18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

108. mál, fræðsla barna, skipun barnakennara og laun

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ástæðan til þess að ég flyt þetta frv. er m. a. sú, að fjvn. sú, sem starfaði fyrir jól í vetur, tók til athugunar og gerði einfaldar till. í þá átt að færa saman kennslu meira en nú er, þannig að nokkur sparnaður gæti orðið. Öllum er það ljóst, að kennarastéttin er mjög óánægð með sín kjör, og hefir ástæðu til þess, eða mjög margir af kennurum landsins. — Í þriðja lagi liggur fyrir Nd. frv., sem er mjög stórt og ýtarlegt og á margan hátt mjög vel undirbúið, um allróttækar breytingar á fræðsluskipulaginu. En það er heldur ósennilegt, að það sé hægt, a. m. k. á svo stuttum tíma sem eftir er af þessu þingi, að leggja línur um framtíðarskipulag barnafræðslu. Þess vegna hefi ég reynt að leggja fram bráðabirgðatillögu um barnafræðslu og skipun kennara, sem miðar að því að taka þetta miklu einfaldar og reyna að skapa nokkurskonar milllbilsástand í 3 ár, meðan verið er að þoka þessu máli í þá átt, sem vakir bæði fyrir þeim, sem standa að þessu frv., og stóra frv. í Nd., en þó með allverulegri breyt., sem þar er gert ráð fyrir. Þetta byggist á því, að menn eru sannfærðir um, að ekki er hægt að gera gagnkvæma breytingu á fræðsluskipulaginu allt í einu; menn eru að ýmsu leyti ekki undir þessa breyt. búnir, og tíminn ekki hentugur til hennar nú. N. hefir ekki verulega trú á, að það þýði að tala um skólabyggingar í stórum stíl eins og nú stendur. Við vitum, að það hefir verið erfitt í þinginu að styðja það litla, sem gert hefir verið í því máli upp á síðkastið. Það er ekki hægt að neita því, að almenningur í landinu, er ekki búinn að átta sig á því, hvernig hann vill koma þessu máli fyrir til frambúðar. Ég hygg þess vegna, að sú tilraun, sem gerð er hér til að skapa millibilsástand, meðan verið sé að þreifa sig áfram, sé réttlætanleg, og geti allir verið sammála um að gera hana.

Í öðru lagi eru tvær fjárhagslegar breyt. frá því, sem er. Önnur á að vera til hagsbóta fyrir kennarana, en hin til hagsbóta fyrir gjaldendur. Það er í stuttu máli það að færa saman, eða ætla hverjum kennara meira verk en nú er, og jafnframt að bæta laun þeirra að nokkru. Dýrtíðin er nú mest hér í bænum og mest fyrir fjölskyldumenn. Og þar er líka gert ráð fyrir, að með þessari mjög auknu vinnu komi húsaleigustyrkur, sem væri nokkuð miðaður við það, hvað dýrt er að lifa hér. Það er einskonar staðaruppbót.

Eins og ég hefi tekið fram í aths. um þetta frv., þá byggist það að dálitlu leyti á því, að frv. um kennslubækur, sem liggur fyrir Nd., gangi fram, sem eftir minni hyggju á að geta gert mögulegt, að börnin þurfi minna að vera undir kennara hendi heldur en verið hefir. Þetta er auðvitað spádómur, en mér finnst þá vera til lítils barizt, ef ekki fást einmitt betri kennslubækur með hinu nýja útgáfuskipulagi. Og í þessu sambandi vil ég taka það fram, að við, sem sumpart höfum kennt börnum og kennum unglingum, við vitum, að þó að barnafræðslan sé ákaflega nauðsynleg og að mörgu leyti vel framkvæmd, þá hefir enn ekki tekizt að koma henni í það lag, sem maður gæti óskað. Ég get sagt t. d. um eitt þekkingaratriði, sem mikil áherzla er lögð á í barnaskólunum, reikninginn, að í langflestum unglingaskólum verður að byrja svo að segja á því léttasta í einskonartölum með unglinga frá fermingaraldri til tvítugs. Þeir taka sjálfsagt fyrr við sér, sem hefir verið kennt sem börnum, en það er ómögulegt að neita því, að bæði í þessu efni og öðrum er ekki hægt að ganga út frá, að öll þekking, sem reynt er að láta börnin hafa á skólaskyldualdri, beri tilætlaðan ávöxt. Það er náttúrlega eðlilegt, að ýmsu sé ábótavant, af því að við höfum haft mjög slæma aðstöðu og litlar kennslubækur, lítil áhöld, lítilfjörleg húsakynni, lítt launaða kennara og stundum ekki vel undirbúna kennara, og þetta allt af skiljanlegum ástæðum. En það, sem þjóðin hlýtur að stefna að, bæði vegna kennara, barna og foreldra, það er að hafa eins fáa kennara og unnt er, launa þeim sómasamlega og ætlast til allmikillar vinnu af þeim.

