02.05.1936
Efri deild: 62. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Pétur Magnússon:

Fyrir utan brtt. þær, sem landbn. flytur, þá hefi ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 492, þess efnis, að 4. gr. frv. falli niður, en aðalefni þeirrar greinar er það, að takist stj. ekki að fá hagkvæma samninga um leigu á veiðiréttindum, þá sé henni heimilt að taka slík réttindi leigunámi um 10 ára skeið, og þetta er eingöngu bundið við veiðiréttindi í Laxá í Kjósarsýslu og Bugðu og í Meðalfellsvatni í Kjós, og á Norðurlandi við veiðiréttindin í Laxá úr Mývatni og Reykjadalsá í Þingeyjarsýslu. Með ákvæðum þessarar greinar er því slegið föstu, að klakið skuli rekið í nánd við þessi veiðivötn, en ekki annarsstaðar.

Það eru tvær ástæður fyrir því, að ég flyt brtt. þessa. Fyrst og fremst það, að ég tel óheppilegt að binda klakið við vissar ár. Og í öðru lagi tel ég ákvæði 4. gr. alveg óþarft, og byggi ég það álit mitt á því, að ég tel, að í 20. gr. laxveiðilaganna hafi stj. heimild til þess að láta veiða lax til klaks hvar sem er. Þetta ákvæði 20. gr. hljóðar svo: „Þrátt fyrir ákvæði 15.–19. gr. skal leyfilegt vera að veiða lax eða göngusilung hvenær sem er og hvar sem er og án tilits til stærðar til klaks eða vísindalegra rannsókna.“

Þessi heimild er svo yfirgripsmikil, að ég held, að það geti ekki komið til mála, að stj. lendi í vandræðum með að fá klak í klakstöðvar, ef hún á annað borð hverfur að því ráði að láta reisa þær. Mér virðist það liggja beint við, að stj. ekki síður en aðrir hljóti að hafa full réttindi til þess að láta veiða lax til klaks, og því sé með öllu þýðingarlaust að fara að heimila henni að taka veiðiréttindi í vissum ám eignarnámi.