12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2915)

69. mál, hrafntinna

*Flm. (Pétur Magnússon):

Frv. shlj. þessu frv. lá fyrir síðasta þingi; var það flutt af mér og hv. 1. þm. Eyf. Frv. þetta komst ekki nema til 2. umr. í þessari hv. deild, því að það mætti þegar allmikilli mótspyrnu hér. Síðar á því þingi voru þó veitt einkaleyfi, sem sízt var meiri ástæða til þess að veita en einkaleyfi það, sem hér er farið fram á. Í fyrra lagðist hv. 4. landsk. hvað mest á móti frv. þessu, en eftir að hafa átt tal við hann um málið nú, ber ég frv. fram að nýju.

Til viðbótar því, sem ég tók fram í fyrra, skal ég geta þess, að síðan hefir einkaleyfisbeiðandi flutt dálítið út af hrafntinnu, þó í smáum stíl sé, því að hann hefir ekki þorað að leggja út í mikinn kostnað við þessar tilraunir, eins og nú standa sakir. Tilraunir þessar telur hann þó benda í þá átt, að afla megi nokkurs markaðar erlendis fyrir hrafntinnuna, því að þeir, sem hafi notað hana til múrhúðunar, séu ánægðir með hana. Má því búast við, að útflutningurinn geti aukizt nokkuð ört. En til þess að einhver þori að leggja fram fé til slíkra hluta sem þessara, þá þarf viðkomandi að hafa tryggt sér rétt til útflutningsins, svo að hann verði ekki sviptur honum fyrirvaralaust, því að það er jafnframt vitað, að þeir peningar, sem fyrst eru lagðir í þessa tilraun, nást ekki aftur, nema nokkurt áframhald verði á útflutningnum. — Legg ég svo til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.