Nú fylgja þessu ekki að vísu neinar hagskýrslur, en ég hefi fengið hjá fræðslumálaskrifstofunni skýrslur þær, sem birzt hafa í dagblöðum bæjarins og vöktu eftirtekt, m. a. fyrir það, hvað fá börn eru í sumum skólum. Það eru ekki svo óvíða aðeins 6–10 börn hjá kennara. Náttúrlega er þetta engin vinna fyrir kennarann. Ennfremur kom fram greinilega, hvað kostnaðurinn er misjafn í landinu. Í vissum farskólahéruðum er kostnaðurinn á milli 20 og 30 krónur á barn. Á öðrum stöðum er hann 260 krónur. Það hefir ekkert verið gert til að samræma þessa hluti. Kennararnir eru illa settir, mörg börn fá ekki viðunanlega kennslu, og sum fá næstum að segja of mikla kennslu. Ég hefi vikið að því í aths. þessa frv., að það er eðlileg og réttlát krafa, sem kennarasambandið hefir gert, að vandað sé enn betur til kennaramenntunarinnar en verið hefir undanfarið. Ég vil í þessu sambandi taka það fram, að ég sé enga ástæðu til annars, þegar svo feikilega mikið er til af stúdentum í landinu, sem búnir eru að fá tiltölulega góða kennslu og vita ekki, hvað þeir eiga að gera við sína þekkingu, heldur en að nota starfskrafta þeirra á þessu sviði. Ég sé ekki annað en að það geti meir en komið til mála, að stúdentar, sem komnir eru yfir tvítugt –og mætti búast við, að þeir hefðu þá alvöru, sem með þyrfti, — gætu fengið kost á því aðallega að ganga inn í kennarastéttina, með því áframhaldi, sem gert er ráð fyrir í lögunum um háskólabyggingu.

Ég hefi ennfremur gert nokkrar, en ekki djúptækar breytingar á því, hvað skuli vera kennt börnum á skólaskyldualdri. En ég hefi gert þetta einfalt, og sumpart hefi ég gert ráð fyrir, að þau geti aflað sér þekkingar með sjálfstæðum bóklestri. Því að þessi ráðagerð, að tveir til þrír hreppar í sveit séu um sama kennara, byggist á því, að fyrst um sinn yrði að verulegu leyti eftirlitskennsla. En á hinn bóginn stefnir þetta frv. eins og frv. í Nd. að því að gera ráð fyrir, að þegar menn eru búnir að átta sig á, hvernig þeir geti unnið saman, þá verði 2–3 hreppar um sama heimavistarskólann yfirleitt, án þess þó að ég vilji að svo stöddu ganga inn á, að öll börn eigi að vera í heimavist. Ég hefi þá trú, að kennari eigi að geta tekið heim til sín svona 10 börn í einu, en börnin geta á mjög mörgum heimilum fengið sína aðalkennslu heima, með eftirliti kennarans.

Við, sem höfum staðið að því að auka útgjöld við unglingafræðslu í landinu, getum tæplega litið öðruvísi á en að það sé fullkomin ástæða einmitt um leið og unglingafræðslan batnar í sveitum og bæjum, að þá sé komið við sparsemi og hagsýni á ýmsan hátt í barnafræðslunni meir en verið hefir, og að því miða þessar tillögur. Ég vildi svo óska, að þessu frv. yrði að lokinni umr. vísað til menntmn.