08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (2853)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Pétur Ottesen:

Ef marka má af þátttöku hv. þm. í þessu fundarhaldi hér nú, þar sem tæplega ¼ hluti þm. er hér staddur, þá virðist vera orðið lítið úr þeim brennandi áhuga, sem virtist vera hér á síðasta þingi á því að bæta úr vandræðum bæjar- og sveitarfélaga. Ég verð að segja, að þegar ég sá það frv., sem samið var af mþn., sem sett var til þess að leggja grundvöllinn að þessu mikla nauðsynjamáli, fannst mér árangurinn vera heldur lítill af starfi n. Ég get ekki litið öðruvísi á en að það sé heldur lítil bót fyrir sveitar- og bæjarfélögin að fara að leggja nýja skatta á það sligaða gjaldþol, sem hefir orðið þess valdandi, að ekki hefir verið hægt að fullnægja þessum gjöldum, en hinsvegar engin viðleitni verið sýnd til þess að draga úr byrðum og álögum, sem lagðar eru á borgarana til þarfa ríkissjóðs sjálfs. Ég fæ ekki séð, að nein lagfæring fáist á þessu, nema með því að slá af þeim kröfum, sem gerðar eru til borgara þjóðfélagsins um fjárframlög til ríkisþarfa. Það hefir fengizt af þeirri niðurstöðu, sem þessi mþn. komst að, fullkomin viðurkenning, og þá líka af hálfu sósíalista í þessu landi, á því, að það bjargræði til tekjuöflunar, sem þeir hafa talið vera réttlátast og líklegast til góðs árangurs, nefnilega að afla allra tekna með beinum sköttum, er algerlega ófært. Og allar þær fullyrðingar, sem þeir hafa áður um þetta haft, eru þar með algerlega strikaðar út. Ég verð nú að taka undir það með hv. 5. þm. Reykv., að mér finnst það harla undarlegt, að sá hv. þm., sem falið var að annast þennan undirbúning af hálfu Alþfl., skuli ekki hafa látið til sín heyra undir meðferð þessa máls hér í d. Og ekki einu sinni sýnt neina viðleitni til að verja þetta sitt eigið afkvæmi, þegar flokksbræður hans hafa verið að krukka í það, eins og þeir hafa gert, þar sem þeir hafa viljað fella úr því einn kafla, og það þann kaflann, sem helzt felur í sér einhverjar tekjur, þó að ekki sé farið þar inn á neinar nýjar brautir um tekjuöflun. Ég held satt að segja, að nú orðið skipti það ekki miklu máli, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki, því að eins og ég hefi þegar tekið fram, felur frv. ekki í sér neina úrlausn fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Og eins og frv. er nú orðið, gerir það stórkostlega upp á milli einstakra bæjar- og sveitarfélaga. Ef svo kaflinn um aðflutningsgjaldið fellur niður, eins og 2 jafnaðarmenn leggja til, þá fellur burt úr frv. allur möguleiki til tekjuöflunar, a. m. k. að því er snertir sveitabyggðir þessa lands. Hitt er það, að a. m. k. eitt bæjarfélag á landinu, sem er Siglufjörður, fær allgóða úrlausn, en sú úrlausn er fengin með því að ganga á tekjustofna annara bæjarfélaga með því að skattleggja þá menn stórkostlega, sem leggja síld í land á Siglufirði. Það er ekki einungis, að Alþingi láti vera að gera sveitar- og bæjarfélögunum nokkra úrlausn í þessu máli, heldur er það að bæta gráu ofan á svart með því að láta skattleggja ýms bæjarfélög svo geipilega á þessum stað sem til er ætlazt með frv. En það væri svo sem ekki nema í samræmi við ýmislegt, sem gert hefir verið á þessum síðustu og verstu dögum þessa þings, þó að slík óhæfa fylgdi þar á eftir. Ég verð að segja, að við sveitamenn kippum okkur ekkert upp við þetta.

Það er ekki nema í samræmi við annað, sem núverandi valdhafar framkvæma okkur til handa. Það má með sanni segja, að það sé hver silkihúfan upp af annari, ef maður mætti nota þá samlíkingu um það, sem hér hefir verið og er að gerast nú til síðustu stundar þessa þings. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta frv. að sinni, en ég vil endurtaka og leggja áherzlu á það, að ég álít, að það feli ekki í sér neina úrlausn fyrir bæjar- og sveitarfélögin á því vandamáli, sem það átti að leysa.