08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Pétur Halldórsson:

Mér finnst öll meðferð þessa máls vera hryggileg og brosleg í senn, og vera hvorttveggja lærdómur um og fyrir meiri hl. á þingi og stj. í landinu. Síðan 1927, að núv. þingmeirihluti tók við völdum, hefir ríkið sífellt þótzt þurfa að seilast dýpra og dýpra í vasa borgaranna og gert það með sínum aðferðum. Vegna hinnar hóflausu eyðslustefnu, sem þá var upp tekin og síðan hefir verið haldið, var gripið til þeirra ráða að taka aðalskattstofna bæjar- og sveitarfélaga, þ. e. beinu skattanna, ríkinu til handa. Þessir skattar hafa í sífellu verið hækkaðir ár frá ári, unz til fullra vandræða horfði fyrir sveitar- og bæjarfélög, og síðast þegar tekjuskatturinn var hækkaður, komu fram almennar kvartanir yfir því, án tillits til pólitískrar flokkaskiptingar, að fjárhagur bæjar- og sveitarfélaga fengi ekki lengur staðizt slíkar aðferðir af hálfu ríkisvaldsins, og hér þyrfti skjótra aðgerða við, á þann hátt, að tryggðir yrðu með löggjöf nýir tekjustofnar. Og það stóð svo sem ekki á loforðum um það, að slíkt skyldi vera gert. En í raun réttri var þó ekki um aðra tekjustofna að gera en þá, sem ríkið var búið að leggja á það, sem unnt var, og meira til. Nú var skipuð 3 manna mþn. með einum manni úr hverjum aðalflokkanna. Þessir menn unnu að löggjöf um þetta efni og urðu að lokum sammála, þrátt fyrir nokkurn innbyrðis ágreining, að leggja fram frv., sem kom fram í Ed. sem frv. nr. 33. Málinu var tekið vel í upphafi. Nm. stóðu einhuga að frv. og töldu sig hafa unnið gott verk og nýtilegt. Leit út fyrir, að málið myndi sigla hraðbyri gegnum þingið, þar sem nú átti að fara að uppfylla hin glæsilegu loforð, sem gefin voru í fyrra. En þetta fór nú allt saman nokkuð á annan veg, eins og kunnugt er orðið. Hv. 1. landsk. hefir nú gefið nokkurnveginn greinilega lýsingu á útkomunni. og er hún að vísu ekki verri en vænta mátti, þegar þess er gætt, hversu erfitt muni vera að leysa þann vanda, að finna upp nýja tekjustofna, eftir að ríkið hefir kippt öllum mögulegum tekjustofnum af borgurunum og sölsað undir sig. Niðurstaðan er sú, að allir eru ósammála um lausn málsins, bæði flokkarnir og einstakir þm. innan þeirra. Ekkert lýsir betur ófarnaði þeirra skoðana í þessum málum í blöðum stjórnarliðsins í fyrra. Engir tveir þingflokkar geta komið sér saman um nokkra lausn á málinu, og skoðanir einstakra þm. mjög á reiki. Tilraun þessi hefir því gersamlega mistekizt, og hin eina rökrétta afleiðing af þeim ófarnaði ætti að vera sú, að ríkið felldi niður hina beinu skatta, eftir því sem bæjar- og sveitarfélög þurfa á að halda. Það er augljóst, að erfitt eða ómögulegt ætlar að verða að finna aðra tekjustofna.

Í þessu frv. kennir margra furðulegra grasa, þegar farið er að athuga það. Frv. er þegar orðið gerólíkt því frv., sem mþn. bar fram, enda er eins og mþm. stjórnarflokkanna hafi alveg hlaupizt í felur, þegar farið var að ræða málið hér á þingi. Hv. 6. landsk. hefir algerlega dregið sig í hlé hér í d., og sama er að segja um hv. 1. þm. Eyf. í Ed. Hv. 1. þm. Skagf. virðist vera sá eini af nm., sem hefir vitað, hvað hann var að gera, þegar hann lagði málið fyrir þingið. Hinir hafa hlaupizt frá sínum fyrri skoðunum og alveg truflazt, þegar farið var að ræða málið í þinginu. Ég held, að þegar litið er á þá meðferð, sem málið hefir sætt í þinginu, og auk þess yfirlýsingar hv. 1. landsk. og hæstv. fjmrh., megi líta svo á, að hin glæsilegu loforð hafi að engu orðið og hér sé um fullkomin svik að ræða við þá aðilja, sem njóta áttu hinna nýju tekjustofna. Frv. er í raun réttri einskis virði fyrir sveitar- og bæjarfélögin eins og það kemur frá Ed., og auk þess eru í því ranglát ákvæði, sem ég get ekki fallizt á að gera að lögum, og ekki bætir hv. 2. þm. Reykv. úr ranglætinu með brtt. á þskj. 579, sem ræðir um skatt af leigulóðum, sem bærinn á. Stappar nærri, að segja megi, að sú till. sé borin fram vegna persónulegra hagsmuna.

Allir eru óánægðir með frv. Stjórnarflokkarnir hafa lýst yfir, að þeir óski ekki eftir því, að það gangi fram í þeirri mynd, sem það er í, enda eru litlar líkur til þess. Þótt ekki væri annað en aðflutningsgjaldið, sem III. kafli ræðir um, nægir það til þess, að ég get ekki fylgt frv. Þetta er ekki annað en tilraun sveitaþm. til þess að seilast í vasa kaupstaðabúa. Því var áður haldið fram, að nokkur hl. vörugjaldsins, sem upphaflega var í frv., yrði tekinn af sveitunum, og því væri það gjald ósanngjarnt. Það var dálítið til í þessu. En hér er þessu gersamlega snúið við. Allir vita, hve miklu meira kaupstaðabúinn notar af aðfluttum vörum heldur en bóndinn. Þetta gjald lendir því nær eingöngu á kaupstöðunum. Sá spádómur er þegar fram kominn, sem við héldum fram, að erfitt myndi reynast að bæta bæjar- og sveitarfélögum þá tekjustofna upp á sanngjarnan hátt, sem ríkissjóður hefir sölsað undir sig undanfarið með hækkun beinna skatta. Öll hin glæsilegu loforð hafa verið svikin, og er frammistaða stjórnarflokkanna í þessu máli þeim til lítils sóma, sem vænta mátti. Það sýnir, hversu vonlaust er að finna nýjar leiðir, sem sanngirni er í, í þessu efni, að svona skyldi til takast, þótt stofnað væri til lausnar þessa máls á sæmilegan hátt með skipun mþn., sem án efa hefir að ýmsu leyti unnið sæmilegt verk.