28.03.1936
Efri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (2935)

96. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Það má segja, að raunalegt sé að þurfa að bera fram slíkt frv. sem þetta. En það þýðir ekki að leyna fyrir sér sannleikanum í þessu efni, og ekki heldur að skjóta sér undan þeim skyldum, sem þjóðfélagið hefir í þessum efnum. Það hafa vitanlega á öllum tímum verið til vandræðabörn, og nú er komið sem komið er, og grg. frv. ber það ljóslega með sér, að frv. er ekki að ófyrirsynju fram borið. Ég ætla ekki að fara að rifja það upp hér, sem í grg. stendur. Það er óþarft, því hv. þdm. munu hafa lesið grg., og það sést fljótt, að þessu er nú þann veg komið, að fyllilega er komið mál til þess að þjóðfélagið hefjist handa og komi til hjálpar þeim heimilum, sem erfitt eiga í þessum efnum, og þeim börnum, sem komin eru út á hálan og veikan ís, sem fyrr eða síðar hlýtur að bresta undan fótum þeirra, ef ekki er að gert til að beina þeim á betri leið. En sjálfsagt væri hægt að afstýra mörgum slysum, ef einhver stofnun væri til hjálpar í þessum efum. Það er raunalegt að hugsa til þess, að svo skuli vera ástatt, að nú skuli sitja hér í fangelsi ungir menn — menn á bezta skeiði —, ef til vill mest vegna þess, að þeir hlutu ekki í barnæsku sinni þá meðferð og það uppeldi, sem þeir þurftu til þess að geta komizt klaklaust framhjá skerjunum.

Nú fyrir stuttu hitti ég konu utan af landi og átti tal við hana um þetta mál, og sagði hún mér, að þar, sem hún ætti heima, í allfjölmennu kauptúni, sé það orðið til mikilla vandræða, að ekki er til neinn staður, sem hægt sé að ráðstafa í slíkum börnum. Þessi þörf væri sí og æ að verða meira og meira aðkallandi og ýms heimili væru að getast upp við uppeldi barnanna, vegna þess að börnin gerðust æ ódælli og erfiðari viðfangs.

Til þessa hefir þannig hagað til hjá okkur, að þegar um erfið börn hefir verið að ræða eða börn, sem hafa brotið landslög, þá hefir það oftast verið eina úrræðið að hlaupa í að útvega fyrir þau dvalarstað í sveit. Fram að þessum tíma hefir það verið eini bjargarvegurinn; en eftir því sem tímar líða og börnum fjölgar, verður þetta æ erfiðara. Í því sambandi ber einnig að líta á fólksekluna í sveitunum og að kvennafæð er víða svo mikil í sveitum, að húsmæður geta enga hjálp fengið; en ekki er von, að einyrkja konur í sveitum geti bætt við sig börnum, sem þurfa mikla umönnun. Út af fyrir sig er það mikið alvörumál og áhyggjuefni, hve fátt fólkið er í sveitunum og hve mikið það sækir í kaupstaðina, þar sem heita má ofhleðsla af fólki og fólkið flækist hvað fyrir öðru án þess að hafa þar nokkra atvinnu eða atvinnuvon. En það kemur þessu máli ekki við, nema að því leyti, að sí og æ verður erfiðara að útvega dvalarstaði fyrir þessi börn. Sveitaheimilin geta ekki bætt á sig börnum, og hér í Reykjavík — og í fleiri kaupstöðum — er mikið af börnum, sem þurfa sérstaks eftirlits og umhugsunar. Hér hefir oft verið komið til barnavinafélagsins með hóp af börnum, sem hefir þurft að útvega dvalarstaði fyrir, og tekur það oft langan tíma, en það er mjög bagalegt, því meðan börnin eru á heimilum sínum, halda þau uppteknum hætti. Það, sem hér ríður á, er að hefjast handa um að koma upp heimilum, sem hafa aðstöðu til að taka á móti þeim börnum, sem þannig er ástatt um, og veita þeim gott og heilnæmt uppeldi.

Í grg. frv. er bent á það, hve aðrar þjóðir, og sérstaklega Danir, eru langt á undan okkur í þessu efni. Það er leiðinlegt að vera alltaf eftirbátur annara, en í þessu sem fleiru verðum við nú að sætta okkur við að vera eftirbátur annara menningarþjóða. En það er sýnt, að þetta er eitt af mestu þarfamálum þjóðfélagsins, þegar þessi barnaheimili eru rekin á réttan hátt og verða til þess að börnin verða að nýtum borgurum, þjóðfélaginu til gagns og sæmdar.

Ég tek það fram í frv., að heimilin verði reist í sveit. Það getur verið, að menn greini á um það atriði, en mín skoðun er sú, að slíkar stofnanir eigi hreint og beint að vera í sveit, en ekki í kaupstöðum. Sveitalífið hefir góð og heilbrigð áhrif á börnin, og það, að börnin fái tækifæri til að sjá fagra náttúru og landslag, tel ég ekki hvað minnst virði. Við vitum öll, að börnin eru næm fyrir fegurð og að allt umhverfi hjálpar til að móta barnssálirnar, og ég legg ekki hvað minnsta áherzlu á það, þegar þessi heimili verða stofnuð, að þá verði sótzt eftir sem fegurstum stöðum.

