18.04.1936
Efri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

108. mál, fræðsla barna, skipun barnakennara og laun

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég ætla ekki að fara að kappræða þetta mál nú við hv. flm., en það eru aðeins tvö atriði, sem ég vildi drepa á. Að því er snertir það atriði, að hægt sé að segja kennurunum upp og skipta árlega um við heimavistarskóla í sveitum, þá má eins koma að brtt. enn hér í hv. d. En þetta atriði má skoða frá fleiri sjónarmiðum, og virðist undarlegt, ef nauðsyn er að hafa það svo við sveitaskólana, hvers vegna það er ekki eins við kaupstaðaskólana.

Að því er snertir það, sem hv. þm. sagði um Eskifjörð, að skólastjórinn þar hefði eyðilagt bæði skólann og þorpið, þá er það vissulega mjög ofmælt. Þó ég sé ekki ánægður með störf hans þar, er það fjarstæða, að hann hafi eyðilagt þorpið. Það hafa margir staðir svipaða sorgarsögu að segja.

Aðalatriðið í þessu er það, að frv. Nd. er miklu betur undirbúið, en upp í hitt er aðeins tekið hrafl, sem auðvelt er fyrir hv. flm. að flytja um brtt., þegar frv. Nd. kemur hingað í d.