eru öll aukaútsvör, sem jafnað er niður þar í hreppi, um 16 eða 17 þús. kr. Það sýnist ekki ná nokkurri átt, að sveitarfélagi sé þannig gefin aðstaða til svo stórfelldrar tekjuöflunar á kostnað sjálfs ríkisins og sjómanna og útgerðarmanna yfirleitt í landinu. Það er eðlilegt, að þetta sveitarfélag eins og önnur verði að nota þá leið til hins ýtrasta, sem til þessa hefir verið — og verður væntanlega farin, eða a. m. k. í nánustu framtíð, — jafnvel þó að nýir tekjustofnar finnist að auki. Því að ég þykist sjá með vissu, að útsvör í einhverri mynd eða beinir skattar verði aðaltekjulind bæjar- og sveitarfélaga. Það er því frá mínum bæjardyrum séð æðistórt atriði, að svo gífurlegur skattur verði ekki lagður á síldarverksmiðjur ríkisins. Mér hefir virzt ásamt fleirum, að komið gæti til mála að leggja til, að síldarverksmiðjurnar greiði eitthvað svipað gjald til sveitar- og bæjarsjóða þar, sem þær eru, eins og nú er lagt á kaupfélög landsins þar, sem þau starfa. En það er, sem kunnugt er, 2‰ af andvirði þeirra húsa, sem kaupfél. hafa til afnota á þeim stað, sem þau eru rekin. Sá galli gæti þó verið á því, að gjaldið yrði tiltölulega hátt miðað við hús síldarverksmiðjanna á Siglufirði, en minna á Sólbakka og Raufarhöfn. Því að þar eru ódýr timburhús, en á Siglufirði er bygging úr járnbentri steinsteypu, stór og vegleg og nokkuð dýr hús, svo að þar yrði húsaskattur talsvert hár, en tiltölulega mjög lágur á hinum tveimur stöðunum. En ég vildi þó minnast á þetta atriði, því að ég teldi, að það gæti mælt nokkur sanngirni með því, þó að ég hafi ekki flutt brtt. um það, að fara inn á einhverja svipaða leið.

Ég vil nú ekki að sinni hafa þessi orð fleiri, en vil eindregið leggja með þeim brtt., sem nú hefi ég getið um, bæði á þskj. 569, sem snerta skatt á síldarverksmiðjur ríkisins, og þá ekki síður með brtt. okkar hv. þm. V.-Ísf., um niðurfelling III. kafla frv. Og ég endurtek það, sem ég sagði áður, að ef sú brtt. verður felld, mun Alþfl. fyrir sitt leyti leggja gegn því, að frv. nái fram að ganga í þeirri mynd, sem það er nú.