29.02.1936
Efri deild: 12. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2872)

37. mál, bændaskólar

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Út af ummælum hv. 10. landsk. er rétt að viðurkenna það, að það er sennilega rétt, að þetta hafi verið venja hér á undanförnum þingum, og svo lengi kannske, sem slík mál sem þetta hefir borið á góma, að vísa málum eins og þessu til landbn. þ. e. a. s. landbúnaðarmálum yfirleitt, og þá sennilega hliðstæðum málum til jafnt tilsvarandi n. En nú hefir okkar hv. Ed. breytt um stefnu í þessu efni. Fyrir 2 dögum var, eins og hv. þm. muna, mál hér á ferðinni í þessari hv. d., mjög hliðstætt þessu, sem snerti sjávarútveginn, og var það að því leyti líkt þessu frv., að það var um skóla fyrir sjávarútveginn. Því var vísað til menntmn. af meiri hl. þeirra, sem atkv. greiddu í d. um það. Út frá því finnst mér því eðlilegast, ef d. vill vera sjálfri sér samkvæm, að hún vísi öllum málum, sem eitthvað eru um kennslu, um hvaða efni sem er, til þeirrar n. — Með þessu hefi ég þá einnig svarað hv. 1. þm. Eyf., sem var því fylgjandi að vísa í fyrradag skyldu máli til menntmn. vona ég, að hann verði nú sjálfum sér samkvæmur.