26.02.1936
Efri deild: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

43. mál, berklavarnir

Þorsteinn Þorsteinsson:

Aðeins örfá orð til viðbótar því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði.

Það er ástæða til að koma fram með þetta frv. einmitt nú, því að það eru nokkur tímamót að verða á þessu sviði. Ég vil biðja hv. þdm. að taka vel eftir því, að nú eftir l. um alþýðutryggingar er það gert að skyldu þeim kaupstöðum og þeim hreppum, sem setja hjá sér sjúkrasamlög, að annast berklaveika sjúklinga líka og kosta legu þeirra 6 mánuði á spítala. Verður þá berklavarnagjald þessara staða tvöfalt, enda þótt ríkið greiði að hluta legukostnaðinn. Er þá spurning, hvort þeim kaupstöðum, sem hafa sjúkrasamlög, sé það lagaskylda að borga líka þennan 2 kr. nefskatt í ríkissjóð. En í fjárlagafrv., sem liggur fyrir, hefir verið gert ráð fyrir þessari tvöföldu greiðslu frá sjúkrasamlagssvæðum, og er þar samkv. því áætlað, að berklavarnagjaldið lækki til útgjalda fyrir ríkissjóð hátt á annað hundrað þús. kr. Ég vil biðja menn að athuga þetta vel, að nú fer að standa töluvert öðruvísi á en verið hefir um þetta atriði, og er því ekki ástæðulaust að breyta þessum nefskattslögum. Þau ákvæði, sem við hv. þm. N.-Ísf. viljum nú breyta, voru sett til bráðabirgða.