15.02.1936
Sameinað þing: 1. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (Sigfús Jónsson):

Áður en tekið verður til starfa, vil ég minnast fáum orðum tveggja nýlátinna fyrrv. alþingis¬manna, þeirra Sigurður Gunnarssonar præp. hon. og Sigurðar Hjörleifssonar Kvarans fyrrv. héraðslæknis.

Sigurður Gunnarsson fæddist á Desjamýri 25. maí 1848, og voru foreldrar hans Gunnar Gunn¬arsson, síðar bóndi á Brekku, og Guðrún Hall¬grímsdóttir, bónda á Sandfelli í Skriðdal Ás¬mundssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1870, lauk guðfræðiprófi í prestaskólanum 1873 og stundaði eftir það kennslustörf, fyrst í Reykjavík, en síðar á Ísa¬firði, til 1878, er hann fékk veitingu fyrir Ási í Fellum. Eftir 5 ára prestþjónustu þar var honum veitt Valþjófsstaðarprestakall, er hann þjónaði til 1894, en þá var hann kjörinn prestur að Helgafelli. Þjónaði hann því prestakalli til 1916, er hann fékk lausn frá embætti sakir raddbil¬unar. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og dvaldist þar til æfiloka. — Prófastur Norður-Múlaprófastsdæmis var hann 1890–1894 og Snæfellsnesprófastsdæmis 1895–1916.

Hann var 1. þm. Sunnmýlinga 1891–1899, en þingmaður Snæfellinga 1909–1911 og 1914–1915. Hann andaðist að heimili sínu 7. janúar síðastl. Séra Sigurður Gunnarsson var hið mesta

glæsimenni ásýndum og hélt sér vel uppi, hinn prúðasti í framgöngu, íturvaxinn og hinn snarlegasti, svo að frá bar, lipurmenni mikið, lagði jafnan gott til mála, enda göfugmenni í hvívetna. Var hann manna vinsælastur á þingi, og kom vel fram sínum málum, er jafnan horfðu frelsi lands og þjóðar til vaxtar og viðgangs.

Sigurður H. Kvaran fæddist 13. júní 1862 í Blöndudalshólum, sonur séra Hjörleifs Einarssonar, síðast prests á Undirfelli í Vatnsdal, og fyrri konu hans, Guðlaugar Eyjólfsdóttur, bónda á Gíslastöðum Jónssonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavík 1883 og lauk embættisprófi við háskólann í Kaupmannahöfn 1893. Sama ár var hann settur aukalæknir í Höfðahverfishéraði og skipaður læknir þar 1900. 1904 sótti hann um og fékk lausn frá embætti g gerðist skömmu síðar ritstjóri blaðsins Norðurlands á Akureyri. Gegndi hann því starfi til 1912 og stundaði jafnframt lækningar. Meðritstjóri Ísafoldar var hann 1912–1913, en þá var hann settur héraðslæknir á Eskifirði, og skipaður þar 1914. 1928 var honum veitt lausn frá embætti. og fluttist hann þá til Reykjavíkur.

Hann var þingmaður Akureyringa 1909–1911 og 2. þm. Sunnmýlinga 1920-l923.

Í milliþinganefnd um fjármál landsins var hann kosinn á Alþingi 1911.

Hann andaðist af hjartaslagi 2. þ. m. Sigurður H. Kvaran var fastur maður í skoðunum og vintraustur, jafnan hinn áhugasamasti um stjórnmál, þótti vel liðgengur á þingi og að mörgu nýtur þingmaður, þótt aldrei væri hann í fylkingarbrjósti. En framarlega stóð hann í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, og munu þeir enn margir, sem ljúft er þess að minnast.

Að svo mæltu bið ég hv. þingmenn að heiðra minningu þessara mætu manna með því að rísa úr sætum sínum.

Allir þm. stóðu upp.