02.03.1936
Efri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

36. mál, jarðræktarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að hefja umr. nú um þetta mál, vegna þess að innan nokkurra daga kemur fram frv., sem fjallar að ýmsu leyti um sama efni og frv. það, sem hér liggur fyrir, enda þótt það sé að mörgu leyti frábrugðið þessu. Þetta tek ég fram vegna þess, að í grg. þessa frv., sem hér er á döfinni, er það tekið fram, að frv. sé flutt sökum þess, að frv. frá stj. sé ekki enn fram komið; en þetta mál hefir verið í undirbúningi nú um nokkurt skeið. Það er kunnugt, að lög eins og þessi, sem nú hafa verið reynd í nokkur ár, hafa í framkvæmdinni verið að ýmsu leyti öðruvísi en ákjósanlegt hefði verið. Reynslan sker vanalega úr í slíkum efnum, og þess vegna er eðlilegt, að breyta þurfi þessum lögum.

Ýms atriði þessa frv., sem hér er til umr., álít ég ganga í rétta átt, en sumt af því, sem hér er farið fram á, álít ég ekki heppilegt, ef að lögum yrði; en þetta mun sem sagt allt koma nánar fram innan skamms, þegar lagt verður fram frv. um þetta efni, og þá er ástæða til að ræða þetta mál frekar, en nú sem stendur er það ekki annað en tímatöf að vera að fjölyrða um það.