18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2952)

108. mál, fræðsla barna, skipun barnakennara og laun

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun ekki mæla gegn því, að frv. nái að ganga til nefndar, en ég hygg heppilegast, að það fengi þar hægan dauðdaga.

Eins og hv. flm. tók fram, hefir verið gerður mjög ýtarlegur undirbúningur að breytingu fræðslulaganna. Sérstök milllþinganefnd hefir fjallað um þetta mál. Frv. var síðan lagt fyrir Alþingi og loks leitað álits fræðslu- og skólanefnda svo að segja um allt land um frv. Lagðar voru fyrir nefndirnar alveg ákveðnar spurningar, og fengust svör frá langflestum skólanefndum og skólastjórum í landinu. Ég held, að það séu ekki mörg frv. öllu betur undirbúin en þetta frv. til fræðslulaga, sem liggur fyrir Nd. Ég sé ekki heldur neina sérstaka agnúa á að samþ. þetta frv. Þessi röskun, sem hv. þm. talaði um í sambandi við það, hygg ég, að sé á engan hátt meiri en fylgdi því að samþ. frv. hans sjálfs. Um byggingu heimavistarskóla, sem um ræðir í frv. í Nd., fer að sjálfsögðu eftir fjárveitingum, sem þingið heimilar í hvert sinn. Hitt liggur í augum uppi, að ef horfið verður að því að hafa skólahéruðin stærri en nú, þá er það mesta fásinna að halda áfram eins og gert hefir verið, að byggja barnaskólahús fyrir einn hrepp án athugunar á því, hvort hann gæti sameinazt öðrum hrepp um skóla, einum eða fleiri. Þeim peningum væri að mestu fleygt í sjóinn, en um byggingar verður að sjálfsögðu ekki að ræða, nema smátt og smátt, svo sem þingið veitir fjárframlög til á hverjum tíma.

Ég mun ekki við þessa umr. fara inn á einstök atriði frv. Hv. flm. segir, að þetta eigi að vera bráðabirgðalausn. En ég sé ekki betur en að þau atriðin, sem mestu máll skipta, t. d. fjöldi kennara, séu tekin upp úr frv. því, sem nú liggur fyrir Nd., en eru slitin úr samhengi, og verður þetta frv. því miklu ófullkomnara og lausara og að öllu óheppilegra. — Ég sé ekkert á móti því, að frv. fari til n., en vona, að frv. það, sem nú er í Nd., gangi fram.