18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2994)

84. mál, friðun Faxaflóa

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það mun enginn ágreiningur vera um það hér í hv. d., að það væri ákjósanlegt að geta fengið Faxaflóa friðaðan, og með því að ég veit, að þetta er ekki aðeins hagsmunamál okkar Íslendinga, heldur einnig allra þeirra þjóða, sem afla hér við land, þá get ég mælt með þessari till. Það er og ljóst, að ekki er hægt að sækja þetta mál á öðrum vettvangi en þeim, að fá aðrar þjóðir til þess að skilja, að það sé alþjóðlegt hagsmunamál, og engin líkindi til, að það fái framgang á annan hátt.

En ég get ekki látið þessa umr. fara framhjá mér án þess að benda á þá örðugleika, sem hafa reynzt á því hingað til að vekja aðrar þjóðir til skilnings á þessu máli. Á ráðstefnu í Haag 1930 var minnzt á að færa út landhelgina á vissum svæðum, en þá var því mjög dauflega tekið, og sérstaklega af Bretum (sem hér hafa mestra hagsmuna að gæta), að það gæti komið til mála, að Faxaflói yrði friðaður.

Á síðastl. sumri var haldinn fundur í Kaupmannahöfn og þar rætt um, að fiskur í Norðursjónum væri að ganga til þurrðar, og hvað hægt væri að gera til þess að hindra það. Í þessu sambandi var rætt um ýmislegt, sem gæti orðið að liði í þessu efni, svo sem að samþ. vissa möskvastærð á netum o. fl. Þegar spurt var um það, hvort Íslendingar vildu taka þátt í þessum samþykktum, var því ýtt fram, að slíkt gæti komið til mála, ef Faxaflói fengist friðaður, en af fulltrúa Breta var því tekið mjög kuldalega.

Nú er það rétt, að Norðmenn hafa gert samþykkt um að færa út landhelgislínuna og lýst því yfir, að þeir hafi fært hana út samkv. 4 mílna reglunni. Nú vitum við það, að Bretum er illa við 4 mílna regluna og vilja halda 3 mílna reglunni, sem hér er. Það er rétt, að þeir hafa þess vegna látið Norðmenn skilja það, að þeir vildu heldur friða einstök svæði, þar sem sérstaklega væri ástæða til þess vegna ungfisks, og viðvíkjandi þeirri till. um friðun Faxaflóa, sem hér liggur fyrir, þá vil ég taka það fram, að það er eðlilegt, að fram komi raddir um, að reynt sé að leysa það mál í sambandi við þann ágreining, sem risið hefir á milli Norðmanna og Englendinga. Ég get þess vegna mælt með því, að þessi till.samþ., og einkum vegna þess, að ríkisstj. hefir þegar rætt um að leysa þetta mál, og einmitt í sambandi við þennan ágreining milli Norðmanna og Englendinga.