Það getur verið, að einhverjum þyki það varhugavert að stefna mörgum vangæfum börnum saman á einn stað, og vitanlega er allt undir því komið, að stjórn heimilanna sé góð og heimilisblærinn sé í alla staði góður. Ég held, að fá börn séu svo harðsnúin, ef þeim er sýnd alúð og farið að þeim með nauðsynlegri lagni, að þá tækist ekki að laga þá bresti í fari þeirra, sem mundu ella þroskast, ef ekki væri að gert í tíma.

Þá er annað, sem ég vil minnast á í sambandi við dvöl í sveit, og það er hið heilnæma starf og mikil útivera, — ræktun jurta og blóma og svo að kynnast dýrunum, þessum góðu vinum mannanna. Ég held, að sú uppfræðsla, sem börnin fengju á þann hátt, yrði þeim til mestu blessunar. Þannig fengi sá kærleiksneisti, sem er í barnshjartanu, útrás og þróun við það að hlynna að blómum og dýrum, og yrði það bæði til þess að glæða fegurðartilfinningu barnanna og tendra hjá þeim ást til alls, sem lifir.

Til að benda nokkuð á þá reynslu, sem hér er fengin á því að safna mörgum börnum saman á einn stað, vil ég minna á heimili Oddfellowreglunnar við Silungapoll, þar sem æðimörg börn hafa dvalið saman. Síðastl. sumar voru þar um 60 börn frá misjöfnum heimilum, misjöfn að upplagi og vön misjöfnum siðum og misjafnri umönnun. Við þessum börnum hefir verið tekið af vandalausum stúlkum, og nú mætti kannske hugsa sér, að börnin yrðu erfiðari viðfangs, þegar þau koma þannig öll saman á eitt heimili, sitt úr hverri áttinni. Ég hefi innt eftir því, hvernig börnin hafi hegðað sér þarna — með það fyrir augum að komast að því, hvernig það getist að safna þannig saman mörgum börnum á einn stað —, og ég hefi ekki fengið nema það eina svar, að börnin hegði sér prýðilega. En þess ber að gæta, að þarna er afbragðs vel búið að börnunum. Oft hefi ég óskað þess, þegar ég hefi verið við Silungapoll, að hin íslenzka þjóð mætti bera gæfu til þess að eiga slík heimili fyrir þau börn, sem erfiðust þykja og bágast eiga, — heimili, þar sem mikið er um náttúrufegurð og hægt er að benda börnunum til lestrar í hinni miklu bók náttúrunnar, sem þar er opin undir þaki háhvelfds himins. Þar mundi minna bera á illum tilhneigingum barna heldur en í skarkala og glaumi kaupstaðanna. — Ég hefi dvalið við sumarfegurð sveitanna og kosti sveitalífsins, af því að ég legg ríka áherzlu á það, að þessi heimili, hvenær sem þau verða stofnuð, verði höfð í sveit, og einmitt þar, sem náttúrufegurð er mikil.

Það er engin leið til þess að ætla á þann kostnað, sem þetta kann að hafa í för með sér. Hann hlýtur að verða mikill, en við megum ekki horfa í það. Við getum alveg eins vel spurt, hvað þau mannsefni kosti, sem tapast vegna aðgerðaleysis þjóðfélagsins í þessu mikla nauðsynjamáli. — Nú hefir barnaverndarráð farið fram á það, að veittar verði úr ríkissjóði 20 þús. kr. til barnaverndarheimila í landinu, sérstaklega til þess að reka dagheimili fyrir börn og unglinga. Það er fyrir fjárskort og getuleysi þeirra félaga, sem hafa áhuga fyrir þessu máli, að ekki eru fleiri slík heimili starfrækt hér á landi. Hefi ég komizt að raun um það fyrir nána athugun á því máli. Fyrir nokkrum árum tóku ýmsar konur á Siglufirði sig saman um að stofna þar dagheimili fyrir börn; þar er þörfin ákaflega mikil fyrir slík heimili, einkum um sumarmánuðina. Heimilið starfaði í 2 ár; en svo höfðu konurnar ekki bolmagn til þess að halda því lengur áfram, vegna fjárskorts. Sama er að segja um Akureyri. Þar hefir verið notaður skúr til bráðabirgða í þessum tilgangi, og mjög af vanefnum gerður vegna fjárskorts, en þar þarf að koma upp húsi fyrir barnaheimili fyrr eða síðar.

Það, sem vakir fyrir barnaverndarráði, er að fá heimild fyrir 20 þús. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði í þessu augnamiði. Mætti þá sameina þetta tvennt, það, sem farið er fram á í þessu frv., og hitt, sem fyrir barnaverndarráði vakir. Það, sem nú er mest aðkallandi, er að fá fé til þess að styrkja fátæka foreldra til að koma börnum sínum fyrir á góðum stöðum í sveitum, sérstaklega þeim börnum, sem fyrir misheppnað uppeldi er hætt við hrösunum. Það verður að bjarga þeim í tæka tíð upp úr soranum. — Mér dettur í hug í þessu sambandi það, sem haft er eftir Matthildi Wrede, sem kölluð hefir verið vinur fanganna. Hún sagði : „Þegar ég fer inn í fangelsin til að tala við fangana, þá finnst mér ég vera að fara niður í námu til þess að leita að gulli og hreinsa það frá soranum.“ — Þegar við erum að leitast við að bjarga börnunum frá ófarnaði, þá erum við að forða því, að gullið týnist í soranum.

Með þessum orðum leyfi ég mér að leggja frv. fram fyrir hv. þd., og legg ég til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.