05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

46. mál, Reykjatorfan í Ölfusi

*Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Svo sem getið er um í nál. okkar hv. 1. þm. N.-M., þá hefir n. ekki orðið sammála um frv. þetta. Við leggjum til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir; tveir meðnm. eru sennilega á móti því, en einn vill gera á því nokkrar breyt. Síðan við skiluðum áliti okkar, hefir komið fram nál. frá 2. minni hl., hv. 4. þm. Reykv., og fylgja því nokkrar brtt. frá honum. Ég vil taka það fram strax, að ég er mótfallinn 1. brtt. hans. Um 2. brtt. verð ég að segja, að mér finnst, að hún hafi ekki mikið gildi, eða að hún breyti ekki miklu. Það er að vísu svo, að um þá landspildu, sem um getur í frv., sem Gísli Björnsson hefir ábúðarrétt á, þá má kannske skilja frv. þannig, að hann hafi eignarheimild fyrir henni, og mun vera svo samkv. kaupbréfi, að það sé um eignarheimild að ræða á öðrum hlutanum, en hinn sé á leigu, og ég hygg, að það sé tilgangurinn með þessari brtt. að taka skýrara fram um það, að fyrir öðrum lóðarblettinum sé eignarheimild. Ég skal taka það fram, að ég sé ekki, að þessi brtt. sé til skemmda, og finnst sennilegt, að það gæti orðið samkomulag um hana. Sama er að segja um fyrirsögn frv. Hún ætti ekki að valda ágreiningi og skiptir litlu máli.

Síðan n. hafði málið til meðferðar hefir hv. flm. frv. flutt við það brtt. á þskj. 513, og skilst mér, að hún geti komið í staðinn fyrir brtt. hv. 4. þm. Reykv. Að vísu kemur þar fram eitt nýtt atriði, sem sé að dóttir Gísla skuli hafa ábúðarrétt að foreldrum sínum látnum. En það, sem hér skiptir mestu máli að mínum dómi, er það, að leigt hefir verið úr landi Reykja.

Ég vil vænta þess, að það geti orðið samkomulag um eftirgjafir á þessum leiguréttindum, sem leyfð hafa verið á þessari landspildu, því að ef það fæst ekki, þá sýnir það, að landspilda þessi er leigjandanum býsna mikils virði, og það sannar einmitt þá skoðun mína, að hér sé um mjög mikilsvert atriði að ræða einmitt fyrir þessa eigendur.

Nú er gert ráð fyrir því, að auk þeirrar starfsemi, sem þarna er rekin, verði starfræktur garðyrkjuskóli á þessum stað, og ég lít svo á, að einmitt vegna þeirra ráðstafana sé það hreint og beint óhjákvæmilegt að ná aftur afnotaréttinum af þessari landspildu, og ég vil ennfremur geta þess, að sumarhús þau, sem þarna standa og frv. gerir ráð fyrir að hægt verði að ná afnotarétti af, eða a. m. k. af lóðunum, þau geta bæði orðið fyrir þessari starfsemi og auk þess til ýmissa óþæginda, svo að ég lít þannig á, að frv. þetta sé af nauðsyn fram borið og það sé rétt að láta það ganga fram.