12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

69. mál, hrafntinna

*Flm. (Pétur Magnússon):

Það er síður en svo, að ég sé á móti því, að frv. þetta sé borið undir húsameistara, enda þótt það hafi verið gert á síðasta þingi og hann legði þá á móti því. Þá var hann með einhverjar bollaleggingar um það, að ríkið tæki útflutning þessarar vörutegundar í sínar hendur, en ég hefi ekki heyrt, að hann eða ríkið hafi gert neitt í málinu síðan. (JJ: Jú, húsameistari hefir gert tilraun með sýnishorn). Það má vera, að svo sé, en það hefir þá farið dult.

Hv. þm. S.-Þ. vildi halda því fram, að það væri engin ástæða til þess að veita þessum ákveðna manni, sem hér er um að ræða, einkaleyfið frekar en einhverjum öðrum. Það er nú þó svo, að maður þessi varð fyrstur til þess að flytja þetta efni út. Hann komst í samband við danskt byggingarfirma. Hversu gott samband það hefir verið, veit ég ekki, en hitt er víst, að það hefir sent sýnishorn af þessu múrhúðunarefni víða um Norðurlönd, og þau hafa líkað vel. Þar sem það er nú vitað, að maður þessi varð fyrstur til þess að ryðja þessu nýja múrhúðunarefni braut erlendis, og vill halda áfram með tilraunir sínar, þá virðist nokkur ástæða til, að hið opinbera láti honum þann styrk í té, sem að gagni má verða, jafnframt því, sem á það ber að líta, að það eykur ekki svo lítið vinnu í landinu, ef útflutningurinn gæti orðið í nokkuð stórum stíl.

Þá sagði hv. þm., að útflutningsgjaldið af þessari vöru væri allt of lágt eins og það er áætlað 1 frv. Þetta kann að vera, en það er vitanlega á valdi þingsins að hækka það.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að það gegndi öðru máli um einkaleyfin, sem veitt voru í vetur til vinnslu á litarefnum og útflutnings á vikri, en um þetta. En ég verð að segja, a. m. k. hvað snertir vikurútflutninginn, að það sé sízt minni ástæða til þess að veita þetta einkaleyfi, því að sú hugmynd virtist mjög úr lausu lofti gripin. — Hvað málningarefnin snertir, þá verður ekki sagt, að verið hafi nokkur meiri ástæða til þess að láta málarameistara þá, sem einkaleyfið fengu, fá það, frekar en í þessu tilfelli einstakling þann, sem um einkaleyfið sækir. Þeir höfðu alls ekki lagt í neinn kostnað til undirbúnings því máli, heldur upplýstist það þvert á móti, að aðrir menn, sem ekki fengu einkaleyfið, voru búnir bæði að leggja fram vinnu og fé til undirbúnings því máli. Ég held því, að í þessu tilfelli þoli einkaleyfisbeiðandi fullkomlega samanburð við einkaleyfishafana frá í vetur, að því er snertir málninguna.