25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir ekki skýrt frá öðru en því, sem ég benti á, að vel gæti komið til mála, að ekki verði þörf á eignarnámi, heldur geti orðið samkomulag við veiðieigendur um að fá að reisa klakstöð og taka laxinn gegn því að láta aftur af hendi seiði, sem svarar veiðinni, sem tekin er. — Þá sagðist hv. þm. ekki vera viss um, að Laxá í Kjós væri hentug, og færði fyrir því þá ástæðu, að þar væri yfirgnæfandi smálax. Það má kannske segja, að þetta sé rétt, borið saman við stórlaxinn í Hvítá og Ölfusá. Þó er vert að geta þess, að þar er líka mikið af smálaxi; þó hann veiðist ekki mikið í net, þá gengur hann í smáárnar.

Í Laxá í Kjós er heldur ekki svo lítið af stórlaxi, a. m. k. fyrri part veiðitímans; þá veiðist lítið undir 8 pd. og einstaka lax 20 pd.; mikið 15–l6 pd. En hitt er rétt, að seinni part sumars er hann miklu smærri. (PM: Það eru til ár, sem hafa 14 pd. meðalþyngd). Það má vel vera, að svo sé í einstökum ám á Norðurlandi, en þó er ekki sannað, að þar sé um sérstaka tegund að ræða, þó hv. 10. landsk. teldi ummæli hv. 2. þm. Rang. fullgilda sönnun um, að laxinn í Laxá í Kjós væri lakari til undaneldis en lax úr öðrum ám. En hv. 2. þm. Rang. talaði mjög varlega um þetta og sagði, að ýmsir álitu, að þetta væri önnur tegund. (ÞBr: Það er álit fiskifræðinga). Ég skal geta þess, að fyrir nokkru voru flutt í Elliðaárnar seiði úr stórum laxi frá Soginu, sem skipti hundruðum þús. Er ég ekki frá því, að eftir hæfilegan tíma mætti sjá, að gengin væri í ána önnur tegund af laxi. (PM: Er nokkur vafi á því?). Var þessi nýja tegund styttri, en þykkari og munur á þyngd ekki gífurlegur, líklega ½–1 pd., eða ekki yfir það. Það getur verið, að þetta hafi ekki verið sama tegund og áður gekk í Elliðaárnar, en munurinn var ekki svo verulegur, að hægt sé að búast þar við stórlaxi. En það má vel vera, að áin sé of vatnslítil fyrir stóran lax. Það mun vera svo, að smærri laxinn gangi í litlu árnar, en ég tel vel sæmilegan þann lax, sem gengur í Laxá í Kjós. — Ég skal játa, að það er rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að það er meira virði þegar til lengdar lætur vegna stangarveiðinnar, ef hægt væri að sanna, að stærri laxar fengjust. Þó eru ekki margir útlendingar, sem það mundu stunda. Það væru þá einkum Englendingar, en það er rétt, að þeir borga meira, ef laxinn er stór, þó færri veiðist. En ég efast um, að við séum komnir svo langt, að við getum tekið einstaka á út úr og alið þar upp kynbótalax til þess að stækka allan laxinn. Ég efast um, að þekking okkar í fiskifræðum sé ennþá svo mikil, að hægt sé að treysta henni í þeim efnum. Hitt vitum við, að ef klakið er út, vex upp sterkur stofn og mikil veiði kemur í árnar, ef laxinn er varinn fyrir ágengni haust og vor.

Ég held, að í frv. sé ákaflega forsvaranlega frá þessu gengið. Þó rannsóknir kynnu síðar að leiða í ljós, að hentara væri að hafa einnig klakstöðvar við stærri ár, þá yrði að byggja þar líka. Það segir lítið, þó byrjað verði við tvær ár, því í framtíðinni mun það verða algengt, að menn koma upp klaki og fylla ár og vötn og fossa með laxi, og þá læra menn að hagnýta sér veiðina á arðvænlegri hátt en nú, með öðrum og hagkvæmari aðferðum.

Ég vil mælast til, að frv. verði samþ. óbreytt. Skal ég geta þess, að 4. gr. segir ekki skilyrðislaust, að taka skuli allar árnar leigunámi, heldur stendur þar, að það skuli gert „að einhverju eða öllu leyti“. Það getur vel farið svo, að frá hendi ríkisstj. verði ekki farið fram á annað en að fá að byggja klakhús og fá að taka seiði fyrir klakið, og er þá ekki fram á mikið farið. Hinsvegar er rétt, að ríkisstj. hafi um þetta frjálsar hendur. En eins og frv. er orðað, þykir mér líklegt, að ríkisstj. leggi í sem minnstan kostnað, en þó ætti þetta að geta byrjað í allmyndarlegum stíl.

Það á e. t. v. ekki við að fara út í að skýra einstakar gr. nú við þessa umr., og get ég því látið það bíða þar til síðar.